Byrjun janúar. Það er sunnudagsmorgunn. Úti er kalt. Snjómugga. Lægð. Mikið lifandis ósköp er freistandi að sofa lengur. Sveipa sig sænginni og gleyma öllu. Nokkrar afsakanir hafði ég í mókinu náð að smíða í huganum eftir gjall vekjaraklukkunnar en þó var engin betri en einfaldlega þessi: Ég var of þreyttur. Ég ætlaði ekki að nenna þessu. 

Svo vaknar framheilinn. Skynsemin. Láttu ekki svona, Gummi. Ekki vera aumingi. Þú ferð ekki að beila á ráðstefnu um hamingju og árangur, fjandinn hafi það. Alls konar magnað afreksfólk er að segja frá lífi sínu og aðferðum, og þú ert of þreyttur vegna þess að þú varst að horfa á Netflix. Það gengur ekki. 

Texti: Guðmundur Steingrímsson.  Myndir af ráðstefnu: Magnús S. Sigurðsson

Líkaminn segir nei, en hugurinn já. Ég dríf mig af stað. Sigur mannsandans. Úfið hár. Stýrur í augum. Harpa. Hálf tíu. Kaldalón. Fullur salur af ákaflega fersku fólki. Einar Bárðar í Meðbyr búinn að setja ráðstefnuna og Björgvin Páll Gústafsson landsliðsmarkmaður í handbolta er í miðju erindi, sem hann flytur utan úr heimi á milli leikja á EM í handbolta. Ég bý mér til blaðamannastúku aftast, í búrinu við hliðina á hljóðmanninum, tek upp skrifblokkina og byrja að nótera hjá mér. 

Ég hef alltaf verið smá veikur fyrir svona sjálfshjálpardóti, en líka stundum skeptískur. Er þetta tal allt saman — um það hvernig maður á að haga lífi sínu, hvernig maður á að ná árangri — er þetta eitthvað ofan á brauð? Eru þetta ekki bara frasar, möntrur sem gagnast sumum og öðrum ekki? Og eru ekki endalaust alltaf tvær hliðar á öllu, aldrei hægt að fullyrða neitt um neitt? Og svona fyrirlestrar. Er þetta ekki bara eitt stórt humble-brag?  

Nei. Ég var mættur með opnum huga. Öll kaldhæðni skilin eftir heima. Einlægur var ég í vitundinni. Opinn. Nálægur. Peppráðstefnan Hamingja og árangur í Hörpu var nú hafin í fyrsta skipti. Svo margir voru mættir að hún verður ábyggilega haldin aftur á næsta ári. Fólk vill hlusta. Betrumbæta líf sitt. Ég líka. Þannig að. Pælingin mín var þessi: Ég ætlaði ekki að skrifa niður orðrétt allt sem fyrirlesarar sögðu, og endursegja það, heldur var markmið mitt að skrifa grein um það hvernig ég upplifði þessa ráðstefnu, hvernig uppbyggingarlestrar afreksfólksins orkuðu á mig. Hvað lærdóm tók ég út úr þessu? Aðrir geta síðan speglað sína reynslu í því og ef lesendur vilja heyra meira er bent á aðra fyrirlestra sem sumir þátttakendur munu örugglega halda annars staðar, út um allar koppagrundir — enda vinsælir — og fínar bækur sem þeir hafa nokkrir gefið út undanfarið.

Björgvin Páll er með orðið. Ég missti af upphafinu, eins og áður segir, vegna framheiladoða. Ég kem inn í tal Björgvins um mikilvægi öndunar og yfirvegunar. Framsaga hans slær mig vel. Þetta er einhvers konar Skype-töflufundur. Hann búinn að tússa aðalatriðin á töflu. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Björgvin tekið líf sitt í gegn. Í viðtali sem ég las við hann fyrr í vetur tengdi ég vel við það sem hann sagði um að hann langaði helst að vera heimavinnandi húsfaðir. Undanfarið hef ég notið þess að vera mikið heima, með alls kyns verkefni á prjónunum. Það er mikil hamingja sem felst í því að geta verið heima þegar börnin koma úr skólanum. Eiga spjallið. Vera til staðar. Maður upplifir tilgang. Ég er samt ekki viss um að ég myndi vilja vera heimavinnandi alltaf. Konan mín segir að ég þurfi kannski bráðum að fara að umgangast fleira fólk. Aulahúmorsflaumurinn er orðinn of mikill og uppsafnaður þegar hún kemur heim úr vinnunni. Ég er að breytast í furðufugl. 

