Íslensk fjöll – gönguleiðir á 151 tind
Fyrst kom Fólk á fjöllum – gönguleiðir á 101 tind eftir fjallamennina Ara Trausta Guðmundsson og Pétur Þorleifsson og nokkrum árum síðar bættu þeir 50 tindum við og gáfu út þessa snilldarbók sem er frábær fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna í fjallamennsku. Hér er ljósmynd af hverju fjalli ásamt ítarlegri leiðarlýsingu og korti með gönguleiðinni. Þetta er mjög góð samantekt af gönguleiðum og eitthvað sem ætti að passa öllum. Sumar leiðirnar eru mjög auðveldar og aðrar tæknilega krefjandi auk þess að reyna meira á göngufólkið.
Walking and trekking in Iceland
Cicerone leiðsögubækurnar eru mjög vel þekkt vörumerki enda mjög handhægar og aðgengilegar auk þess sem þær ná yfir gríðarlegan fjölda svæða og landa í veröldinni allri. Hér hefur Paddy Dillon skrifað gönguleiðarlýsingar á ensku sem allar eru mjög nákvæmar og aðgengilegar. Kosturinn við þessa bók er sá mikli fjöldi ólíkra gönguleiða, af öllum mögulegum stærðargráðum, sem finna má í henni. Hér eru styttri göngur í nágrenni höfuðborgarinnar en einnig lengri gönguleiðir á borð við Laugarveginn. Þetta er fín bók og gagnast líka Íslendingum. Fjallahlauparar geta líka fundið í henni nokkur mjög skemmtileg verkefni.
Bíll og bakpoki
Bíll og bakpoki, eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson, er fyrir löngu orðin að klassík. Hér eru 10 gönguleiðir sem allar gera ráð fyrir því að gengið sé frá bíl með allar vistir til tjaldútilegu. Þær eru allar frekar stuttar eða eins til tveggja nátta gisting og enda allar á sama stað og þær byrjuðu eða við bílinn. Páll Ásgeir er lipur penni og býr yfir umfangsmikilli þekkingu á landslaginu sem hér er ferðast um en er jafnframt svo vanur ferðamaður að bókin reynist öllum vel. Hún er jafnframt í svo handhægu broti að auðvelt er að ferðast með hana með sér í þær ferðir sem lýst er í bókinni. Okkur finnst að hann mætti alveg skrifa aðra svona bók.