Allir sem stunda fjallamennsku að einhverju marki verða auðvitað minnst einu sinni á ævinni að ganga á hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk. Í öðrum þætti Úti, á RÚV, fylgdum við forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, upp á topp. Hann hafði ekki farið þangað áður. 

Ferðin var farin á vormánuðum fyrir um ári síðan. Með í för, ásamt þáttagerðarfólki, voru Tómas Guðbjartsson, Páll Ásgeir Ásgeirsson og Friðbjörn Beck Möller Baldursson.  Þessi ferð var óvenjuleg að því leyti að ákveðið var að tjalda á jöklinum og gista eina nótt á Öræfajökli. Yfirleitt er gengið á Hnjúkinn á einum degi, lagt af stað eldsnemma um morgun og komið til baka undir kvöld.

Þetta uppátæki, að sofa á jöklinum, gerði ferðina mun ævintýralegri. Okkur sýnist að við höfum tjaldað með forsetanum nokkurn veginn nákvæmlega á þeim stað þar sem núna hefur myndast sigdæld vegna jarðhræringa.

Lagt var af stað síðdegis frá Reykjavík og gist í Öræfasveit. Sumir keyrðu reyndar frá Reykjavík um nóttina. Snemma um morgun var lagt í hann og keyrt frá Hnappavöllum að snjólínu jökulsins. Þar var gengið af stað á skíðum, með púlkur í eftirdragi.

Hópurinn stóð á toppnum í miðnætursól og logni.

Þegar komið var upp á sléttuna eftir krefjandi göngu var tjöldunum slegið upp. Þá var kærkomið að leggja sig stundarkorn áður en lagt var í hann upp á sjálfan Hvannadalshnjúk. Hópurinn stóð á toppnum í miðnætursól og logni.

Eftir þá ógleymanlegu lífsreynslu var lagst til hvílu í tjöldunum og sofið til morguns. Vegna þess hvað veðrið var gott var ákveðið að ganga á Vestari Hnapp á leiðinni til baka. Það er tignarlegur tindur. Áður en lagst var til atlögu við hann þurfti að tryggja línu upp á topp.

Það var alsæll hópur sem kom til baka á Hnappavelli síðla dags. Þar var farið í gufubað og slakað á stundarkorn á nýja hótelinu sem þar er — Fosshóteli Jökulsárlóni — áður en haldið var í bæinn.

Ganga á Öræfajökul er ekki örugg um þessar mundir vegna jarðhræringa. Ekki er skynsamlegt að fara upp á jökul nema vera búin að athuga stöðuna hjá jarðskjálftavakt Veðurstofunnar áður. Svo er ekki ráðlegt að ganga á jökulinn nema með góðri leiðsögn. Ganga þarf í öryggislínu vegna sprunguhættu. Og veður geta verið válynd, þótt það hafi leikið við leiðangursfólk í þættinum.

Hér eru nokkrir punktar varðandi ferð á Öræfajökul, fyrir áhugasama:

Fjarlægð frá Reykjavík:

350 km / 5 klst.

Ekið um þjóðveg 1 frá Reykjavík, um Selfoss, Vík og Kirkjubæjarklaustur, austur í Öræfasveit.

Aðgengi:

Fólksbílafært að Hnappavöllum. Aðeins fært fyrir 4×4 jeppa upp slóða frá Hnappavöllum og upp að jökulrönd.

Gisting:

Margs konar gisting er í boði í Öræfasveit, bæði í tjöldum, í bændagistingu og á hótelum. Til dæmis Svínafell, Hótel Jökulsárlón Hnappavöllum og Hótel Skaftafell Freysnesi.

Gönguleið:

24 km hringur um Öræfajökul upp frá Hnappavöllum. Gengið á Hvannadalshnúk og Vestari Hnapp.

Útbúnaður:

Góður útivistarfatnaður, utanbrautagönguskíði, púlka, jöklatjald, jöklasvefnpoki og tjalddýna. Prímus og eldunaráhöld.

Leiðin upp og niður.