Fossavatnsgangan á Ísafirði hefur sprungið út á undanförnum árum og er nú orðin einn höfuðviðburðurinn í íþróttalífi landsmanna. Að taka þátt í keppninni er ógleymanleg lífsreynsla, eins og greinarhöfundur komst að í fyrra.
Fossavatnsgangan fór fyrst fram árið 1935. Gangan er því elsta skíðamót á Íslandi. Lengsta gangan, og aðalviðburðurinn, er 50 kílómetrar og einkennist af miklum hæðarmismun. Farið er upp og niður, upp og niður — og enn upp og niður — í fjalllendi Vestfjarða með ótrúlegu útsýni, á góðum degi. Reynsluboltar segja gönguna einstaka á heimsvísu út af útsýninu, enda eru göngur erlendis oft í skóglendi með takmarkaðri sýn. Hér skíðar fólk á toppi veraldarinnar.
Mikið líf færist í kaupstaðinn dagana í kringum Fossavatnsgönguna. Hundruðir streyma í bæinn. Hjá Bobba í Craftsport er mikið líf og fjör, enda streymir fólk þangað með skíðin í smurningu (ef það er á áburðarskíðum, þ.e.a.s. — sjá umfjöllun í vetrarhefti ÚTI.) og mikið er spáð og spekúlerað þar í anddyrinu í aðdragandanum. Hvaða klístur ætla menn að nota? Hvernig er spáin? Fólk er spennt. Sumir hafa tekið þátt ár eftir ár, en aðrir vita ekkert í hvað þeir hafa komið sér.
Það er mjög mikilvægt að koma sér í tæka tíð til Ísafjarðar. Fínt að mæta á fimmtudeginum — eða með flugi á föstudagsmorgni — og eiga föstudaginn á svæðinu, til þess að koma sér í andlegt jafnvægi, detta í fíling, spjalla við fólkið, ná í númerið og fara upp í Seljalandsdal, skoða brautina og meta snjóinn.
Kvöldið áður er mikilvægt að vera með allt tilbúið. Setja allt í bakpokann, hafa skíðin til og allan fatnað og búnað. Hafa ákveðið allt. Á keppnisdaginn sjálfan vill maður ekki að neitt sé að angra sig eða koma sér of mikið á óvart.
„Maður á að klæða sig þannig að manni sé kalt við rásmarkið.“
Það er mikil stemmning við rásmarkið. Það er um að gera að gefa sér góðan tíma þar áður en keppnin er ræst, en muna eftir góðri úlpu til að bregða um sig meðan beðið er. Það getur verið æði kalt. Aðstæður í Fossavatnsgöngunni veðurfarslega hafa verið mjög mismunandi á undanförnum árum, en þarna er auðvitað allra veðra von. Það er mikilvægt að fylgjast vel með spánni. Árið 2016 var sporið stytt um helming og keppendur tóku tvo 25 kílómetra hringi í hundleiðinlegum aðstæðum, blautu og köldu skítaveðri. Ári síðar voru aðstæður hins vegar frábærar, heiðskýrt og færið hið prýðilegasta. Og þótt vindurinn væri stundum hressilegur þá var hann kærkominn, til kælingar og einnig sem meðbyr ef þannig stóð á.
Talandi um kælingu. Það kemur sumum á óvart hversu mjög manni hitnar í þessum aðstæðum, þótt kalt sé á fjöllum. Maður á að klæða sig þannig að manni sé kalt við rásmarkið. Alls ekki þannig að manni sé heitt áður en lagt er af stað.
Keppni eins og Fossavatnið er í raun ótrúleg núvitundarupplifun. Maður gleymir sér í verkefninu, ekkert annað kemst að. Maður stefnir að settu marki ásamt hundruðum annarra og ekkert rúm er fyrir óskyldar áhyggjur af amstri dagsins. Hugurinn hvílist.
En erfitt er það. Sumir auðvitað klára þessa áskorun á ógnarhraða og eru komnir í kökuhlaðborðið á meðan þú ert að pústa við þriðju drykkjarstöð. Margir hafa áhyggjur af tímamörkunum, en í Fossavatninu — sem er alþjóðleg keppni — verður að klára 35 kílómetra á innan við fimm tímum. Annars er manni gert að hætta og er settur upp í rútu. Enginn vill lenda í þeirri rútu.
„Að koma í mark er ólýsanleg tilfinning. Þá á maður skilið ball um kvöldið.“
Púkar á öxl segja fólki óhikað að svona lagað sé alltof erfitt og að það muni aldrei klára. Í viðureigninni við púkana er gott að muna að þeir nærast mjög ef þú gleymir að næra þig. Orkuskortur leiðir til uppgjafalöngunar. Farðu því vel yfir þau mál áður en lagt er af stað og áætlaðu hvenær þú ætlar að næra þig og hvernig. Stattu svo við það.
Það er líka gott að hólfa niður verkefnið til þess að gera það yfirstíganlegra. Hér er ein tillaga, fyrir þá sem stefna einungis að því að fara ekki í rútuna:
Við Stein, svokallaðan, er gangan hálfnuð. Gangan er ræst kl. 09:00. Segðu við sjálfan þig að þú eigir mjög áríðandi stefnumót upp við Stein kl. 12:00, sem þú mátt alls ekki missa af. Allt annað er bara formsatriði, eins og komast til baka…. Ef þú nærð að Stein í tæka tíð hefurðu tvo tíma til þess að klára fimmtán kílómetrana að tímamörkunum. Það er vel ríflegt. Þá eru auðvitað eftir alls konar aðrar krefjandi viðureignir, eins og Miðfellsháls sem jafnan gengur undir nafninu Dauðabrekkan.
En maður tekur bara á svoleiðis þegar þar að kemur, enda lokamarkið þá í aðsigi.
Að koma í mark er ólýsanleg tilfinning. Þá á maður skilið ball um kvöldið.