Þegar ég var patti, einhvern tímann um svipað leyti og Survivor gáfu út Eye of the Tiger, fór ég í sjóinn á siglinganámskeiði. Ég var einn á árabát og missti algjörlega tökin. Mig rak hratt út voginn. Ég var heltekinn ofsahræðslu og greip til þess bragðs í bráðræði að hoppa í sjóinn og hefja sund til lands. Móður, másandi og sturlaður til augnanna synti ég í björgunarvestinu og lopapeysunni til móts við zodiakinn sem nálgaðist mig óðum með leiðbeinandanum, sem var rokinn af stað til að kippa mér í land. Ég hélt auðvitað að ég væri að deyja. 

Þegar ég svamlaði í hafinu við Ægissíðu, eftir röð atburða, síðsumars 2018 varð mér hugsað til þessa gutta. Þar var ég aftur kominn í sjóinn, eftir að hafa misst stjórnina. Í þetta skipti á seglbretti. Vindurinn blés þannig að ég náði ofsalega vel að standa á brettinu á leiðinni frá landi. Við það óx mér töluverður metnaður í þessu áður ókannaða sporti, sem ég fékk að prófa þennan dag hjá kunningja.

Ég var í neoprenegalla. Og með sundhettu. Og í sokkum og með hanska. Ég sá síðar á myndum að í þessum klæðnaði var ég alls ekki jafntöff og ég hélt. Ég leit út eins og flóðhestur. Þar að auki var um byrjendabretti að ræða, með minna segli en gengur og gerist. Í samhenginu var ég því eins og mjög stór flóðhestur. 

En ég náði semsagt að standa smá. Ég náði að grípa vindinn með litla seglinu og uppgötva gleðina sem felst í því að temja eitthvað svona náttúruafl eins og vind sér til gagns. „Þetta er ekkert mál!“ hugsaði ég glaðhlakkalegur og glansandi í gallanum á leiðinni burt frá landi. Konan mín varð agnarsmá á bakkanum. Þá ætlaði ég að snúa við og sigla tignarlegur til baka.  

Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til þess að lyfta seglinu úr sjónum og standa á brettinu varð mér ljóst að vindurinn til baka var of sterkur, jafnvel fyrir flóðhest. Ég var punktur í sjónum gagnvart fólkinu sem nú stóð hér og þar í fjörunni og fylgdist píreygt með. Yrðu þetta hægfara endalok Guðmundar Steingrímssonar, nú þegar hann ræki frá landi út á opið úthafið og sæist aldrei aftur? Mátulegt á spjátrunginn. 

Kem ég þá að inntaki pistilsins. Það felst í samanburði á ástandi mínu þarna og ástandi guttans sem ég var. Þarna í hafinu var ég sallarólegur. Neoprenegallinn hélt á mér góðum hita. Brettið flaut. Ég fann að straumurinn bar mig smám saman í átt að landi. Ég ákvað að treysta sjónum. 

„Hæg nálgun lands. Þetta var eins og hugleiðsla.“

Í hönd fóru einhverjar þær ánægjulegustu mínútur úti í náttúrunni sem ég hef átt. Maður í hafi. Ekki sturlaður til augnanna. Hæg nálgun lands. Þetta var eins og hugleiðsla. Ég veit ekki hvort maður lærir það nokkurn tímann fullkomlega en uppgötvunin í hausnum var alla vega þessi: Mikið rosalega er það mikilvægt í svona rugli að halda ró sinni. Óvinur minn var ekki hafið, heldur möguleg panik mín sjálfs. 

Já, og partur af mér hugsaði líka til þess hversu mikilvægt það var, að búið var að gera við skólpið í Faxaskjólinu. Annars hefði ég verið í djúpum skít.