Hin ótrúlega saga Kristins Jónssonar, vinnumanns á Tjörnum í Eyjafjarðardal árið 1898, er saga um það hvernig ósköp venjulegur 22ja ára gamall maður þurfti, alveg óvart, að takast á við ofurmannlega þrekraun á fjöllum. 

Kristinn var rétt meðalmaður á vöxt, grannleitur og fölur. Hann var alls ekki kempulegur maður né mikill að vallarsýn. „Munu fáir hafa getið sér til, að hann væri slík hetja,“ skrifaði Pálmi Hannesson rektor um Kristinn í grein sinni Villa á öræfum sem hann skrifaði um ofurmannlegar raunir þessa unga vinnumans.

„Um langan aldur hefur þjóðinni staðið ógn af þessum öræfum,“ skrifar Pálmi. Öræfi Íslands voru, og eru, ógnvekjandi. Þar er allra veðra von. Öræfin eru miskunnarlaus. Foreldrar sögðu börnum sínum sögur af tröllum sem bjuggu á öræfum. Þangað átti fólk ekki að fara.

Kristinn Jónsson á efri árum

Þann 27.september 1898 vaknaði Kristinn árla morguns og hélt til síðari leita ásamt tveimur öðrum vinnumönnum á Tjörnum. Þeir riðu fremst í Eyjafjarðardal. Þar eru miklar grjótöldur. Ekki var hægt að komast þar upp á hestum. Þeir lögðu því fótgangandi af stað upp skriðurnar. Það skall á hnausþykk þoka. Kristinn sá ekki handa sinna skil. Hann varð viðskila við félaga sína.

Á þessum stað er landslagið æði einsleitt. Hver grjótaldan eru annarri lík. Það var því auðvelt að villast í þokunni og Kristinn vissi að hann var villtur þegar hann gekk að á. Þarna átti ekki að vera á. Hann tók þá ákvörðun að fylgja ánni og taldi næsta víst að þetta vatnsfall rynni norður, og kæmi þá niður annað hvort í byggðum í Eyjafirði eða Skagafirði.

Þar skjátlaðist honum.

Kristinn hljóp á leðurskóm sínum í þokunni meðfram ánni það sem eftir lifði dags og alla næstu nótt. Það varð honum til happs í matarleysinu að hann gat þó svalað þorstanum. Um morguninn kom hann að kvísl. Hann óð hana og hélt áfram að fylgja ánni. Kristinn vissi hins vegar ekki hvaða á þetta var.  Í þessari frásögn er það ákveðið lykilatriði. Í stuttu máli hafði Kristni tekist að ramba á nyrstu upptök Þjórsár. Þjórsá rennur auðvitað eins og fólk veit í suður og er lengsta fljót Íslands. Án þess að gruna það átti Kristinn því eftir að leggja alls um 200 km að baki.

Hann óð margar kvíslar þennan dag, harðákveðinn í því að kvika ekki frá upphaflegri áætlun sinni, að fylgja ánni til byggða. Um kvöldið lagði hann sig undir stórum steini, þreyttur og kvíðinn. Þar svaf hann í rigningarsudda, kaldur og þjakaður. Hann vaknaði fyrir dögun og hélt áfram ferðinni meðfram ánni.

„Á hægri hönd reis Hofsjökull. Á vinstri hönd blöstu við svartir eyðisandar. Nú sá Kristinn af gangi sólar að hann stefndi til suðurs.“

Að morgni hins þriðja dags létti loks þokunni. Kristinn sá þá að hann var hvergi nærri byggðum, heldur uppi á reginöræfum. Á hægri hönd reis Hofsjökull. Á vinstri hönd blöstu við svartir eyðisandar. Nú sá Kristinn af gangi sólar að hann stefndi til suðurs. Hann ákvað samt að halda áfram að fylgja ánni, án þess að hafa hugmynd um hvaða á þetta var.

Það var komið vel fram á haust og allra veðra von. Kristinn freistaði þess að ganga á jökulinn til þess að ná áttum og skyggnast um, en varð frá að hverfa vegna ægilegra jökulsprungna. Hann hélt áfram göngu sinni. Um kvöldið komst hann að suðurhorni jökulsins, líklega á aurana austur af Arnarfelli. Þar lagði hann sig á sandinum, án nokkurs skjóls og svaf lítið þá um nóttina. Þessa nótt hvarf hundurinn sem hafði fylgt Kristni fram að þessu. Það átti eftir að hafa afleiðingar.

Kristinn var ekki vel klæddur fyrir þessar raunir. Leðurskórnir tóku fljótt að lýjast, en hann var í tvennum sokkum. Hann hafði ekkert utanyfir sig umfram jakka. Hlýja húfu hafði hann og góða vettlinga, en ekkert um hálsinn. Hann braut upp jakkakragann á nóttunni.

