Bláalónsþrautin fór fram á laugardagskvöld í rigningu og mótvindi. Brautin var með erfiðasta móti og minnti vel á af hverju þetta er flokkað sem fjallahjólakeppni.

Djúpir pollar voru á leiðinni, gljúpir moldar- og malarkaflar auk þess sem brekkurnar voru með grófasta móti. Keppendur þurftu því að hafa vel fyrir því að ljúka keppni og ætla má að sjaldan eða aldrei hafi jafn skítugur hópur komið saman við Bláalónið eins og á laugardagskvöld. Mikið var um sprengd dekk og amk ein framgjörð í döðlum. 5 manns rákust saman við beygjuna inná Krísuvíkurveg og urðu einhver meiðsl á fólki en ekki hefur spurst hversu alvarleg.

María Ögn Guðmundsdóttir vann í kvennaflokki í sjöunda skiptið og var tæpum 12 mínútum á undan næstu konu á eftir, Höllu Jónsdóttur. Hún var í 35. sæti í keppninni allri.  Ingvar Ómarsson hafði betur gegn þeim Hafsteini Ægi Geirssyni og samferðamanni hans frá því í fyrra Louis Wolf. Þetta er í níunda skiptið sem Ingvar reynir að sigra keppnina en siðustu 5 skipti hefur hann verið á palli.

Louis, Ingvar og Hafsteinn. Mynd: Albert Jakobsson

Hann stakk af við Hrútagil, fyrir stóru brekkuna við Djúpavatn, en fékk svo þær fréttir að ein mínúta væru í næstu menn þegar hann kom að Ísólfsskálabrekkunni. Svo segist Ingvari frá á Facebook síðu sinni:

„Á þessum tímapunkti var ég orðinn þreyttur og kaldur, og orkulaus. Í fyrsta skipti á ferlinum neyðist ég til að viðurkenna að ég var ekki nógu vel klæddur. Þar hafiði það. Puttarnir dugðu ekki til að opna gel, kreista (eða grípa) brúsa, ekki einu sinni til að skipta um gír, þar var lófinn notaður.

Það var byrjað að hægjast hressilega á mér í Grindavík, með litla tíu kílómetra eftir, og ég sá einhvern dökklæddan nálgast. Stuttu seinna sá ég að þetta var Hafsteinn sem gladdi mig smá; Ísland í efstu tveimur sætunum. Í allri þessari keppni [ … ] voru síðustu þrír kílómetrarnir erfiðastir. Ég var bugaður, og bensínlaus.

Kom í mark, fyrstur, aðeins 4 sek á undan Haffa.“

Hér er linkur á um 800 myndir sem Kristinn Atlason tók í keppninni.