Hið litríka Gamlárshlaup ÍR fór að sjálfsögðu fram í dag og Úti lét sig vitaskuld ekki vanta. Sjá mátti alls kyns fyrirbrigði hlaupa 10 kílómetrana — ofurhetjur, hljómsveitina Kiss, Ólaf snjókarl og fleiri — og virðist flippkisaháttur af alls kyns toga heldur hafa færst í vöxt, sem er vitaskuld vel. Auk þess var boðið upp á skemmtiskokk, 3 km, að þessu sinni. Alls skráðu 2074 manns sig til leiks.

Fleiri og fleiri hlaupa í búningum. Hér hleypur nunna.

Prýðileg skilyrði voru til hlaupa, ekki of kalt og þægilegur vindur. Rigningin var ekkert nema hressandi. Arnar Pétursson sigraði á meðal karla, sem þarf kannski ekki að koma mikið á óvart miðað við árangur hans á undanförnum árum. Hann hljóp tíu kílómetrana á 31 mínútu og 19 sekúndum. Ingvar Hjartarson kom annar í mark á tímanum 34:44 og Hlynur Guðmundsson rétt á hæla honum á 34 mínútum og 57 sekúndum.

Andrea Kol­beins­dótt­ir var fljótust kvenna. Hún kom í mark á 36 mínútum og 30 sekúndum. Elín Edda Sigurðardóttir varð önnur á 37:37 og rétt á eftir henni kom Arndís Ýr Hafþórsdóttir á 37 mínútum og 53 sekúndum.

Arnar Pétursson var ekkert að grínast og stakk af.

Alls komu 799 karlar í mark í tíu kílómetrunum og 669 konur. Okkur reiknast því svo til að 1468 sálir hafi skilað sér í mark. Hins vegar voru 1665 skráðir í hlaupið. Það liggur því ljóst fyrir að 197 mættu ekki, eða ákváðu að hlaupa eitthvert annað.

Það er auðvitað þeirra réttur! Alla vega er þetta ljóst: Enn eitt magnað útivistarárið er liðið. Við á Úti óskum lesendum gleðilegs nýs árs og þökkum kærlega fyrir þau liðnu!

Og farið ekki langt: Næsta tölublað kemur út í jan.