Vilborg Arna Gissurardóttir komst á topp Everest í maí 2017. Úti lék hugur á að vita hvernig Vilborg nærði sig á meðan á átökunum stóð. Hér svarar hún því:

Þeir sem éta, geta!

Stundum er sagt: “þeir sem éta, geta” og það er mjög mikið til í því. Matarlystin verður eitt það verðmætasta sem maður á og án næringar og orku kemst maður lítið áfram. Fyrir ofan 6000 metrana fer líkaminn að rýrna og álagið á kroppinn verður mikið.

Þegar maður velur fæði fyrir slíka ferð skiptir máli að það sé eins fjölbreytt og kostur er á. Á Everest leitaðist ég eftir því að borða mat en forðaðist sælgæti og notaðist við kolvetnadrykki og gel eftir því sem ofar dró.

Hafragrautur eða núðlusúpa var fyrirleitt fyrir valinu í morgunmat en það er ágætt að hafa fjölbreytileikann í þessu því annars verður maður fljótt leiður.

Þegar við komum í búðir fengum við okkur oftast te á meðan við biðum eftir hádegismat sem var súpa, kex, ostur og spægipylsa. Á kvöldin fengum við svo þurrmat ef við vorum í hærri tjaldbúðum.

Súpa og te spilar stóra rullu því vökvainntaka er mjög mikilvæg en við reynum að drekka 4 til 5 lítra á dag.

Ég er alltaf með einhverja bita í vasanum til þess að grípa í og viðhalda góðu orkujafnvægi. Í þessari ferð borðaði ég mikið af hnetum, möndlum og þurrkuðum bláberjum og virkaði mjög vel.

„Í svona átökum er ekki nóg að drekka bara vatn.“

Ég notast líka við fæðubótarefni og tek vítamín á hverjum morgni. Dropa þorskaolía, fjölvítamín ásamt túrmeriki og engiferblöndu með morgunmatnum og eitt glas af rauðrófusafa sem ég tel vera einn af lykilþáttunum fyrir mig þegar kemur að góðu úthaldi og frammistöðu.

Á toppadaginn sjálfan og dagana á undan drekk ég SiS kolvetnadrykki, þeir eru nauðsynlegir til þess að viðhalda orkubúskap og réttu hlutfalli af söltum og steinefnum í kroppnum. Maður fær síður krampa og líður almennt betur á göngunni.

Þegar ég þarf á því að halda fæ ég mér orkugel en þau eru ákaflega mikilvæg í umhverfi þar sem ekki gefst tækifæri til að stoppa mikið og borða. Ég geymi þau innan á mér svo þau séu ekki frosin og fékk mér þrjú slík á toppadaginn.

Fyrir endurheimt (recovery) að þá drekk ég magnisum og steinefnablöndu sem kallast Hydro en í svona átökum er ekki nóg að drekka bara vatn.