„Ég hef elskað þennan dal og þetta svæði frá því ég var barn og einhvern veginn fundist ég hvergi eiga heima nema hér.“
Texti: Guðmundur Steingrímsson
Myndir: Óbyggðasetrið
Hér talar Steingrímur Karlsson, Denni, í Óbyggðasetrinu. Þar sem vegurinn endar í Norðurdal í Fljótsdal, tæpa 60 kílómetra frá Egilsstöðum inn eftir Lagarfljóti, hafa um langa hríð verið aðrir Egilsstaðir. Á þeim bæ á bökkum Jökulsár í Fljótsdal ákvað athafnaparið Denni og Arna Björg Bjarnadóttir að láta draum rætast fyrir um 10 árum. Þau hófu, í samvinnu við ábúendur á Egilsstöðum, undirbúning og síðar uppbyggingu Óbyggðasetursins, sem er núna orðin töfraveröld sögu, menningar, náttúru og útivistar.
Denni var í sveit sem krakki á næsta bæ, hjá móðursystur sinni. Þá hófst ástarsamband hans við dalinn. Síðar áttu þau Denni og Arna eftir að leiðsegja í hestaferðum þar sem lagt var af stað frá Egilsstöðum. Þá kviknaði hugmyndin. „Eftir að hafa rekið hestaferðir um hálendið norðan Vatnajökuls um árabil, þar sem við vorum að segja sögur og hjálpa fólki að upplifa landið þá fannst okkur Örnu Björg þetta vera rökrétt framhald, að setja upp smá sýningu á þessu innsta byggða bóli í afdalnum Norðurdal í Fljótsdal. Svo bara hefur þetta vaxið ár frá ári.“
„Ákvörðunin að byggja upp hér eins langt frá Reykjavík og hægt er og innst inni í afdal, hljómar kannski ekki sem gáfuleg viðskiptahugmynd.“
Þetta er magnað svæði. Jörðin Egilsstaðir liggur við jaðar Vatnajökulsþjóðgarðs og einhverra stærstu óbyggða Norður-Evrópu. Óbyggðasetrið er eins konar hlið að hálendi Íslands. „Ákvörðunin að byggja upp hér eins langt frá Reykjavík og hægt er og innst inni í afdal, hljómar kannski ekki sem gáfuleg viðskiptahugmynd,“ segir Denni. „Enda byggir hún kannski meira á ástríðu og áhuga á náttúru og sögu óbyggðanna og svæðisins. En við sáum samt tækifæri í því að vinna með fámennið, þar sem hægt er að bjóða upp á sanna upplifun með gæðum og persónulegri þjónustu, kryddað með sérvisku.“
Verkefnið hófst árið 2011. Talsverðum tíma var varið í þróunar- og heimildarvinnu og leitað var til margra fagaðila á sviði menningar, sagnfræði og náttúru, auk þess sem verkefnið naut sérþekkingar Denna og Örnu í töluverðum mæli, en hún er sagnfræðingur og hann hafði starfað um árabil við kvikmyndagerð. Næst komu iðnaðarmenn og ekki síður listamenn og leikmyndasmiðir að verkefninu, þar sem markmiðið var að endurskapa horfinn heim, forna íslenska sögu og menningu.
Óbyggðasetrið opnaði formlega í júní 2016. Að uppbyggingunni komu hátt í 200 manns. „Við Arna Björg eigum sterkt tengslanet sem er mikilvægt í svona verkefni. Það voru ansi margir sem lögðu hönd á plóginn. En þetta er vissulega búið að vera mikil vinna frá því hugmyndin fæddist, enda hélt hún alltaf áfram að þróast og stækka, og gerir enn.“
Frá 1907 til 1927 fæddust fjórtán systkini á Egilsstöðum. Níu bjuggu á jörðinni til dauðadags og voru þekkt um allar sveitir fyrir handverk, skyggnigáfu og listfengi. Þau voru sjálfbjarga um flest. Uppbygging Óbyggðasetursins er innblásin af anda systkinanna. Mikil virðing er borin fyrir sögunni í öllum smáatriðum í hönnun og stemmningu. Byggja þurfti upp öll hús; íbúðarhús, bakhýsi, hlöðu og fjós en tveimur síðar nefndu var breytt í gisti- og sýningarrými. Þá þurfti að endurhlaða reykkofa og hlaða lítið fjós utandyra sem er hluti af leikmynd. Þess utan var byggt baðhús og hlaðin heit laug, sem nýtir vatn úr uppsprettu í fjallinu. Baðhúsið er klætt að utan með rekavið sem safnað var, og allt annað — burður og innréttingar — gert úr endurunnu efni.
