Vestmannaeyjar eru auðvitað ekki bara útgerðarbær heldur stórbrotið náttúruundur líka. Bærinn er umkringdur tindum og upp á þá alla er giska gaman að koma.

Í fjórða þætti Úti hnýttum við á okkur hlaupaskóna og efndum til náttúruhlaups upp og niður þessa tinda ásamt Bjarna Benediktssyni ráðherra og Elísabetu Margeirsdóttur náttúruhlaupara.

Elísabet Margeirs á einum tindanna

Við köllum þetta sjö tinda hlaup, en segjum þó líka annars staðar í þættinum að þetta sé átta tinda hlaup. Við göngumst við ósamræminu. Þetta er nefnilega kannski svolítið álitamál. Tindurinn Moldi er stutt frá Háhá. Eigum við að reikna þá sem tvo tinda eða einn? Ræðið.

Þetta er gríðarlega fjölbreytt leið. Þarna er alls konar undirlag. Og auðvitað er þetta krefjandi. Hækkunin er mikil og lengdin þónokkur.

Sem gönguleið er sjö(til átta) tinda leiðin gráupplögð. Það þarf auðvitað ekki að hlaupa þetta. Hægt er að ganga þessa leið á milli fyrsta og síðasta Herjólfs. Þá er líklega best að byrja gönguna með því að fara á Sæfjall. Þá er gengið í sjálfum bænum um hádegisbil og hægt að grípa hádegismat þar á veitingastað.

Ekki er ráðlagt að fara án leiðsagnar á Blátind. Hann er alls ekki fyrir lofthrædda. Það er því ekki vitlaust að sneiða hjá honum.

Þetta er frábær dagsferð sem sýnir stórbrotna hlið á Eyjum.

Hér eru nokkrir punktar:

Fjarlægð frá Reykjavík:
135 km / 2 klst. akstur plús 1 klst. sigling.
Ekið um þjóðveg eitt austur fyrir Selfoss, í gegnum Hvolsvöll. Beygt til hægri niður Landeyjahafnarveg 254, rétt áður en komið er að Seljalandsfossi og brúnni yfir Markarfljót.

Aðgengi:
Fólksbílafært í Landeyjarhöfn. Siglt með Herjólfi yfir til Eyja. Að sumarlagi er mælt er með því að panta far með Herjólfi, sérstaklega ef ætlunin er að taka bíl með, sem er þó ekki nauðsynlegt fyrir þessa ferð.

Gisting:
Tjaldgisting í Herjólfsdal og margvísleg hótel og gistiheimili. Ekki er þó nauðsynlegt að gista nema fólk vilji njóta Eyjanna lengur, sem er hreint ekki vitlaust.

Hlaupaleið:
Hlaupið á Eldfell, Helgafell, Sæfjall, inn í Herjólfsdal, upp á Dalfjall, Blátind, Háhá, Molda og Heimaklett. Alls 17 km. Uppsöfnuð hækkun er 1150m.

Útbúnaður:
Góðir utanvega hlaupaskór og hlaupafatnaður.

Hlaupaleiðin, eða gönguleiðin — eftir því hvað fólk kýs — í Eyjum.