Jafet Bjarkar Björnsson staðhæfir að fólki finnist klifur vera mest sexí íþrótt í heimi og golf minnst. Hann er maðurinn á bakvið vefinn klifur.is en hugsunin á bakvið síðuna er að gera klifur aðgengilegra á Íslandi.

Jafet glímir við Vestrahorn

„Áður voru flestar klifurleiðir skráðar hjá einstaka klifrara og ef hann safnaði nóg af leiðum þá kannski gaf hann út leiðarvísi. Núna geta allir skráð nýjar leiðir inn á klifur.is og deilt þannig sinni vitneskju með klifursamfélaginu,“ segir Jafet. Hann segist halda að virkir klifrarar á Íslandi séu ekki fleiri en 500 talsins.

Klifurhúsið í Ármúla er lang vinsælasta og flottasta æfingaraðstaðan. Í útiklifri er Hnappavellir fyrir austan vinsælasta klifursvæðið en svo eru Valshamar í Eilífsdal og Pöstin undir Eyjafjöllum líka nokkuð mikið sótt þar sem þau eru ágætis svæði og nálægt Reykjavík.“

„Hnappavellir klikka aldrei. Góð aðstaða, góður félagsskapur og frábært klifur.”

„Það er gaman að klifra á öllum klifursvæðunum, ég geri ekki upp á milli þeirra. Mér finnst sérstaklega gaman að fara og skoða nýtt klifursvæði. En sum klifursvæðin eru stærri en önnur þannig að gamanið endist lengur. Hnappavellir klikka aldrei. Góð aðstaða, góður félagsskapur og frábært klifur.”

En hvernig á að byrja í þessari íþrótt?

„Það er bara að mæta í næsta klifurhús. Það þarf engan búnað. Bara þægileg föt og maður fær lánaða klifurskó. Svo er líka hægt að skrá sig á námskeið hjá Klifurhúsinu. Ég hef ekki prófað það en það er örugglega snilld að fá smá leiðsögn þegar maður er að byrja.”