„Samvinna í stað samkeppni. Það hjómar vel. Og kannski augljóst, en einsog Björgvin segir í lokin: Einfalt er ekki auðvelt.“

Björgvin talar um mikilvægi þess að stíga hundrað skref til baka, eins og hann kallar það. Hann er að tala um ákvarðanir. Þetta rými sem skapast á milli ákvarðana. Á undan þeim. Að nota það rými til að horfa á kringumstæðurnar úr fjarlægð, skoða sjálfan sig og íhuga tilgang sinn. Einn þráð kunni ég sérstaklega vel við í boðskap Björgvins. Hann fjallaði um stöðu sína gagnvart öðrum. Hvernig sjá aðrir mann? Mér hefur stundum fundist að sjálfshjálparfræðin gangi of mikið út á það að maður skuli efla sjálfan sig út í hið óendanlega, að elska sig. En maður hefur líka ríkar skyldur gagnvart öðrum. Sjálfseflingin má ekki gera mann að óþolandi egóista. Vissulega skal setja súrefnisgrímuna fyrst á sig, svo á barnið, og maður elskar kannski ekki aðra nema maður elski sig á einhvern hátt, en þessi vídd hlýtur samt að vera mikilvæg: Að stór hluti tiltektar í sjálfinu sé að vera betri manneskja í samfélagi við aðra.

Töflufundur Björgvins bar yfirskriftina „Leið mín til baka“. Hann kom til baka úr erfiðum sálarþrengingum og gerði það með því m.a., eins og ég skil það, að stíga til baka.  Róttæk endurskoðun á honum sjálfum, af honum sjálfum, átti sér stað. Gríman féll. „Ég klippti mig,“ segir Björgvin. Síða hárið var jú visst einkenni hans. „Það var test á egóið. Ég leit á það sem nýtt upphaf. En svo sá ég það var auðvitað öllum drullusama.“

Salur hló. Auðvitað. Þetta er fyndið. Karlmenn lenda alltaf í þessu. Það tekur enginn eftir því þegar þeir klippa sig, jafnvel þótt klippingin sé grunnþáttur í róttæku endurmati á tilgangi lífsins. Það er þetta með stöðu manns í samfélagi við aðra. Björgvin lýsir því hvernig kennarar hans í barnaskóla hafi fullyrt að það yrði aldrei neitt úr honum og hvernig hann vildi afsanna það. Sem tókst. Líklega hugsa allir um það hvernig aðrir hugsa um sig. Björgvin virðist einlægur í því að horfast í augu við þá tilfinningu og hefur náð, eins og ég skil það, að sækja í hana kraft. Og tilgang. Líklega öðlast maður tilgang í sinni einföldustu og tærustu mynd þegar maður verður öðrum að liði. Björgvin lýsir því hvernig hann gaf ungum markmanni allt sem hann gat gefið, í leiðbeiningum, þekkingu og reynslu. Sá fór að spila frábærlega.  Hann slær í gegn. Þetta leiðir til þess að Björgvin spilar minna og missir í kjölfarið landsliðsstöðuna. Sá ungi er valinn markmaður ársins. Það er svo aftur lýsandi fyrir þann styrk sem endurmatið hefur fært Björgvini, að velgengni hins unga truflar hann ekki heldur þvert á móti. Hún gefur Björgvin tilgang, styrk og orku. „Ég stend eftir með gott karma. Ég sæki orkuna í liðsfélagana í stað þess að traðka á öllum í kringum mig.“ Samvinna í stað samkeppni. Það hjómar vel. Og kannski augljóst, en einsog Björgvin segir í lokin: Einfalt er ekki auðvelt. Hann er kominn aftur í landsliðið. Nýklipptur. 

 

Elísabet Margeirs tók 400 km á fjórum sólarhringum á húmornum.

Næst á svið er Elísabet Margeirsdóttir. Yfirskrift hennar er „400 kílómetrar af ástríðu“. Það er umhugsunarvert sem Einar Bárðar segir. Svona ráðstefna hefði verið allt öðruvísi fyrir 10 árum. Á þessari ráðstefnu tala karlar um tilfinningar og konur um afrek sín. Ég er ekki viss um það hefði verið þannig áður fyrr. 

Hver hleypur 400 kílómetra á fjórum sólarhringum án þess að sofa? Jú, Elísabet. Afrek hennar í Gobi-eyðimörkinni, í því gríðarlega erfiða utanvegahlaupi árið 2018, verður lengi í minnum haft. En það sem er svo merkilegt við feril Elísabetar, og hleypir okkur aumingjunum alltaf krafti í brjóst, er það hversu seint hún byrjaði að hlaupa. Hún fór í hálfmaraþon í Reykjavík árið 2005. Á mynd sem hún varpar á skjáin er hún bara ein af þessum hlaupurum sem gera svoleiðis. Drífa sig í hálfmaraþon. Þrettán árum síðar er hún fyrsta konan í mark í Gobi-hlaupinu. Hvað gerðist? 

