Það er eitthvað skáldlegt yfirbragð yfir Tindfjöllum. Kannski eru það örnefnin sem gera það að verkum að manni finnst maður stíga inn í svolítið annan heim uppi á meðal þessara tinda, sem Guðmundur frá Miðdal gaf nöfn sín. Ýmir og Ýma rísa þar hæst.

Í fjórða þætti Úti gengum við á Ými á fjallaskíðum ásamt Andra Snæ Magnasyni rithöfundi. Andri hefði örugglega líka getað gefið tindunum skáldleg nöfn sín.

Best er að fara á vorinn á fjallaskíðum þessa leið. Keyrt er upp að snjólínu, jeppaslóða sem þarna liggur frá bænum Fljótshlíð, fram hjá þremur skálum, ef snjór leyfir, sem þarna eru á leiðinni. Snjólínan var rétt við þann efsta þegar við fórum.

Andri sýnir takta á fjallahjóli.

Þar spenntum við á okkur skíðin og gengum í svolítilli þoku upp á Ými. Mikilvægt er að vera í línu yfir sjálfan jökulinn, sem er ekki stór, en getur verið sprunginn eins og aðrir jöklar. Það er bratt upp sjálfan Ými.

Uppi á Ými létti til. Útsýnið þar er stórbrotið, suður til Vestmannaeyja og norður yfir til Heklu og yfir Fjallabak. Við slepptum því að fara á Ýmu líka, sem þarna rís við hliðina á Ými nokkuð glæfralegri ásýndar en viðráðanleg þó. Við vildum hafa þetta temmilega dagsferð.

Skíðaferðin niður var að sjálfsögðu mikið fjör. Og ekki var verra að við höfðum ákveðið að auka aðeins við fjörið. Það er nefnilega gráupplagt þegar farið er á Tindfjöll að grípa með sér fjallahjólið líka. Taka skíðin af sér við jeppana, bregða sér þar á hjólið og láta sig gossa niður grýttan fjallaslóðan með tilheyrandi adrenalínkikki.

En einhver þarf að sjálfsögðu að keyra bílinn á eftir.

Svo er upplagt að fá sér kvöldmat á Hvolsvelli.

Hér eru nokkrir punktar um svona Tindfjallaleiðangur:

Fjarlægð frá Reykjavík:
140 km / 2,5 klst.
Ekið um þjóðveg eitt austur fyrir Selfoss og í gegnum Hvolsvöll, þar sem beygt er til vinstri inn á Fljótshlíðarveg 261. Ekið að Fljótsdal en rétt þar sem Emstruleið F261 byrjar er beygt til vinstri á slóða sem liggur upp að skálunum í Tindfjöllum.

Aðgengi:
Fólksbílafært að Fljótsdal. En aðeins fært fyrir 4×4 jeppa að sumarlagi síðasta spölinn upp frá Fljótshlíðinni og upp í Tindfjöllin.

Gisting:
Þrír skálar eru í Tindfjöllum. Efsti skálinn er í eigu Íslenska Alpaklúbbsins (Ísalp), næstefsti er í einkaeigu og sá neðsti er í eigu Flugbjörgunarsveitarinnar.

Skíða- og hjólaleið:
Gengið á skinnum um Hakaskarð, undir Saxa, upp á Tindfjallajökulinn og á Ými, hæsta tindinn, 1262m. Skíðað niður. Alls 14km.
Stigið á fjallahjólin við efsta skálann og hjólað alla leið niður á Fljótshlíðarveg, alls 11km.

Útbúnaður:
Fjallaskíði með skinnum, jöklabúnaður, góður útivistarfatnaður og tæki til rötunar. Fjallahjól.

Leiðin sem farin var.