Reykjavíkurmaraþonið er að skella á, í þrítugasta og fimmta skipti. En hver er saga þessa risastóra keppnisviðburðar? Við skulum segja ykkur það.

Ein útgáfan er svona: Í Morgunblaðinu 23.september 1983 er frétt þar sem Knútur Óskarsson framkvæmdastjóri innanlandsdeildar Úrvals, ferðaskrifstofu, orðar hugmynd að maraþonhlaupi í Reykjavík, sem „nýjung í ferðamannaþjónustu á Íslandi“. Skíðagangan Lava Loppet hafði þá farið fram ári áður í samstarfi við Flugleiðir og Skíðasamband Íslands. Hún þótti heppnast ljómandi vel. Í kjölfarið þótti tilhlýðilegt að efna til maraþons.

„Þetta hlaup vakti töluverða athygli,“ segir Sigurður P. Sigmundsson maraþonhlaupari til áratuga og sigurvegari fyrsta Reykjavíkurmaraþonsins sem haldið var í ágúst 1984. „Veðrið var reyndar ekki upp á það besta. Það rigndi allan tímann. Ég man að Þorsteinn Einarsson, þáverandi íþróttafulltrúi ÍSÍ, stóð einn í vegarkantinum til móts við Þróttarheimilið við Sæviðarsund og rétti mér hvítan vasaklút. Mér fannst mikið til um þetta og hef ekki gleymt þessu ennþá. Í þá daga voru áhorfendur að götuhlaupum mjög fáir.“

„Hér er um að ræða einstakt tækifæri fyrir trimmara og aðra íþróttamenn, til dæmis skíðamenn, að taka þátt í sögufrægu móti.“ – Dagblaðið NT, 6.júlí 1984.

Siggi P. í dag.

Siggi P. var ekki bara fyrsti sigurvegarinn í Reykjavíkurmaraþoninu heldur átti hann líka besta tíma Íslendings í maraþoninu þar til í fyrra að Arnar Pétursson sló það met. „Það var engin keppni að ráði í þessu,“ sagði Sigurður í samtali við dagblaðið NT að loknu þessu fyrsta hlaupi. „Einn útlendingurinn fylgdi mér fyrstu 15-16 kílómetrana, en eftir það var ég einn.“ Á endanum lauk 51 karl hlaupinu og fimm konur. Leslie Watson frá Skotlandi sigraði í flokki kvenna, en hún var ein af betri hlaupakonum Skotlands.

Boðið var upp á hálfmaraþon og átta kílómetra hlaup að auki, sem Marta Ernstdóttir sigraði. Alls voru 214 manns skráðir til þátttöku í viðburðinum, 135 Íslendingar og 79 frá öðrum löndum. Reykjavíkurborg, Úrval, Frjálsíþróttasambandið og Flugleiðir stóðu að þessu, en auk Knúts hjá Úrval var Steinn Lárusson hjá Flugleiðum mikill hvatamaður að haupinu. Gunnar Páll Jóakimsson var fyrsti framkvæmdastjórinn.

Og Sigurður kom töluvert að undirbúningnum segir hann: „Ég tók töluverðan þátt, s.s. við gerð kynningarbæklings, val og lagningu hlaupaleiðar og ýmis önnur skipulagsatriði enda hafði ég þá þegar töluverða reynslu af keppni í maraþonhlaupum.“

Og allt tókst þetta vel. Góður rómur var gerður. Árið eftir skráðu 546 manns sig til þátttöku. Þar á eftir 960. Framhaldið er þekkt.