„Ég öfunda þá sem eru að hlaupa í fyrsta skipti,“ segir Elísabet. Hún bendir á að hlaup séu ekki endilega skemmtileg til að byrja með, en reglulegar æfingar og þolinmæði er það sem þarf. Þá fari hún að gera vart við sig, þessi eftirsóknarverða sigurtilfinning. Maður er að ná árangri. 

Er þetta ekki lykilatriði? Bara þetta: Hvað maður verður glaður þegar maður nær að gera það sem maður ætlaði sér. Elísabet nefnir Transvulcania hlaupið árið 2017. Markmið hennar var að koma í mark á undir 10 tímum. Hún kom í mark á 9 klst 59 mínútum og 39 sekúndum. „Það var sætur sigur.“ 

„Það er ekki gaman að vera alltaf í sigurvímu.“

Markmið manns þurfa auðvitað ekki að vera þau sömu og Elísabetar. Ég þekki engan sem ætlar að hlaupa 400 km í einum rykk eða dreymir um það á nokkurn hátt á árinu. En hver sem markmið manns eru, þá hlýtur það að vera mikilvægt flestum að hafa sér markmið, yfirleitt — stór eða smá — og þá blasir spurningin við: Hvernig nær maður þeim? 

Elísabet segist skipta markmiðum niður í A og B markmið. A markmiðin eru draumamarkmiðin. Til að ná þeim er allt lagt undir. B markmiðin skipta hins vegar meira máli í ferlinu. Þau varða leiðina að draumamarkmiðinu. Skref fyrir skref fyrir skref, söng Eyjólfur Kristjánsson. Er það ekki það sem málið snýst um? Maður á það til að missa sjónar af þessari einföldu staðreynd, að árangur kemur jú smám saman. Ekki geta öll markmið verið A markmið, segir Elísabet. Þá yrðum við endalaust fyrir vonbrigðum. Það sé líka mikilvægt að hvíla keppnisskapið og leyfa sér að njóta. „Það er ekki gaman að vera alltaf í sigurvímu.“  

Að loknu Gobi-hlaupinu var hún í slíkri vímu. Maður nær ekki að ímynda sér hverslags þrekraun það er að hlaupa það hlaup. Á sama tíma og Elísabet var í Gobi var ég að hlaupa mitt fyrsta maraþon í Búdapest, skitna 42 kílómetra. Mikið gríðarlega fannst mér það erfitt. Ég var búinn að vera eftir 30 km. Fæturnir orðnir að tréklumpum og maður bara einhvern veginn gösslaðist þetta áfram. Í Gobi er hlaupið á hásléttu, yfir fjöll og dali í frosti og steikjandi hita, ljósi og myrkri með smá hvíld á 40 km fresti í fjóra sólarhringa. Hvernig voru fæturnir á Elísabetu? 

Hún minnist ekkert á það, en annað vekur athygli mína. Hún var tilbúin í þetta, eftir farsælan feril A og B markmiða — sigra og mistaka (maður lærir mikið af þeim, segir hún) — og þrotlausan undirbúning. „Maður er ekki í þessu út af því að þetta er auðvelt,“ segir hún. Ég trúi því. Þetta er þrekraun. Og maður þarf að sigrast á ótta sínum. Í myrkrinu í eyðimörkinni getur margt leynst. En hvað hélt henni gangandi? Jú, húmor, segir hún. „Til þess að komast áfram verður maður að hafa húmor. Manni verður bara að finnast þetta mjög fyndið.“ 

Þarna kinkaði ég þvílík kolli í blaðamannstúkunni. Einn. Þetta er svo satt. Ég er ekki mikill afreksmaður í útivist og íþróttum og á mér enga sögu í þeim efnum. Það að ég yrði Landvættur fyrir nokkrum árum fannst mér mjög fyndið. Mér finnst líka verulega fyndið að skrá konuna mína í það verkefni, hjá FÍ, án þess að spyrja hana. Og það sem meira er: Henni fannst það (sem betur fer) mjög fyndið líka. Án þess að vera í hláturskasti allan tímann, þá er þetta samt svo rétt: Er ekki fjarlægt markmið alltaf á vissan hátt fáránlegt markmið og þar með fyndið markmið? Einhvers staðar í þessum kjarna liggur gleðin við þetta allt saman. Að koma sér og öðrum á óvart. Gera eitthvað rugl. Það er grunnatriði gríns. 

Ólafía Kvaran ákvað að tékka á spartanhlaupum og varð heimsmeistari.

