Fjölmiðlafólkið Helgi Seljan, úr Kveik, og Ísgerður Gunnarsdóttir, úr KrakkaRúv, sýndu fyrirtaks takta í 3.þætti Úti. Þar var annars vegar klifrað í klettum á Hnappavöllum og hins vegar klifrað í jökulsprungum í skriðjöklinum Svínafellsjökli.

Helgi varð fyrir hnjaski í klettunum, enda erfiðara en það lítur út fyrir að vera, að klifra. En hann lét það ekki á sig fá. Klettaklifrið er eins og Helgi sagði í þættinum, mun meiri hugaríþrótt en hann bjóst við. Þar þarf útsjónarsemi. Maður þarf að lesa í bergið og plotta næstu grip.

Helgi lætur sig gossa.

Á jöklinum gilda aðrar aðferðir. Í línu, með ísexi og brodda, er hægt að fara upp og áfram, án þess að þurfa að hugsa of mikið um leiðina sem slíka. Það var á þeim Helga og Ísgerði að heyra að þeim hafi fundist það fjör.

Ísgerður í ham.

Ekki þarf að taka fram að í klifri er mikilvægt að gæta ítrustu varkárni og vera með allan öryggisbúnað á hreinu. Ekki ana að neinu. Ef allrar varúðar er gætt, þá er þetta skemmtilegt sport fyrir hvern sem er. Hér er smá grein um það hvernig hægt er að byrja að klifra.

Fyrir ykkur sem viljið kýla á svipaða ferð og í þættinum, þá eru nokkrir punktar hér:

Fjarlægð frá Reykjavík:
350 km / 5 klst.
Ekið um þjóðveg 1 frá Reykjavík, um Selfoss, Vík og Kirkjubæjarklaustur, austur í Öræfasveit.

Aðgengi:
Fólksbílafært, bæði að Hnappavöllum sem og að Svínafellsjökli.

Gisting:
Margs konar gisting er í boði í Öræfasveit, bæði í tjöldum, í bændagistingu og á hótelum. Til dæmis Svínafell, Hótel Jökulsárlón Hnappavöllum og Hótel Skaftafell Freysnesi.

Klifrað:
Klettaklifur í Hnappafellshömrum og ísklifur á Svínafellsjökli.

Útbúnaður:
Sértækur útbúnaður til kletta- og ísklifurs og góður útivistarfatnaður.