Sjósund er ávanabindandi, segir Birna Bragadóttir hótelstýra og – eins og rakið er í fimmta þætti Úti – Landvættur.
Margir eiga erfitt með að skilja hvað það er sem dregur fólk upp úr sófanum og ofan í jökulkaldan sjóinn. Í 2.tbl tímaritsins Úti lögðum við nokkrar spurningar fyrir Birnu sem hefur kolfallið fyrir sjósundssportinu eins og svo margir aðrir. Af hverju er hún að þessu? Hvernig byrjar maður? Hvað ber að varast? Hér eru svörin:
Hefurðu stundað sjósund lengi?
„Ég prófaði sjósund í eitt skipti árið 2009. Þá rétt dýfði ég mér í sjóinn í nokkar sekúndur og sá ekki fyrir mér að stunda þetta. Það tók mig sjö ár að manna mig upp í að synda aftur.“
Hvers vegna byrjaðir þú?
„Sumarið 2016 hóaði Andrea vinkona mín okkur æskuvinkonurnar saman í Nauthólsvík til að prófa sjósund. Ég held að ég hafi dugað í u.þ.b. 10 sekúndur. Mér leið hins vegar vel eftir þetta skipti og það var eitthvað sem togaði mig í sjóinn á ný. Síðan þá hef ég stundað sjósund allan ársins hring.“
Syndirðu oft?
„Ég syndi að jafnaði þrisvar í viku og stundum oftar. Ég er alltaf með sundtöskuna mína í bílnum ef ég sé svigrúm í deginum til að fara. Ef maður vill rétt skjótast, þá tekur þetta örskamma stund.“
Hversu langt?
„Á veturna syndi ég oftast út að kaðli, eins og það er kallað, í Nauthólsvíkinni. Vegalengdin fer eftir því hvort það er flóð eða fjara og hvernig straumurinn liggur. Það tekur u.þ.b. 10-15 mínútur að synda þá vegalengd. Á sumrin syndi ég lengra. Það fer allt eftir því hversu langan tíma ég hef í hvert skipti.“
Hvar aðallega?
„Ég syndi oftast í Nauthólsvík, þar sem er frábær aðstaða til að stunda sjósund. Þar er aðgengilegt að fara í heitan pott og gufu eftir sundið og stutt fyrir mig að fara, þar sem ég bý nálægt.“
„Í hvert skipti sem ég kem upp úr sjónum líður mér eins og ég hafi sigrað sjálfan mig á ákveðinn hátt.“
Einhverjir uppáhaldsstaðir?
„Þar sem ég er frekar ný í sjósundi, þá á ég eftir að prófa marga nýja staði á Íslandi. Þegar maður stundar sjósund fer maður að horfa á sjóinn með öðrum augum þegar maður keyrir um landið, þar sem maður sér tækifæri til að synda víða. Það var skemmtileg upplifun að fara í sjósund á Drangsnesi. Einnig er vinkona mín með frábæra sjósundsaðstöðu við Skerjafjörðinn og það er mjög huggulegt að kíkja til hennar í sjósund og pottinn.“
Einhver afrek í sjósundi?
„Ég nýtti síðasta sumar vel til að stunda sjósund, þar sem ég var samhliða að æfa mig fyrir Urriðavatnssundið. Ég synti í tvígang fram og til baka yfir Fossvoginn og tók þátt í Íslandsmótinu í sjósundi, þar sem ég lauk við að synda 3000 metra. Það var með því erfiðara sem ég hef gert.
Einnig tók ég þátt í boðsundi frá Skerjafirðinum yfir til Bessastaða þar sem við enduðum í pottinum á Bessastöðum og í kaffi hjá Guðna forseta.“
Helstu áskoranir?
„Það er alltaf áskorun að fara í sjóinn og í hvert skipti sem ég kem upp úr sjónum líður mér eins og ég hafi sigrað sjálfan mig á ákveðinn hátt. Afrekin eru því fyrst of fremst persónuleg. Ég var t.d. mjög ánægð þegar ég fór að þora að setja hausinn í kaf og synda skriðsund í sjónum í sumar.“
Hvernig búnað notarðu?
„Á sumrin er ég með sundhettu og sundgleraugu. Þegar hitastigið í sjónum er komið niður fyrir 6 gráður fer ég að synda svokallað „svanasund“ og er þá í sundskóm, með vettlinga, húfu og ullarkraga.“
Hvað er erfiðast við þetta?
„Mér finnst alltaf erfitt að koma mér út í sjóinn og synda fyrstu sundtökin. En eftir nokkur sundtök fer manni að líða mjög vel.“
Hvað var erfiðast fyrst þegar þú prófaðir?
„Mér fannst erfiðast að koma mér út í sjóinn og vera í sjónum í meira en nokkar sekúndur. Einnig var mér svo kalt á höndunum að ég átti erfitt með að hafa þær ofan í.“
Hvað þarf að yfirstíga?
„Það þarf að yfirstíga það hvað sjórinn er kaldur. Mér finnst ágætt að horfa í átt að sólinni þegar ég fer út í og hugsa að sjórinn sé heitur. Svo þarf að hafa þrautseigju til að synda tíu sundtök. Þá fljótlega hættir maður að finna fyrir kuldanum og fer að líða vel. Ég átti líka í smá erfiðleikum með að venjast gróðrinum þegar það er fjara. Það lagaðist fljótt þegar ég fór að hugsa um gróðurinn eins og annan gróður á landi. Að ná ekki til botns getur líka verið sumum erfitt. Þá er um að gera að halda sig nærri landi.“
Hvað færðu út úr þessu?
„Ég hef ekki lesið neinar lærðar ritgerðir um áhrif þess á fólk að synda í köldum sjó. Ég hins vegar veit að sjósund gerir mér gott, lætur mér líða vel og er besta núvitundaræfingin. Það er alveg sama hvernig mér líður áður en ég fer að synda. Maður kemur alltaf upp úr endurnærður á líkama og sál eftir sundsprett. Það er eins og maður nái að núllstillast. Það er alltaf valdeflandi að koma upp úr sjónum og ég fæ það í hvert skipti á tilfinninguna að ég hafi náð að sigra sjálfa mig. Ég hef líka tröllatrú á því að sjóstund sé gott fyrir heilsuna og styrki ónæmiskerfið. Einnig finnst mér það draga úr bólgum og vera gott fyrir húðina.“
Einhverjar ráðleggingar til fólks sem vill prófa?
„Finna sér góðan sundfélaga. Ég á nokkrar góðar vinkonur sem stunda sjósund reglulega. Þetta er fyrir mér frábær leið til að rækta vinskapinn og eiga góða stund í heita pottinum á eftir. Svo er líka mikilvægt að byrja rólega og gefa sér nokkur skipti til að prófa. Muna líka að sjósund getur aldrei verið keppni. Það er mikilvægt að hlusta vel á líkamann, þar sem dagsformið getur verið misjafnt.
Vera líka búin að borða áður en farið er í sjóinn. Kuldinn tekur frá manni mikla orku og því mikilvægt að vera vel nærður. Svo er grundvallaratriði að synda aldrei einn og halda sig nálægt landi. Best er að fá manneskju með reynslu til að fylgja sér í fyrstu skiptin. Svo þarf að gefa sér tíma til að ná upp hita aftur í heita pottinum. Og varúð – sjósund er ávanabindandi!“