Í sjötta og síðasta þætti Úti – í bili að minsta kosti – er farið á Kirkjufell með Baltasar Kormáki leikstjóra og Jóni Gauta fjallagarpi og svo farið í sjósund með nokkrum valinkunnum samfélagsmiðlastjörnum.
Þátturinn talar sínu máli. Öllum má vera ljóst eftir að hafa fylgst með viðureigninni við Kirkjufell að þar er um að ræða leiðangur sem hentar ekki öllum. Dauðsföll hafa orðið í fjallinu enda er það ákaflega varhugavert uppgöngu og bratt. Flest er hins vegar yfirstíganlegt ef farið er með gát og allt öryggi tryggt, eins og þátturinn sýnir.
Ekki þarf heldur að fjölyrða um það, að ef fólk hefur hugsað sér að svífa niður af Kirkjufellinu í fallhlíf, að þá er mjög nauðsynlegt að kunna mjög vel á slíkar græjur. Við hjá Úti tökum húfu okkar ofan fyrir þeim ofurhugum. Og öfundum þá smá fyrir að geta þetta.
En hér eru nokkrar grunnstaðreyndir um leiðangurinn:
Kirkjufell:
Fjarlægð frá Reykjavík: 175 km / 3 klst.
Aðgengi: Aðeins fyrir vant fjallafólk. Ekki fyrir lofthrædda
Hæð: 463 m
Vegalengd: 3 km
Tími: 5-6 klst.
Svo er farið í sjósund í þættinum. Það er alltaf hægara sagt en gert, að stinga sér ofan í jökulkaldan sjóinn. Hér er gott viðtal um sjósund. Og hér eru grunnupplýsingar fyrir þá sem vilja prófa:
Nauthólsvík:
Vetraropnun: Mán, mið, fös og laug
Sumaropnun: Alla daga frá kl. 10-19
Sjóhiti (í þættinum): 4,4°
Sjótími: 20-60 sek fyrir byrjendur
Hefðbundið sund: 300 m meðfram strönd