„Ég er skipper á seglskútunni Arktiku. Ég sigli mikið með ferðafólk; fjallahlaupara, kayakræðara, fjallgöngufólk, ljósmyndara og hverskyns náttúruunnendur og ævintýralið til Grænlands.“
Það er Hafnfirðingurinn Ólafur Kolbeinn Guðmundsson sem talar. Hann býr núna á Ísafirði þar sem ferðaþjónustufyrirtækið Aurora Arktika er starfrækt við góðan orðstýr. Það gerir út seglskúturnar Arktiku og Auroru, til siglinga með ferðafólk í fjarlæga staði við heimsskautsbaug.
Texti: Alexía Björg Jóhannesdóttir . Myndir: Ólafur Kolbeinn Guðmundsson
„Á Grænlandi höfum við helst verið að sigla á austurströndinni, en Aurora er reyndar byrjuð að nema lönd á vesturströndinni“ segir Ólafur, eða Óli eins og hann er kallaður. „Austurströndin er að stærstum hluta óbyggð og ósnert og jafnvel ókönnuð, td eru engin sjókort til af svæðinu. Það getur því verið spennandi að sigla á nýja staði á þessum slóðum. Stofnandi fyrirtækisins, Sigurður ,,Búbbi“ Jónsson hefur stundað ótrúlegt starf í að kortleggja svæðið í mörg ár, en nóg er eftir!“
Er það ekkert hættulegt að hafa ekki sjókort?
„Tjah. Það er spennandi, skulum við segja. Við notum alls kyns aðferðir til að minnka hættuna á að stranda, til dæmis, en ef maður lenti í einhverjum verulegum vandræðum gæti verið langt í næstu hjálp. Það þarf að fara varlega.“
„Ég er sigraður á hverjum degi, enda náttúran vægast sagt stórbrotin.“
Óli er vélstjóri og skipstjóri að mennt og stundaði sjómennsku á fiskibát í 10 ár áður en hann gekk til liðs við Aurora Arktika. Hann á erfitt með að svara því hvort einhverjir staðir á Grænlandi hafi sigrað hann meira en aðrir. „Ég veit ekki hvað skal segja. Ég er sigraður á hverjum degi, enda náttúran vægast sagt stórbrotin. Það mætti segja að Grænland sé svolítið eins og Ísland á hestasterum, og er ég nú mikið sigraður þar, til dæmis þegar ég sigli um Hornstrandir sem ég geri mikið af.“
– Mælirðu með því að fólk fari til Grænlands? Hvernig er best að hafa þannig ferð?
„Það er best fyrir fólk að fara í skipulagðar ferðir myndi ég segja. Það er að svo mörgu að huga, sérstaklega á austurströndinni. Það er mjög auðvelt að týnast þar og erfitt að finnast. Landið er svo fáránlega stórt. Friðlandið í norðri eitt og sér er stærra en Þýskaland, Frakkland og Bretland samanlagt, en það búa kannski þrjú þúsund manns á allri austurströndinni. Svo eru auðvitað ísbirnir að þvælast um allt. Það þarf mikla sérþekkingu til að þvælast um þarna.“
Hann segir þó að vissulega sé hægt að fara á þessar slóðir með minni skipulagningu. Skotferð er möguleg, til dæmis yfir helgi. „Það væri alveg hægt að skutlast til Kulusuk og fara kannski með þyrlu til Tasiilaq, sem er langstærsti bærinn á austurströndinni. Þar búa um 2000 manns. Það þyrfti kannski ekkert svaka skipulag í slíka ferð.“
Tasiilaq hét áður Ammassalik, sem er nafn sem margir Íslendingar kannast kannski við úr lestri veðurfrétta í Ríkisútvarpinu. Þótt Grænland sé svo nálægt Íslandi að daglegar fréttir af veðrinu þar séu sagðar hér, þá er Grænland samt eitthvað svo langt í burtu í huga flestra Íslendinga. Óli segist hafa kynnst grænlenskri menningu töluvert mikið. Hann á marga góða grænlenska vini.
„Ein ástæðan fyrir því hversu gaman það er fyrir Íslendinga að ferðast til Grænlands, er hversu ótrúlega langt annað maður þyrfti að fara til að kynnast jafn ólíkri menningu. En Grænland er okkar næsti granni.“
En eru þessir vinir líkir íslenskum vinum? Horfa þeir á Netflix? Spá í loftlagsmálin? Spila sömu tónlistina? Eða er stemmningin allt öðruvísi?
„Veit reyndar ekki með Netflix,“ segir Ólafur og hlær, „en það er mikið pælt í loftslagsmálum, enda áhrifin verulega áþreifanleg og snerta lífshætti heimamanna, sem margir hverjir hafa lifibrauð af veiðum. Unga fólkið er mikið að hlusta á rapptónlist, en þau eldri er mikið í rokki og róli. Það er ekki sjaldgæft að heyra einhverjar útgáfur af 60’s rokki með grænleskum textum og sjá heimamenn dansa við með miklum tilþrifum. Ég hef mér að vitandi ekki enn hitt Grænlending sem hlustar á Aphex Twin.“
Óli er sjálfur tónlistarmaður. Spilar á píanó. Hann segist ekki vera kominn í hljómsveit á Grænlandi.
„Ekki enn, en maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér! Man reyndar ekki eftir að hafa séð píanó þarna, en ég hef stundum tekið í harmóníum sem er í kirkjunni í yfirgefna þorpinu Ikateq.“
Nokkrar leiðir eru fyrir Íslendinga til að komast til Grænlands. Sigling með Aurora Arktika er auðvitað frábær leið og allar nánari upplýsingar um slíka ferð má finna á heimasíðu fyrirtækisins aurora-arktika.com svo flýgur líka Air Iceland Connect á nokkra staði á Grænlandi og býður upp á ýmsar pakkaferðir, eins og til dæmis flug til Kulusuk með þyrluferð til Tasiilaq.
„Það er mjög ótrúleg upplifun að róa á kayak innan um ísjaka, hvali, seli og jafnvel rostunga og ísbirni.“
Marga grunar kannski, miðað við lýsingarnar, að Grænland sé einungis fyrir brjálað útivistarfólk, en svo er ekki. „Maður þarf ekki að vera neinn útivistarnörd til að fara í helgarferð til Kulusuk. Flestir sem ég þekki myndu þykja það mikil upplifun. Auk þess eru alls ekki allir farþegar á Arktiku útivistarfólk. Margir koma bara til að njóta ferðarinnar af skútunni og fara í stutta labbitúra og kayakróðra.“
Grænland er semsagt fyrir alla sem vilja njóta framandi menningar og stórbrotinnar náttúru. „Það er mjög ótrúleg upplifun að róa á kayak innan um ísjaka, hvali, seli og jafnvel rostunga og ísbirni.“
Það hljómar jú klikkað. Eins og í ævintýri.
„Já þetta er mjög mikið ævintýri og eiginlega ekki hægt að lýsa í orðum. Það tekur alltaf tíma fyrir mig að trappa mig niður eftir Grænland. Ég vara fólk gjarnan við að Grænland sé mjög ávanabindandi.“