Þegar Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur varð fimmtugur ákvað hann að gefa sjálfum sér veglega afmælisgjöf. Hann ákvað að hann skyldi hlaupa 50 fjallvegi áður en hann yrði sextugur í mars árið 2017, eða fimm fjallvegi á ári.
Að sjálfsögðu kláraði Stefán dæmið. Í kjölfarið kom út hjá Sölku bókin Fjallvegahlaup, þar sem allar upplýsingar er að finna um fjallvegina fimmtíu. Það er óhætt að mæla sterklega með þessari bók fyrir alla sem hafa unun af náttúruhlaupum.
„Leiðirnar liggja hingað og þangað. Stefán lagðist í töluvert grúsk til þess að finna út hverjar hentuðu best til hlaupa.“
Út um allt Ísland eru gamlir slóðar og vegir til fjalla. Þessar leiðir henta flestar ákaflega vel til útivistar; til göngu, hjólreiða, hestamennsku og auðvitað til þess að hlaupa á. Leiðirnar liggja hingað og þangað. Stefán lagðist í töluvert grúsk til þess að finna út hverjar hentuðu best til hlaupa.
Hann lagði upp með þessa skilgreiningu: Leiðin yrði að vera minnst 9 km að lengd, fara í a.m.k. 160 metra hæð yfir sjó, tengja saman tvö byggðalög eða áhugaverða staði og vera gjarnan forn göngu- eða reiðleið. Leiðin má vera fáfarinn bílvegur (F-vegur).
Stefán hefur hlaupið frá því fyrir fermingu. Hugmyndin að þessu verkefni spratt upp úr eðlilegum vangaveltum um tilgang lífsins sem leita á flest fólk í kringum fimmtugsafmælið. „Hvað er svona merkilegt við það að verða fimmtugur?“ spurði hann sjálfan sig þegar hann sló inn hugleiðingar sínar í læst skjal í tölvunni fyrir 10 árum. Hann birtir hluta úr skjalinu í formála bókarinnar.
„Þetta er jú ekki hár aldur,“ heldur hann áfram. „Engu að síður gerir sú hugsun vart við sig, að ef ekkert er að gert kunni leiðin framundan að liggja heldur niður á við en upp. Andleg og líkamleg heilsa er ekki sjálfsögð og óendanleg auðlind.“
„Ég gaf mér ekkert sambærilegt verkefni í sextugsafmælisgjöf.“
Þannig að Stefán fór að hlaupa sem aldrei fyrr. Og grúska. Upphaflega ætlaði hann að hlaupa þetta allt einn, en konan hans, Björk Jóhannsdóttir, ráðlagði honum eindregið frá því. Úr varð að hann hljóp hverju sinni í hóp með öðru fólki sem vildi slást í för. Úr varð mikil skemmtun og vinátta, eins og sjá má af myndum og af lestri bókarinnar.
Gjöfin hans Stefáns til sjálfs sín var því ekki bara til hans, heldur til allra annarra sem hafa hug á því að hlaupa á fjöllum. En spurningin sem blasir við er auðvitað þessi: Hvað gaf Stefán sér í sextugsafmælisgjöf?
“Spurningin er erfið,” svarar hann. “Ég gaf mér nefnilega ekkert sambærilegt verkefni í sextugsafmælisgjöf, heldur ákvað ég bara að njóta þess að koma út þessari bók, og sjá svo til.“
Þess ber að geta að Stefán sló ekki slöku við í kjölfarið á sextugsafmælinu sínu. Hann hljóp auðvitað Laugarveginn í júlí – og skrapp svo í Þriggjalandamaraþon í Þýskalandi, Austurríki og Sviss í október síðastliðnum. Já, og hljóp nokkra fjallvegi líka.
Góð ráð til fjallahlaupara:
Stefán birtir góð ráð til fjallahlaupara í bókinni. Hér eru nokkur:
- Veður á fjöllum er öðruvísi en annars staðar. Almennt lækkar hitastig um 1°C fyrir hverja 100m. Auk þess eykst oft vindhraði. Einnig er veður gjarnan mismunandi sitthvoru megin við fjallið. Þar á ofan er íslenskt veðurfar ófyrirsjáanlegt.
- Skoðaðu veðurspána gaumgæfilega. Á vedur.is og belgingur.is er að finna nákvæmustu spárnar. Nákvæmnin skiptir miklu máli nálægt fjöllum, því fjöll hafa áhrif á veðrið.
- Gættu að birtutímanum og hvenær skyggir. Vefsíðan suncalc.net veitir góðar upplýsingar.
- Skildu eftir ferðaáætlanir, svo aðrir viti af ferðum þínum. Þetta er hægt að gera á safetravel.is
- Best er að utanvegahlaupaskórnir séu vel vatnsdræpir, þ.e.a.s. vatn á að eiga greiða leið úr þeim, ef það fer í þá. Goritex er því ekki málið. Gott er að hafa utanvegaskóhlífar sem fara yfir öklana og er krækt á skóna. Þær fyrirbyggja að sandur, möl og annað fari í skóna.
- Á flestum fjallvegum er aðgengi að vatni í lækjum. Kynntu þér vel hvar og hvort vatn er á leiðinni.
- Það er mikilvægt að næra sig vel á fyrsta hálftímanum eftir hlaup.
- Hafðu aukahleðslu fyrir símann.
- Álteppi eða álpoki eða sambærilegur búnaður til að halda á sér hita ætti alltaf að vera í bakpokanum.
- Lítill vasahnífur nýtist til ólíklegustu verka, einnig lítill bandspotti.
- Aldrei skilja eftir rusl eða raska umhverfinu.
Hlaupaleið nr. 44 – Arnardalsskarð – 11,88K
Sefán birtir ýtarlega leiðarlýsingu með hverri hlaupaleið með góðum grunnupplýsingum og korti. Alls konar fróðleik er þar einnig að finna um staðina, ferðasagan er sögð og myndir af hlaupinu skreyta frásögnina. Við birtum hér grunnatriði um eina fegurstu leiðina, Arnardalsskarð á Snæfellsnesi, með góðfúslegu leyfi höfundar.
Staðsetning: Frá Bláfeldi í Staðarsveit norður yfir Snæfellsnes til Grundarfjarðar.
GPS-hnit: Upphaf: N64°50,82’ – V23°18,12’ Bláfeldará, vað: N64°51,44’ – V23°16,93’ Vestarlega, uppleið: N64°51,76’ – V23°17,01’ Ofan við Bláfeldarskarð: N64°51,82’ – V23°16,16’ Ofar í hlíðinni: N64°52,14’ – V23°16,07’ Arnardalsskarð: N64°52,68 – V23°15,06’ Á niðurleið: N64°53,29 – V23°15,20’ Kverná, vað: N64°53,78’ – V23°15,42 Niður með Kverná vestan: N64°54,47 – V23°15,29’ Lok: N64°55,48’ – V23°15,62’
Hæð y. sjó: 28m við upphaf, 682m hæst, 18m við lok. Hækkun 654m, lækkun 664m, nettólækkun 10m.
Kort: ©Hans H. Hansen / Fixlandia ehf