Þetta er ekkert smá verkefni. Var þetta gamall draumur? „Að einhverju leyti var það já,“ svarar Denni. „Bæði að byggja upp hér í dalnum og einnig að boða fagnaðarerindi náttúrunnar og sögu hálendisins. Það predikar maður bæði á setrinu og í ferðum um hálendið, en best er þó að leiða fólk í þær aðstæður að náttúran hvísli þessu að því sjálf, fólk andi þessu að sér og skynji. Það eru kannski þau augnablik sem gefa manni mest til baka og gera þetta brölt þess virði.“
Jökulsá í Fljótsdal er mikil perla. Í henni eru fimmtán fossar. Þegar farið er upp úr dalnum og inn á hálendið liggur leiðin meðfram þessari fágætu fossaröð og þegar upp á hásléttuna er komið liggja leiðir til allra átta, þar sem öllu líklegra er að rekast á hreindýr en fólk. Leiksvæðið fyrir útivist og náttúruskoðun er gríðarstórt. Með uppbyggingu Óbyggðarsetursins er búið að byggja upp og kortleggja alls konar útivistarmöguleika í víðferninu. Fossaganga meðfram Jökulsá er eitt. Þar hafa Denni og Arna endurbyggt gamlan kláf, við eyðibýlið Kleif, sem ferjar göngufólk yfir beljandi fljótið. Í dagsheimsókn í setrið, og auðvitað líka í lengri heimsóknum, er hægt að gera ýmislegt svona. Íslendingar, segir Denni, eru nokkuð duglegir við að koma í slíkar skemmri ferðir. Þá er vinsælt að skella sér í kláfinn, njóta veitinga á gamla bænum, þar sem veitingastaðurinn er eins og gamalt sveitaheimili, skoða sýninguna um samband manns og náttúru — sem Denni og Arna hafa sett upp af mikilli natni — fara í laugina og í baðhúsið. Svo er líka kominn stjörnukíkir í eina bygginguna, sem Stjörnu-Sævar útbjó. Þar má sitja með kakó á kvöldin og skoða himintunglin. Fólk á slíku ferðalagi fer svo oft líka upp í Laugarfell á Fljótsdalsheiði, þar sem er fjallaskáli/hótel sem Óbyggðasetrið rekur með heitum náttúrulaugum og fallegum gönguleiðum.
Gönguhópar, fjallaskíðahópar, skólahópar og fjöldi Íslendinga kemur á ári hverju í setrið, segir Denni, en meiri hluta gesta er þó útlendingar. Þeir sækja í kyrrðina og nálægðina við ósnortna náttúruna. Til að njóta hennar er að auki boðið upp á stuttar og langar göngur, hestaferðir, hjólaleigu og hjólaferðir, fjallaskíðamennsku og kayakaferðir á heiðarvötnum, svo eitthvað sé nefnt. Frá Óbyggðasetrinu fer fólk jafnan í sæluvímu.
Þarna er opið allan ársins hring. Í dalnum eru ákjósanleg skilyrði til vetrarferðamennsku, því veðursæld er töluverð. Þannig að Denni er hafður lengst uppi í afdölum nánast allt árið. Hvernig skyldi það vera? Hvernig er þessi lífsstíll?