Á sviðið stígur Ólafia Kvaran. Undirliggjandi í hennar erindi er þetta grín: Hér er 49 ára gamall Hafnfirðingur og þriggja barna móðir. Hún byrjaði að pæla af einhverri alvöru í svokölluðum spartanhlaupum árið 2018. Ári síðar varð hún heimsmeistari. 

Það er erfitt að toppa það. „Það er svo sætt að klára eitthvað sem maður veit að maður gerði sitt besta til að ná,“ segir Ólafía. Spartanhlaup eru utanvegahlaup með fullt af hindrunum. Svolítið eins og fólk gengur í gegnum í herþjálfun. Bera þarf poka, synda, klifra yfir háa veggi og guð má vita hvað. Ef maður getur ekki klárað hindrun fer maður á refsisvæði. Þar þarf að taka 30 burpees, eins og það sé ekki nóg dagsverk fyrir flesta.  

Á heimsmeistaramótinu árið 2018, rétt eftir að Ólafía byrjaði að pæla í þessu af einhverri alvöru, varð hún í 4.sæti. Í kjölfarið var hún gerð að sendiherra spartanhlaupa á Íslandi og jafnframt boðið að taka þátt í æfingabúðum í Nevada, þar sem 50 bestu spartanhlaupurum er boðið að vera með. Eftir þetta var hún staðráðin í að verða betri árið 2019. 

Heimsmeistaramótið brast svo á í Lake Tahoe í Kaliforníu. „Ég var svo tilbúin í þetta,“ segir Ólafía. Í frásögn hennar kemur eitt fram sem ég er viss um að margir kannast við. Hvernig maður gerir plön og hvernig plönin puðast svo út í vindinn. Hlaupaleiðin var kynnt tveimur dögum fyrir hlaup og Ólafía lá yfir kortunum. „Ég verð að hafa plan, en oftast fer samt allt í steik eftir fyrsta klukkutímann. En þá endurskoðar maður planið. Það er gott til að dreifa huganum.“

Hún vissi af sterkum keppanda. Annarri konu. Hún ætlaði að hanga í henni. Það var plan A.  Aðstæður voru fremur erfiðar á keppnisdaginn, en háðu þó ekki Ólafíu. Það hafði snjóað um nóttina. „Stressið fór eins og skot eftir að hlaupið byrjaði. Eina sem hrjáði mig var að vettlingarnir frusu og mér varð kalt á höndum.“

Á síðari hluta leiðarinnar tók hún endalaust fram úr fólki. „Ég var að gefa fólki high five og hvetja það áfram.“ Keppendur í spartanhlaupi eru ræstir á 15 mínútna fresti þannig að keppendur vita illa hvar þeir standa í röðinni. Plan A var því ekki að virka. „Ég sá náttúrlega aldrei þessa konu sem ég ætlaði að hanga í.“ 

Svo frétti Ólafía að hún væri fyrst, og það er segin saga: „Þá stressaðist ég upp. Ég hljóp áfram eins og crazy kona og kom í mark sem heimsmeistari í mínum aldursflokki. Mér fannst það óraunverulegt í marga daga á eftir.“

Afrek Ólafíu er dæmi um það hvernig mikill undirbúningur og miklar æfingar og rétt hugarfar getur skilað fólki að settu marki. Og hvernig plön – þótt þau puðist út í vindinn á fyrstu metrunum – eru samt mikilvæg. Þau eru leið til þess að sjá fyrir sér verkefnið.  Ólafía segist hafa plan fyrir 2020: Að hafa gaman og njóta. Og verja titilinn. 

„Ég verð sjúklega glöð þegar þetta er búið.“

„Ég hef aldrei haldið fyrirlestur eða staðið frammi fyrir hóp af fólki,“ sagði Ólafía í upphafi máls síns og minnti þar með salinn á hvað áskoranir eru jú einstaklingsbundnar. „Ég verð sjúklega glöð þegar þetta er búið.“  Að standa á sviði er áskorun sem margir tengja við. Að fara á K2 að vetri er hins vegar áskorun sem fáir tengja við. Engum hefur tekist það þegar þetta er skrifað. Slíkur leiðangur er stórhættulegur. Eftir stutt skilaboð frá John Snorra Sigurjónssyni frá Pakistan, þar sem hann var staddur í undirbúningi sínum að ferðalaginu uppá K2, er ekki laust við að maður hugsi bara þetta: Af hverju er hann að þessu? 

