Metþátttaka var í Hvítasunnuhlaupi Hauka og Sportís á annan í Hvítasunnu. Svo virðist sem einhvers konar samkomulag hafi verið gert við náttúruöflin um að gera hlé á afspyrnuleiðinlegu veðri rétt á meðan hlaupið var.
Alls tóku 408 manns þátt, en hlaupnar voru þrjár vegalengdir, 14 km, 17,5 km og 22km. Veðrið var milt og þægilegt, mjög gott hlaupaveður. Brautin þótti fín og hlaupaskilyrði góð.
Hlauparar höfðu á orði að virkilega vel hafi verið staðið að hlaupinu, merkingar góðar, brautarverðir margir og síðast en ekki síst: Allir í stuði og hvatningin mikil.
Fyrstur í mark af körlum í 22 km hlaupinu var Ingvar Hjartarson á tímanum 01:25:30. Elín Edda Sigurðardóttir sigraði í flokki kvenna á tímanum 01:40:03.
Í 17,5 km hlaupinu sigraði Sigurjón Ernir Sturluson í flokki karla á tímanum 01:13:03, og Anna Karen Jónsdóttir sigraði í flokki kvenna á tímanum 01:30:47.
Í 14 km hlaupinu kom Arnar Pétursson fyrstur í mark á tímanum 00:53:15 og í flokki kvenna sigraði Andrea Kolbeinsdóttir á tímanum 01:02:04.
Veitt voru vegleg verðlaun, líka úrdráttarverðlaun, að hlaupi loknu ásamt góðum veitingum.