„Í fyrra starfi var maður að ferðast þó nokkuð um heiminn, en nú kemur heimurinn til mín í afdalinn og sest við eldhúsborðið.“
„Náttúran er svo nærandi og eitthvað sem ég hef alltaf þurft á að halda og sótt í,“ svarar hann. „Í fyrra starfi var maður að ferðast þó nokkuð um heiminn, en nú kemur heimurinn til mín í afdalinn og sest við eldhúsborðið. Að kynna náttúru og sögu fyrir fólki er gefandi og það að vera ferðaþjónn, sinna fólki og taka á móti því er mjög gefandi. En auðvitað koma líka stundir þar sem best er að týnast einn á faðmvíðri náttúru, í heiðanna ró. Ég held að þeir sem velji sér svona starf séu að því vegna þess að það er gefandi að sjá fólk hrífast, njóta og uppgötva. En stærstur hluti ferðaþjónustufyrirtækja eru fjölskyldufyrirtæki, því þarf að setja upp marga hatta og kannski járna hest, baka brauð, þrífa, leiðsegja og búa til markaðsefni allt á sama deginum. En það er kannski líka þessi fjölbreytni sem gerir þetta skemmtilegt.“
Óbyggðasetrið hefur unnið til Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar auk margra fleiri viðurkenninga og hlotið umfjöllun í tímaritum eins og Vogue, Marie Claire, Cosmopolitan, The Guardian og Le Figaro. „Þarna hefur sérstaðan greinilega gott markaðsgildi, því margir eru jú að leita að einhverju sönnu en öðruvísi, einhverju sem snertir og skilur eftir sterkar minningar.“
Svo kom jú faraldur. Maður verður að spyrja. Hafa tímarnir verið erfiðir? Bókunarstaðan gjörbreyttist auðvitað, en Denni er þó sæmilega bjartsýnn. Samlandar munu væntanlega láta sjá sig meira en áður þar til farsótt slotar, sem þýðir að reksturinn verður öðruvísi. „Íslendingar ferðast, eðlilega, meira eftir veðri og oft er mjög skammur fyrirvari á bókunum, þannig að þetta er bara glíma sem maður þarf að taka, að finna út starfsmannafjölda, innkaup og annað í óvissunni. Ferðaþjónustan í heild er svo ung grein og því eðlilega búnar að vera miklar fjárfestingar undanfarin ár og því er greinin viðkvæm fyrir stóru höggi sem þessu. En ég er bara sæmilega bjartsýnn til lengri tíma þó að nauðsynlegt sé að vera raunsær og fara að öllu með gát.“
Hann segir svæðið þarna fyrir austan vera fremur lítt plægðan akur í ferðaþjónustu og að möguleikarnir séu miklir. „Höfuðið er fullt af alls kyns hugmyndum sem maður þorir ekki að segja frá, svo maður verði nú ekki álitinn albrjálaður.“
Það er auðvitað alltaf hætta á því. Sumum mun víst hafa fundið Óbyggðasetrið á sínum tíma svolítil vitleysa, eins og verða vill. Ekki höfðu allir mikla trú, þótt velviljinn hafi almennt verið mikill. Gárungar í sveitinni höfðu á orði, þegar nostrið við smáatriðin var farið að tefja framkvæmdina óhóflega að líklega yrði þetta ekki Óbyggðasetrið heldur óbyggða setrið.
„Frá upphafi verkefnisins höfum við alltaf verið að þróa og bæta einhverju við eins og gerist og gengur. Það sem maður hefur þó kannski helst lært er hversu nauðsynlegt er að fylgja eigin sannfæringu í allri hugmyndafræði og útfærslu og leyfa sérviskunni að blómstra, því þannig skapast staður með sérstöðu. Hér erum við ekki að reyna að þóknast öllum í útfærslum heldur erum trú okkar hugmyndafræði. Heimurinn er stór og ekki þörf á að fletja staðinn út með því endilega að reyna að þóknast öllum, heldur upphefja sérstöðuna og einkennin og vera trúr henni.“
Hugmyndafræðin, segir hann. Líklega er leit að ferðaþjónustufyrirtæki með jafnmetnaðarfulla hugmyndafræði. Þetta er eiginlega stefnuskrá. Hér er hún:
1. Að bjóða upp á fjölbreytta hágæða menningarferðaþjónustu sem byggir á menningararfi og náttúru óbyggðanna og jaðarbyggða þeirra.
2. Að byggja alla miðlun á traustum fræðilegum grunni og standa fyrir öflugu fræða- og rannsóknastarfi í samstarfi við háskóla, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga.
3. Að vinna markvisst að sjálfbærni, náttúruvernd og samfélagsábyrgð.
4. Að auka vitund og virðingu fólks fyrir náttúru og menningu.
5. Að stuðla að og taka þátt í samstarfi ferðaþjónustuaðila á svæðinu og utan þess.
6. Að leggja áherslu á vöruþróun og nýsköpun sem byggir á styrkleikum svæðisins og stuðlar að innihaldsríkri upplifun ferðamannsins.
Ábyggilega væri hægt að bjóða fram til þings á grunni þessarar stefnu og ná allgóðum árangri.
Það er greinilegt að frumkvöðlar Óbyggðasetursins hafa alltaf litið á verkefnið sem ekki einungis ferðaþjónustu heldur samfélagslegt og menningarlegt verkefni líka. Það er því forvitnilegt að heyra hvaða sýn Denni hefur á ferðaþjónustuna á Íslandi og hlutverk hennar almennt. Er eitthvað sem Íslendingar mega gera betur á þessu sviði?