Það er auðvitað góð spurning í ákaflega mörgum tilvikum, þótt hún sé kannski sérstaklega aðkallandi í tilvikum þar sem lífsháski er óumflýjanlegur. En kannski er lífsháski aldrei óumflýjanlegur. Fólk klifrar án búnaðar upp þverhnípi, eins og sjá má í heimildarmyndinni Free Solo, og eftir stendur spurningin um það hvort háski Alex Honnold — að þjálfun hans og kunnáttu gefinni — hafi verið meiri eða minni en háski þess sem gerir aldrei neitt. Er hreyfingarleysi ekki stórhættulegt?

Það er óvinnandi vegur að ætla sér að leggja hlutlæga mælikvarða á mannleg markmið. Þau eru alltaf fjarlæg, annars væru þau ekki spennandi, og alltaf erfið. Séu þau mögulega á færi manns og kalli þau sterkt á mann, hlýtur að vera erfitt að reyna sig ekki. Megi mátturinn vera með John. Næstur á svið er Jóda. 

Allt sem maður gefur athygli vex og dafnar, segir Guðni Gunnarsson.

Jóda, segi ég. Guðni Gunnarsson stofnandi Rope Yoga setursins er eiginlega orðinn einhvers konar gúrú Íslands. Ég las viðtal við hann einu sinni sem greiptist í hugann. Hann var að tala um þetta með athyglina. Að allt sem maður veiti athygli vaxi og dafni. Ég hafði aldrei heyrt þetta fyrr — þannig séð — en þetta small algjörlega. Maður „gefur“ einhverju athygli. Athygli er gæði. Kraftur. Orka. Fólk vill athygli. Maður vill athygli.

Ég ætla ekki að reyna að endursegja erindi Guðna með hans vel ígrunduðu orðum. En svona skildi ég hann: Það krefst vissrar heilsteyptar nálgunar að komast á þann stað í lífinu að maður nái markmiðum sínum og geti jafnframt notið þess að hafa náð markmiðum sínum. Eitt megineinkennið á mannfólki, ekki síst á Vesturlöndum, er jú það, að sífellt er stefnt að því að eignast eitthvað nýtt og gera eitthvað nýtt, en hamingjan í kjölfarið lætur á sér standa. Farsældin er innantóm og eykur ekki velsæld. Þetta getur verið vegna þess að farsældin er innistæðulaus. Markmiðinum er ekki náð með því að gefa sig allan í verkefnin, með aga, né heldur er þeim náð á grunni einlægrar sjálfskoðunar þar sem spurt er af hverju ég vilji ná þessum markmiðum. Svarið við þeirri spurningu verður að koma frá hjartanu, en ekki spretta t.d. af örvæntingu. Með orkuna sem felst í athyglinni — með því að gefa verkefninu athygli — nær maður síðan árangri. 

Það er ekki hlaupið að þessu. Margir láta nægja að lýsa því yfir að þá langi til einhvers. En „vilji er verknaður, ekki von eða þrá.“  Maður getur sem sagt þráð alls konar. Að fjölskyldan eigi góðar stundir saman. Að maður sé með flatan maga. Að maður sé frjáls. Maður getur verið út um allt í óskum og heimtingum. En aðeins verknaður af heilum hug, raunveruleg skref í átt að þeim veruleika sem maður sér fyrir sér, er raunverulegur vilji. Til þess að ná að verða svona einstaklingur þarf að breyta aðeins einu í okkar tilvist: Viðhorfinu til okkar sjálfra. Maður þarf að upplifa sig sem viljandi geranda í sínu eigin lífi, hlaðinn orku athyglinnar, sem flytur fjöll sé henni beitt rétt. Komist maður á þennan stað, þá nær maður að finna tilgang með gjörðum sínum og á grunni hans skapast ástríða. Maður verður örlát sál sem hefur góð áhrif á umhverfi sitt. 

Það hlýtur að vera mikilvægt. Svona skildi ég sem sagt Guðna. Eða misskildi. Í öllu falli er ég uppveðraður, fullur andagiftar, þegar Sölvi Tryggvason kemur næstur uppá svið. 

Er Sölvi kannski dæmi um viðhorfsbreytingu Guðna?

Einar Bárðarson kynnir Sölva með þeim orðum að hann sjálfur hafi þokast allhressilega nær sínum markmiðum meðal annars út af því að hann las bókina hans. Hann sé núna í fjórum númerum minni gallabuxum. 

Salur hlær. Sölvi er í þröngum gallabuxum. Hann ber það ekki utan á sér að hafa glímt við mikil vandræði. Töffari. Sléttur magi. Kvennaljómi, held ég. En Sölvi glímdi við kvíða, meðal annars. Hann segist vera hræðslupúki. Hann byrjar á því að segja frá því að þegar hann hafi starfað sem fréttamaður hafi hann yfirleitt fengið 30 mínútna svimakast á eftir hverju þriggja mínútna símtali sem hann þurfi að taka. Hann hafi endalaust þurft að fara inná klósett til að jafna sig. Hann bregður upp skjámynd með lista af öllum lyfjunum sem hann hefur tekið um ævina, til að slá á alls kyns kvilla sem hann hefur greinst með. 