Af Sprengisandi. Kristinn gekk einn og kaldur um svarta sandana á leið í vitlausa átt.

Að morgni 30.september, fjórða dags á fjöllum, lagði Kristinn af stað í ágætu veðri. Síðar um daginn brast á með hríð og kulda. Hann sá graslendi sér á hægri hönd, sem var líklega Arnarfellsver, og varð vongóður um að byggðir væru nærri, en graslendið náði ekki langt. Sandarnir tóku aftur við.

Hann var orðinn mjög orkulítill. Þennan dag óð hann tvær jökulkvíslar upp undir hendur, Miklukvísl og Blautukvísl, auk annarra kvísla. Að kveldi kom hann blautur að stað þar sem bergvatnsá fellur í jökulánna. Sú heitir Kisa. Hann reyndi að sofna undir barði, en gat lítið sofið vegna kulda og vosbúðar. Hann saknaði hundsins, þarna við Kisu.

„Það var skollin á hríð með kaldri norðanátt. Kristinn var holdvotur og skalf af kulda.“

Á fimmta degi gekk Kristinn upp á hæð, kaldur og hrakinn, og hóf að hóa og kalla. Enginn svaraði nema gnauðandi vindurinn.  Kuldi var að færast yfir með dimmum krapaskýjum. Hann óð yfir Kisu. Þar fann hann slóða og ný för eftir fé og hesta. Daginn áður höfðu gangnamenn úr Hreppum verið á ferli. Kristinn ákvað þó að fylgja frekar ánni áfram, sem var skynsamleg ákvörðun. Slóðinn gat jú hætt einhvers staðar á miðjum öræfum og meðfram ánni hafði hann alltaf vatn.

Það var skollin á hríð með kaldri norðanátt. Kristinn var holdvotur og skalf af kulda. Um kvöldið varð honum til happs að hann fann leitarmannakofa, við Fitjaskóga þar sem nú er Sultartangalón. Þar hafðist hann fyrir í heiðskýrri en frostkaldri nóttinni.

Hendurnar voru orðnar bláar og þrútnar af bólgu. Fæturnir voru skemmdir af kali og þaktir sárum og vætlandi blöðrum eftir sandinn sem smaug ofan í skó og sokka. Kristni sóttist ferðin seint á þessum sjötta degi. Annar skórinn fór í sundur, en hann braut niður sokkana til að hlífa fótunum.

Ganga Kristins náði yfir allt miðhálendið.

Hann kom að Skúmstungnaá, óð hana og fylgdi áfram Þjórsá sem nú var orðin beljandi stórfljót. Framundan sá Kristinn stórt fjall með snævi þöktum tindi. Hann hafði ekki hugmynd um að það væri Hekla. Síðar um daginn sá hann annað fjall sem hann hafði ekki hugmynd um að væri Búrfell. Hann tók stefnuna á það. Seinnipartinn kom hann niður á gróðurlendi. Um kvöldið settist hann niður á sléttum sandi. Norðangustur nísti inn að beini um nóttina.

Á sjöunda degi var hlýrra, en Kristinn gat varla gengið. Lífsvonin var þrotin. Eitt dreif hann áfram öðru fremur, eins og hann sagði síðar frá: Hann vildi ekki liggja í óvígðri mold. Hann vildi að fólk myndi finna sig svo hann yrði jarðsunginn. Um kvöldið komst hann við illan leik í skógarkjarr suðvestan af Búrfelli. Þar lagðist hann fyrir í skóginum. Hann var viss um að um nóttina myndi hann deyja.

Á áttunda degi, þriðjudaginn 4.október, vaknaði hann fyrir allar aldir. Hann var dofinn og vissi varla af sér nema annað slagið.  Hann gat ekki staðið. Hann studdi sig við trén og náði þannig að staulast áfram nokkur skref í einu. Þar til hann lagðist fyrir.

