Yfir 80 manns eru búnir að skrá sig til þátttöku í skíðagöngumótinu í Fljótum sem fer fram núna á föstudaginn langa. Þar af er meira en helmingur skráður í lengstu gönguna, 20 km. Það er mjög mikil aukning í þeirri vegalengd miðað við síðustu ár.

Svona voru aðstæður í Fljótunum á mánudaginn, þegar lagt var æfingaspor.

Spáin er fín. Spáð er hæglætis veðri, hægri breytilegri átt og hitastigi um frostmark. Í fyrra þurfti að leggja sporið uppi á Lágheiði vegna snjóleysis, en þess þarf ekki nú. Að þessu sinni verður byrjað á svipuðum stað og önnur fyrri ár, rétt hjá félagsheimilinu Ketilási.

Lengsti hringurinn verður 10 km. Þátttakendur í 20km göngunni fara því tvo hringi.  Einnig verður keppt í 1km, 2,5km og 5km. Stefnt er að því að hafa tvöfaldar brautir.

Fljótagangan er skíðagönguviðburður sem hentar allri fjölskyldunni, bæði vönum sem óvönum.

Margir sem hyggja á þátttöku í Fossavatnsgöngunni, til að mynda gönguskíðafólk sem reynir nú við Landvættaþrautirnar, lítur á Fljótagönguna sem kærkomið tækifæri til þess að æfa sig, rétt um mánuði fyrir 50 kílómetrana á Ísafirði.

Afhending keppnisgagna og skráning fer fram milli 10 og 12 í Ketilási. Mótið hefst kl. 13:00

Á eftir verður svo að sjálfsögðu kaffihlaðborð í félagsheimilinu.  Og opið í sund.