En svo gerðist eitthvað. Svart breyttist í hvítt. Veikleikar urðu styrkleikar. Kannski er Sölvi dæmi um viðhorfsbreytinguna sem Guðni talaði um. Hverju veitir maður athygli? Fær kvíðinn óskipta athygli manns eða er kannski betra að líta svo á kvíðinn sé eitthvað sem kemur fyrir endrum og eins? Maður þurfi ekki endalaust að kippa sér upp við kvillana. Betra sé að beina athyglinni að öðru uppbyggilegra, svo það vaxi og dafni. 

Sölvi segist leggja áherslu á það að reyna að hegða sér óháð tilfinningu. Þetta finnst mér góður punktur. Ég prófaði þetta strax á dóttur minni nokkrum dögum síðar. Hún kvaðst stressuð fyrir eitthvað. Ég sagði henni að það væri skiljanleg tilfinning, en hún skyldi gera hlutinn samt. Hegðaðu þér óháð tilfinningu, dóttir! 

Sölvi er búinn að halda fyrirlestra, ganga Jakobsveginn, hlaupa Laugaveginn og taka þátt í dansþætti á Stöð 2, allt þrátt fyrir kvíðatilfinningar og ótta. Ég skynja sögu hans sem ákveðið tilbrigði við það sem nánast allir segja sem takast á við miklar líkamlegar áskoranir. Líkaminn segir manni að hætta, en hugurinn vill áfram. Sölvi talar um kraft hugans. Er taugakerfið, kvíðakerfið ekki líkaminn í þessari sögu og hann sjálfur, Sölvi Tryggvason, hugurinn? Líkaminn segir nei. Hann já. Mér finnst þetta meika sens. Lífið er maraþon. Enginn líkami vill hlaupa slíkt. Bara hugur. 

Og þá er hádegishlé.  

Veröldin fyrir samkomubann. Fullt af fólki á ráðstefnu og engin 2 metra regla.

Matti Ósvald Stefánsson markþjálfi aðstoðar fólk við að ná jafnvægi. Fólk kemur til hans í ójafnvægi og fer í jafnvægi. Fyrirlestur Matta er góð viðbót við erindi Guðna. Smám saman fatta ég betur hver grunnnálgun þeirra beggja er. Sjáiði til: Mjög margir haga lífi sínu þannig, að mikilvægt sé að keppa að einhverju marki — strita mikið og vinna — og svo þegar markinu er náð, þá megi loksins njóta friðar. Þetta er rótgróin sýn. Maður vinnur. Maður uppsker. Þá fyrst má maður slappa af. Maður keppir að friði og ró. Vinna fyrst. Fara svo í pottinn. 

Matti aðhyllist þveröfugan skóla. Fyrst pottur. Svo vinna. Hjá honum kemur friður fyrst. Svo framkvæmdir. Maður keppir að markinu á grunni friðar og jafnvægis.

Þetta held ég að sé mikilvægt. Matti ræðir um kulnun. Eins og ég skil hann er kulnun afleiðing af því að fólk hættir að hlusta á sig, eða taka tillit til sín. Til verður box í huganum sem heitir „Allt sem ég á eftir að gera“. Þetta box fyllist mjög fljótt. Fólk kemst ekki yfir to do listann. Fólk hættir þar með að bera traust til sín. Missir trú á sér. Fólk brennur yfir. 

Matti Ósvald

Á einhverjum tímapunkti fýkur sálarfriðurinn út um gluggann. Maður gleymir að viðhalda ró sinni, að stunda öndun, að sinna sjálfum sér, fara út að hlaupa — eða gera hvað það sem færir manni ró. Matti segir þetta ekki svona, en ég leyfi mér að túlka orð hans með líkingu. Þegar The Karate Kid tekur flotta sparkið sitt í lokin á mynd númer eitt þá tekur hann góðan tíma í að ná jafnvægi fyrst. Hefði hann misst jafnvægið hefði hann aldrei getað sparkað. Endirinn hefði verið snautlegur. 

Á sama hátt getur væntanlega enginn náð tökum á lífi sínu, afstýrt ferli kulnunar, náð tökum á to-do-listanum, nema að huga að jafnvægi sínu og innri ró fyrst. Þá komum við aftur að Guðna:  Jafnvæginu náum við með því að gefa sjálfum okkur og sálarheill okkar athygli. Og ef athygli beinist einkum að því sem maður ber virðingu fyrir og ber væntumþykju til, þá kallast svona athygli sjálfsvirðing. 