„Það sem við megum almennt gera betur er að vera stolt af okkur sjálfum, hvort öðru og landinu okkar.“
„Ég held að við Íslendingar ættum bara að vera stolt yfir því hversu frábæra atvinnugrein við höfum náð að byggja upp á skömmum tíma. Þessi uppbygging hefur haft mjög jákvæð áhrif atvinnulega séð, skapað fjölda starfa og styrkt byggðir sem áður einkenndust af fábreytni í þjónustu og atvinnutækifærum. Afleiddu störfin eru líka svo mörg og aukin menning, þjónusta og afþreying kemur líka Íslendingum vel. En við þurfum að passa okkur á því að missa ekki sjónar af því markmiði að bjóða upp á ekta íslenska upplifun, hafa menningarlegt sjálfstraust í það og halda þannig sérstöðunni. Í grunninn held ég að Íslendingar séu góðir gestgjafar. En það nær alltaf að hryggja mann þegar maður les reglulega um græðgi ferðaþjónustunnar. Stundum virðast heilu fúkyrðaþræðirnir kvikna út frá kökusneið sem einhver verslun selur á yfirverði. Þá er fólk í ferðaþjónustu stimplað sem okrarar. Ég hitti mikið af fólki í greininni og almennt er þetta fólk sem er að leggja sig fram og mörg grasrótarfyrirtækin búin að byggja upp ótrúlega flotta þjónustu af dugnaði, metnaði og ástríðu. Það sem við megum almennt gera betur er að vera stolt af okkur sjálfum, hvort öðru og landinu okkar. Eyða orkunni í að tala okkur upp en ekki niður.“
Aðspurður að því hvernig þessi uppbygging í afdalnum muni enda og hvert planið sé, segir Denni að markmiðið sé að halda áfram að þróa og bjóða upp á sanna upplifun, byggða á sögu og náttúru óbyggðanna. Hann sér mikil tækifæri í vetrarferðaþjónustu. „Þar sem boðið verður upp á ýmis ævintýri á Snæfellsöræfum, Vatnajökli, og víðar og spilar glæsilegi fjallaskálinn okkar í Laugarfelli þar stóran sess.“
Annað verkefni, sem nú er í þróun og á hug Denna, kallast Náttúruskólinn. „Það er samstarfsverkefni með góðu fólki og stofnunum, þar sem markmiðið er að þróa fjalla- og náttúrufræðslu fyrir skóla og virkja krakka með því að kenna þeim að njóta og virða náttúruna, ýta undir virkni og færni þeirra og gera um leið náttúrufræði, sögu og fleiri greinar áhugaverðari og meira lifandi. Náttúrufræðsla í skólakerfum t.d. Noregs, Finnlands og Kanada er til fyrirmyndar en íslenskt skólakerfi á langt í land með að sinna þeim þáttum. Kannski er ástæðan að hluta til sú að íslenskt menntakerfi virðist hannað og stýrt eingöngu af bóknámsfólki sem lítur á verkgreinar og skapandi greinar sem tómstundir en ekki nám. Þetta skilningsleysi og/eða þröngsýni er kannski ein ástæðan fyrir því hversu margir nemendur hér finna sig ekki í skólakerfinu þótt þeir séu eldklárir á sínum sviðum, en falla ekki inn í kassa kerfisins.“
Það er þetta sem ég segi. Óbyggðasetrið er ekki bara ferðaþjónusta. Hér krauma hugsjónir undir. Stóru málin, víða samhengið er aldrei langt undan í þessu spjalli okkar yfir tækniundur netsins. Ég í Reykjavík. Hann einhvers staðar lengst í afdal, punktur í víðferni óbyggðanna. Mér færist kapp í kinn. Læt flakka. Spyr stórt:
Hvar endar alheimurinn? Hver er tilgangur lífsins? Mann langar að heyra svarið frá manni sem dvelur langdvölum í samveru við eitthvað sem margir myndu kalla einhvers konar almætti. Denni svarar með spurningu á móti:
„Endar alheimurinn ekki bara þar sem hugurinn setur okkur takmörk og er tilgangur lífsins þá ekki að rannsaka, spyrja og hrífast af því sem alheimurinn hefur upp á að bjóða, og hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama og nærast á þeim samskiptum?“
Jú, ætli það ekki bara? Að vera. Til. Af öllum huga. Í heiminum. Upplifa. Hér er maður sem hefur aldeilis fundið sér og sínum réttan stað til þess arna. Ég spyr minna næst, en kannski á einhvern hátt um það sama: Hvað gerirðu fyrst þegar þú vaknar á morgnana í Óbyggðarsetrinu, Denni?
„Það sem ég geri fyrst á morgnana er gjarnan að þakka fyrir dætur mínar og allt það góða sem lífið hefur fært mér, hella upp á biksvart kaffi og rúlla svo gegnum tölvupósta og verkefni dagsins áður en allt fer í gang, en það er svo sannarlega enginn dagur eins.“