Um 170 manns spreyttu sig á Landvættasundinu í Urriðavatni við Egilsstaði í gær. Sundið er tveir og hálfur kílómetri. Sundið er þriðja þrautin af fjórum sem þarf að klára á einu ári til að gerast Landvættur.

Sundgarpurinn og sundþjálfarinn hjá Þríkó, Hákon Jónsson, kom fyrstur í land á frábærum tíma: 00:40:21. Það má segja að Hákon hafi verið að sýna nemendum sínum hvernig á að gera þetta, en þeir sem reyna sig við Landvættaþrautirnar á vegum Ferðafélags Íslands sækja jafnan námskeið til Hákons í skriðsundi.  Fyrst kvenna í land var Hafdís Sigurðardóttir, líka á frábærum tíma: 00:42:51.

Sundið var þreytt í þremur hollum. Í fyrstu tveimur hollunum var þoka en stilla. Í þriðja hollinu gaf í vind þannig að öldugangur varð meiri.