Þannig skil ég orð Matta um það að sjálfsvirðing sé sterkasta meðalið gegn kulnun. Ég klóraði mér smá í kollinum yfir þeim orðum fyrst, en nú sé ég þetta. Ætli sjálfsvirðing í þessari merkingu sé ekki kraftmesti orkudrykkurinn í lífinu yfirleitt. 

Þá erum við tilbúin til þess að ganga á Everest. Vilborg Arna Gissurardóttir stígur á svið. Allir þurfa sitt eigið Everest, er sagt, en svo vill til að hennar Everest hefur verið hið eiginlega fjall, Mount Everest, í öllu sínu 8848 metra háa veldi. Frásögn hennar er frásögn af konu og fjalli. Hún kallar erindið 8848 ástæður til að gefast upp. 

Við tekur mögnuð frásögn af því hvað leiðin að settu marki getur verið fáránlega erfitt og skrikkjótt spartanhlaup. Vilborg sjálf segir þá sögu auðvitað best, en í stuttu máli gerðist það að í fyrstu tilraun hennar til að toppa fjallið varð skelfilegt íshrun sem dró 16 manns til dauða. Í annað skiptið leiddi jarðskjálfti til þess að grunnbúðirnar þurrkuðust út og 32 manns dóu. Að sjálfsögðu varð ekkert úr Everestleiðöngrum í bæði þessi skipti. Í báðum tilvikum var um skelfilega reynslu að ræða. „Maður getur ekki undirbúið sig undir svona hluti,“ segir Vilborg. Hún var niðurbrotin og buguð af sorg. Tvisvar. 

Eftir að hafa unnið sig upp eftir fyrsta áfallið — fundið tilganginn aftur og drifkraftinn — og lagt af stað í annan leiðangur á Everest, varð síðara áfallið skiljanlega reiðarslag. Nánast rothögg, eins og hún lýsir því. Hún kom heim til Íslands 12 dögum eftir að jarðskjálftinn átti sér stað. „Ég ætlaði aldrei að klifra aftur,“ segir hún. „Það var eins og einhver hefði komið með ískalda fötu af vatni og slökkt í þessu öllu saman.“ 

Svo líður tíminn. Vilborg ákveður að fara eina ferð aftur til Nepal, svona eins konar kveðjuferð. Hana langar til að standa í grunnbúðunum og horfa yfir. Hún ákveður að klífa þar eitt 6000 metra fjall. Hún finnur að áhuginn kviknar aftur. Þetta er ekki búið. 

Undir fyrirlestrinum hugsa ég svolítið mikið um það hvað þetta er sem hún lýsir. Þessi þrá. Þessi löngun til að standa uppi á toppi á þessu fjalli. Ég sjálfur hef ekki áhuga á því að fara á Everest. Ég held að það sé alltof kallt þarna og erfitt að anda og bara alls konar vesen. Til þess að skilja Vilborgu held ég að maður þurfi virkilega að hugsa stíft um það hvað komi í staðinn fyrir Everest í manns eigin lífi. Hvers konar markmið fær mann til að reyna aftur og aftur? 

Ég hugsa að þau geti verið af alls konar toga í lífi fólks. Galdurinn sé að hugsa nokkuð hressilega út um víðan völl til að sjá það. Everest er víða. Sumir reyna aftur og aftur að hætta að drekka. Aðrir að hætta að borða sykur. Eignast lífsförunaut. Brjótast tll mennta. Skrifa bók. Finna lækningu við krabbameini. Leysa loftslagsvandann. 

Hvernig hún nálgaðist þriðju tilraunina er eitthvað sem ég tengi við. Nú var það leyniverkefni. Hún sagði engum frá. Manni langar svo oft að halda markmiðum sínum leyndum. Ég held að þar komi saman tveir þræðir sem hér hafa verið ofnir:  Í fyrsta lagi er það á vissan hátt gott grín og fyndið að vera allt í einu búinn að gera eitthvað magnað — eins og að leysa loftslagsvandann — án þess að hafa sagt frá því. Hér glittir í drifkraft húmorsins, sem Elísabet Margeirs talaði um. Í öðru lagi getur það verið nauðsynlegt til þess að maður nálgist markmiðið í friði og jafnvægi, samanber boðskap Guðna og Matta, að halda verkefninu fyrir sig. 

