Fyrir skömmu birtum við myndband sem sýndi úr hjálmmyndavél Léo Remonnay þegar hann hjólaði í Mountain of Hell, hjólakeppninni í Les Deus Alps í vor. Svimandi ofsareiðin niður fjallið vakti mikla athygli en við vissum ekki af neinum íslendingi sem hefur tekið þátt í keppninni. Fyrr en nú.
Sturla Þór Jónsson tók þátt í ár en hann hefur líka hjólað í Megaavalanche keppninni sem haldin er í franska bænum Alpe D´Huez. Sturla Þór segir þetta ólíkar keppnir en við báðum hann um að lýsa þessari reynslu.
„Í Mountain Of Hell leggja 800 keppendur mjög snemma af stað eða áður en snjórinn fer að bráðna en þetta er jökull sem byrjað er á. Þetta þýðir að þjappaður ísinn er eins og að hjóla á malbiki en það er hinsvegar lítið sem ekkert grip ef maður þarf að bremsa og svo á hjólið það líka til að rása til. Ef maður þorir þá getur maður auðveldlega náð yfir 100km hraða og þeir sem eru fremstir hafa náð 125km hraða. Fyrsti hlutinn þarna er beinn og mjög brattur og besti staðurinn að vinna upp sæti en það er auðveldara sagt en gert……því ef maður ákveður að fara hratt þ.e.a.s yfir 70km hraða þá er alltaf hætta á að lenda aftan á einhverjum sem fer hægt eða fer fyrir mann. Það er ekki auðvelt að beygja framhjá því gripið er svo lítið og ef maður lendir aftan á einhverjum, sem gerist oft, þá er eins gott að halda fast í hjólið því annars getur það orðið löng fjallganga upp jökulinn að ná í það.
Í Megavallanche, vegna þess að við erum á littlum fjallstopp í, að ég held, 3400m hæð og lítið pláss fyrir alla í startinu, þá er hleypt í 200-300 manna hollum. Ef maður er svo heppin að vera í fyrra hollinu og framalega á ráslínu þá er þetta nánast eins og MOH. Ég var í seinna holli sem lagði töluvert seinna af stað um daginn og ísinn var orðin mjög laus og svo erfiður að maður réði ekkert við hjólið. Stemmingin þarna var allt öðruvísi en á MOH. Það voru nánast allir að detta um hvorn annan og mikið hlegið yfir þessu. Svo þegar kom að vinstri beygjunni niður!!!…..Úff…..Ólýsanlega bratt, nánast lóðrétt, enda settust flestir á rassinn og flugu niður á honum með hjólið í fanginu á 20-30km hraða, svo bratt var þetta.
Ég var að taka þátt í MOH í annað skiptið og þessi ofsalega hræðsla sem ég var með í fyrra var enn til staðar ég lýg því ekki. Til að komast yfir hana mætum við félagarnir alltaf 5 dögum áður og hjólum þetta úr okkur. Núna í ár gekk mér töluvert betur en síðast en eftir að ég er komin niður jökulinn klárast bremsuborðarnir að aftan! Ég ákvað þó að halda áfram og klára eftir að hafa flogið nokkrum sinnum á hausinn vegna bremsuleysis.
Fyrir MEGA fór ég vel yfir hjólið og sú keppni gekk alveg eins og í draumi. Ákvað að hvað sem á stóð myndi ég ekki fara af hjólinu niður ísinn og náði að vinna mér upp ofsalega mörg sæti. Þegar á leiðarenda var komið átti ég erfitt með að átta mig á hvernig í ósköpunum mér tókst þetta svona ofsalega vel! Það sem er mest hættulegt við þetta er að ef maður tekur einusinni þátt þá er maður gjörsamlega forfallinn.“
Hér eru myndbönd sem Sturla hefur tekið í keppnunum.