Langisjór á miðju hálendi Íslands, inni í Vatnajökulsþjóðgarði, er ógnarfagurt og dulúðugt vatn umkringt mosavöxnum fjöllum við jaðar jökulsins. Það er um 20 km langt og mest 2 km á breidd. Dýpt þess er mest 75 metrar.

Steiney og Saga á Langasjó

Í fyrstu sögunni í fyrsta þætti Úti, á RÚV, fylgdum við vinkonunum Sögu Garðarsdóttur og Steineyju Skúladóttur á kajak um Langasjó. Við höfðum næturgistingu í skála og lögðum svo af stað í róðurinn frá vesturenda vatnsins. Við slógum upp tjöldum á einni af eyjunum á Langasjó. Við kölluðum hana að sjálfsögðu Steiney.

Það er líka gaman að fara í land, til dæmis við Útfallið, og ganga á eitthvert þeirra fjölmörgu fjalla sem umkringja vatnið. Útsýnið er stórbrotið, yfir landssvæði sem er líklega eitt það afskektasta og fáfarnasta á Íslandi.

Það á ekki að þurfa að taka fram að þegar ferðast er um hálendi Íslands er gríðarlega mikilvægt að ganga vel um. Gullna reglan er að skilja ekkert eftir sig, og taka ekkert með sér úr náttúrunni nema myndir og minningar. Þegar næturstaður er hafður í tjaldi á svæði eins og þessu verður að gæta þess að valda engu raski. Sérstaklega verður að passa mosann.

„Vatnið er fáránlega kalt.“

Þetta er heilmikil ævintýraferð, að róa á Langasjó. Enginn ætti þó róa þar um á kajak án þess að vera í fylgd með kunnáttufólki og/eða hafa tekið grunnnámskeið í kajakróðri.

Þess má geta að aðstandendur þáttarins prófuðu að synda í vatninu, í sundgöllum. Það var athyglisverð tilraun, en niðurstaðan einróma: Vatnið er fáránlega kalt.

Í Útiferðinni kynntumst við því vel hvað aðstæður geta breyst hratt á hálendi Íslands, jafnvel um mitt sumar. Fyrri daginn rérum við í logni og fegurð og nutum spegilsslétts vatnsins í kvöldsólinni. En þá var eins gott að fylgjast vel með spánni, sem breyttist fljótt. Um morguninn var von á stormi.

Við vöknuðum því um miðja nótt á eyjunni og rérum af stað til baka. Þegar við náðum aftur á upphafsstað, á vesturbakkann, mátti varla tæpara standa.

Svona er Ísland. Ófyrirsjáanlegt en fagurt.

Hér eru nokkrir punktar um ferð að, og um, Langasjó. Við mælum með þessu!

Fjarlægð frá Reykjavík:

300 km / 5 klst.

Ekið er um þjóðveg 1 austur yfir Mýrdalssand að brúnni yfir Eldvatn þar sem beygt til vinstri út á Skaftártunguveg og svo fljótlega til hægri á Fjallabaksleið nyrðri (F208). Ekið norður fyrir skálann Hólaskjól í Lambaskarðshólum, um Eldgjá, yfir Stangakvísl og beygt til hægri á gatnamótum þar sem vegurinn upp að Langasjó (F235), sem getur verið seinfarinn, hefst.

Aðgengi: 

4×4 jeppar að sumarlagi.

Gisting:

Skáli Útivistar við Sveinstind.

Í skálanum er fullbúin eldunaraðstaða og vatnsklósett.

Nokkrir góðir útivistarmöguleikar:

Róið á vatninu. Frá vesturenda vatnsins og að Útfallinu eru um 20km.

Gengið á Sveinstind: 4km

Gengið um Fögrufjöll: 5-15km.

Gengið umhverfis Langasjó: 3 dagar. 50km

Útbúnaður

Hlýr útivistarfatnaður, viðlegubúnaður, kajakar, björgunarvesti og gallar.

Á Langasjó