Nítján Íslendingar og um 26 þúsund aðrir luku Bostonmaraþoninu í gær. Hlaupararnir máttu sætta sig við fimm stiga hita, brjálað rok og rigningu. Það sem á Íslandi er kallað skítaveður.
Ein af Íslendingunum sem luku keppni er Tinna Laufey Ásgeirsdóttir prófessor við HÍ. Hún kom í mark á tímanum 03:40:17, og varð þar með nemendum sínum í heilsuhagfræði heldur betur góð fyrirmynd.
„Þetta voru brútal aðstæður,“ sagði Tinna í spjalli við Úti. „En auðvitað alltaf gaman.“
„Maður fer nú ekki til Boston til að glíma við svona aðstæður. Getur gert það í Laugavegshlaupum á Íslandi. En ég breytti bara viðhorfinu og stillti mig inn á að njóta þeirrar náttúruupplifunar sem getur falist í vondu veðri.“
Tinna segist hafa náð að æfa sæmilega fyrir hlaupið. „Ætlaði að æfa betur, en var frekar óheppin með heilsufar. Fékk tvisvar sinnum einhverja flensu og vesen með tá og eitthvað. En ég gerði það sem ég gat og reyndi að vinna úr þessu.“
Eins og fleiri sem kláruðu hlaupið í gær hefur Tinna æft með KR-skokk undanfarin ár, og stundum líka með Sigga P.
Stærstu tíðindi hlaupsins í gær urðu í kvennaflokki. Sú sem náði öðru sæti þar, Sarah Sellers, var algjörlega óþekkt í hlaupaheimum áður. Hún er 26 ára hjúkrunarfræðingur sem skráði sig í hlaupið af rælni, út af því að bróðir hennar tók þátt.
Lesa má um þetta í Washington Post og víðar.
Sellers kom sjálfri sér mest á óvart. Það þótti fögur sjón að sjá hana koma í mark, í öðru sæti á tímanum 02:44:04, án nokkurra auglýsinga á búningi sínum, slökkvandi á hlaupaúrinu á úlnliðnum á sér við endamarkið eins og hver annar skokkari á Strava.
Eða meðlimur í KR-skokk.