Síðar um daginn rankaði Kristinn við sér og skreiddist á fætur. Sá hann þá á bala niður frá skóginum nokkra hesta og rétt hjá þeim reiðinga og hnakka. Frá þessu andartaki greinir með svofelldum hætti í blaðinu Bergmálið, 32.tbl haustið 1898:  „Þriðjudaginn 4. okt. var Eiríkur bóndi Ólafsson í Minni-Mástungu í Gnúpverjahreppi í skógarferð í Búrfelli. […]Eiríkur var búinn að viða á hestana sína og um það leyti að leggja í stað; sér þá að hallast á einum hestinum og hverfur aftur að ná sér í lurk ofan á léttari baggann. Meðan hann er að því, verður hann var við, að hrísla hreyfist nálægt honum, verður litið þangað og sér þá, að maður rís þar upp við olnboga. Átti hann þar engra manna von og þótti kynlegt, og þá eigi síður, er maðurinn kvaðst vera kominn norðan úr Eyjafirði og hafi vilst þetta, ekki skemri leið.“

Kristinn Jónsson lifði semsagt af sjö nætur og átta daga á öræfum án matar og almennilegra klæða, kalinn á fótum og holdvotur í frosti og hríð.  Eiríkur bóndi flutti hann til bæjar á hesti sínum og hlúði að honum. Var hann síðan fluttur til Reykjavíkur. Þar varð að taka af Kristni allar tær.

„Kom því upp sá kvittur manna á meðal, að hann hefði fargað hundinum og lagt hann sér til munns.“

Með tíð og tíma jafnaði Kristinn sig, þó svo göngulagið yrði auðvitað aldrei samt. Þrekraun Kristins vakti mikla athygli og þótti það mikið kraftaverk að hann skyldi komast lífs af.  Það er forvitnilegt að lesa í blöðum þess tíma um viðbrögð samfélagsins. Þó svo engir samfélagsmiðlar hafi verið fyrir hendi voru viðbrögðin ekki í eðli sínu ólík því sem við mættum vænta nú á dögum.  sk

Efnt var til söfnunar fyrir Kristinn. Söfnunartónleikarnir voru auglýsir með þessum hætti í Ísafold, 68.tbl (stafsetning er blaðsins): „Fyrir tilhlutun hr. Helga kaupmanns Helgassonar ætla 3 skemtifélög bæjarins, Músikfélagið, Lúðraþeytarafélagið og Leikfélagið, að leggja saman um kveldskemtun á morgun í Iðnaðarmannahúsinu til ágóða fyrir Kristin; og eru Reykvíkingar þá ekki sjálfum sér líkir, ef þeir sækja ekki vel þá skemtun, þar sem ekki er einungis góðri dægrastytting fyrir að gangast, heldur einnig kostur á að sýna um leið í verki brjóstgæði og líknarþel.“

Fölmargir samborgarar sýndu brjóstgæði og líknarþel. Uppselt varð á skemmtikvöldið á einum og hálfum tíma. Ágóðinn var rúmar 300 krónur.

Hitt var aftur leiðinlegra, sem rýmar þó einnig mjög við veruleika okkar tíma — þar sem alls konar fólk lætur allt flakka — að smám saman fóru raddir að heyrast, hvimleiðar, sem hvísluðu um það að Kristinn hafi komist lífs af vegna þess að hann hafi étið hundinn sinn.

Kristinn mun hafa tekið þessa umræðu mjög nærri sér. Hann vísaði þessum kvitti um hvutta alfarið á bug allt sitt líf, enda vafalítið bull og vitleysa. Varla hefði Kristni orðið mikið annað úr verki á öræfum, ef hann hefði virkilega átt að taka sér tíma í að verka og snæða hráan hund með höndunum.

En hvað um það. Auðvitað át hann ekki hundinn. En er þetta ekki dæmigert? Umræða um hina stórbrotnustu hluti endar í karpi um fullkomið aukaatriði.

Blessuð sé minning Kristins Jónssonar fjallagarps.

Og hundsins hans.

——————————–

Hvað á að gera í þoku? 

Ef engin kennileiti eru sýnileg og þú ert án áttavita eða staðsetningartækis – eða ef slík tæki koma að engu gagni – er best að halda kyrru fyrir. Mikilvægt er að reyna að halda á sér hita með því að hreyfa sig á staðnum.  Það getur verið skynsamlegt að fylgja vatnsfalli til byggða, eins og Kristinn ætlaði sér. Þá er hins vegar mikilvægt að vera viss um hvaða vatnsfall er að ræða.

Hvað er hægt að borða á öræfum?

Ef þú ert ekki með nesti, getur verið erfitt að næra sig á öræfum. Í náttúru Íslands má þó finna ber og æta sveppi á vissum árstímum. Einnig eru margar plöntur ætar, eins og hundasúrur, skarfakál, blóðberg, hvönn, kerfill, kúmen, smári, birkilauf, maríustakkur og ung fíflablöð. Sjóða má fjallagrös sé maður með prímus. Ef enginn er maturinn, legðu þá höfuðáherslu á að neyta vatns.

Hvað er hægt að lifa af lengi án matar? 

Ef maður hefur aðgang að vatni getur maður lifað nokkuð lengi án matar. Mahatma Gandhi neytti einungis vatns í 21 dag og lifði af. Dæmi eru um lengri líftíma án matar.