Í maí 2017 toppar Vilborg Everest. Hún var næstum því hætt við vegna veðurs. En það tókst. „Maður horfir yfir heiminn og sér kúrfuna á jörðinni.“

„Andlegur styrkur skiptir okkur öll máli. Ekki bara íþróttafólk. Hann kemur okkur öllum við.“

„Mitt Everest hefur verið fótbolti,“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir fótboltahetja, nýhætt, og sálfræðingur. Hún rekur lestina í fyrirlestraröðinni. Eins og hjá Ólafíu segir Margrét það vera áskorun fyrir sig að halda þetta erindi. Þegar hún var 16 ára hafi hún verið svo feimin að hún hafi ekki getað tekið upp símann til að panta pizzu. En svo tekst fólk á við ótta sinn og eflist. Eins og Ólafía leysir hún þetta verkefni með glæsibrag.

Hún talar um andlegan styrk. Einhvern veginn kemst maður í gegnum hluti, jafnvel þótt maður sé t.d. illa fyrir kallaður. Það er út af andlegum styrk. „Andlegur styrkur er getan til þess að takast á við streitu, mótlæti og vinna sig upp eftir að hafa gert mistök.“

Andlegi styrkurinn er einhvers konar jafnvægisafl því hann er ekki síður mikilvægur í velgengni. Hún má ekki stíga manni til höfuðs. „Andlegur styrkur skiptir okkur öll máli,“ segir Margét. „Ekki bara íþróttafólk. Hann kemur okkur öllum við.“ 

Margrét fann sinn styrk best í mótlæti. Fyrir EM í fótbolta 2017 sleit hún krossbönd. Systir hennar, fótboltakona líka, sleit líka krossbönd. Í stað þess að falla í eymd og volæði gerðu þær sér plan. Þær bjuggu til sinn heim með sínum framförum og árangri í World Class í Laugum. Smám saman sigruðust þær á erfiðleikunum og komu til baka sterkari. Þótt Margrét hefði vissulega ekki viljað slíta krossbönd, þá varð niðurstaðan samt í raun jákvæð. Meiri andlegur styrkur. „Þessi reynsla eftir á að hyggja er í raun miklu mikilvægari fyrir mig heldur en að hafa farið á þriðja stórmótið. 

Ef maður tekur erfiðu reynsluna með opnum huga og heldur áfram á jákvæðan hátt og lætur mótlætið efla sig þá held ég að maður uppskeri að lokum.“

Stundum þarf maður að ljúga að sjálfum sér, sagði Margrét Lára.

Margrét nefnir nokkur atriði sem auka hjá henni andlegan styrk, eins og það að taka stjórn á því sem maður getur stjórnað og gerast leikstjórar í eigin lífi. Sjálfstraust er líka lykilþáttur. „Það er eitthvað sem við þurfum virkilega að hafa fyrir. Maður getur ekki farið út í Bónus og keypt sér sjálfstraust. Maður þarf að vinna í sjálfstraustinu.“ 

Hér kemur Margrét inn á pælingar sem ríma mjög sterkt við það sem ég hef einnig upplifað. „Stundum þarf maður að ljúga að sjálfum sér,“ segir hún. Þetta hljómar skemmtilega þvert á margt annað sem áður hafði verið sagt á þessum sunnudagsmorgni, en svona er lífið oft þversagnarkennt. Þótt vissulega sé mikilvægt að vera sannur og þekkja sjálfan sig og vita takmörk sín og guð má vita hvað, að þá er þetta líka svo rétt: Stundum þarf maður að blekkja sig. 

Þegar markmiðið er að ná árangri í einhverju, eins og hjá Margréti Láru í fótbolta, þá má líka einfaldlega kalla þetta óhóflega bjartsýni. Á grunni hennar geta kraftaverk gerst. Þegar Margrét kom til baka eftir krossbandaslitið og eftir barneign þurfti hún að ljúga hressilega að sjálfri sér, eins og því að eftir 36 vikur á æfingum yrði hún ábyggilega orðin góð. Það gerðist auðvitað ekki. En nógu hratt gerðist það samt. Hún varð Íslandsmeistari.

Ég tengi. Stundum er sagt að Íslendingar geti ekki gert neinar áætlanir sem standa. Allar byggingar fara fram úr fjárhagsáætlunum. Í mínum huga er ástæðan augljós. Ef raunhæf plön yrðu gerð, þá yrði aldrei neitt byggt. 

Með þessar pælingar í huga geng ég út úr Kaldalóni og út í enn einn storminn í fullkomnu jafnvægi. Nýi Gummi.

Sko. Mér finnst ekkert svo erfitt að hlaupa 10 kílómetra. Næsta maraþon sem ég hleyp verður í raun bara fjögur svoleiðis hlaup. Það er ekkert mál. Plús skitnir tveir kílómetrar. Ég rúlla því upp.  

Sem sagt: Maður þarf að ljúga að sjálfum sér. Óraunsæi er drifkraftur aðgerða.

Það er fyndið.