Hvað er Ísland án íss? Þetta eru vangaveltur sem íslenskir viðmælendur Dr. M Jackson, sem dvalið hefur við jöklarannsóknir á Íslandi síðustu ár, velta fyrir sér. Dr. M var valin ein af sérlegum erindrekum National Geographic árið 2017 og fékk rannsóknarstyrk sem upprennandi landkönnuður. Auk rannsóknarstarfa hefur hún tekið á móti krökkum víðsvegar að í heiminum sem sækja um að fara í rannsóknarleiðangra með National Geographic og leitt þau í allan sannleikann um Ísland. Úti tímarit hitti hana yfir latte í 101 Reykjavík. 

Í 10 ár hefur Dr. M rannsakað jöklana á Íslandi. (Myndir: Joe Tighe).

Er það að vera valin upprennandi landkönnuður eins svalt og það hljómar? 

„Eiginlega. Þetta gerir manni kleyft að vera hluti af rannsóknarsamfélagi þar sem er mikið stuðningsnet og hjálpar mér að geta haldið áfram rannsóknum mínum.“ 

Hún segir að samhliða þessu sé hún mikið að hitta börn og unglinga og ræða við þau um jörðina og að kenna þeim að virða og hugsa um hana. „Ég elska að gera þetta“, segir M. Krakkarnir eru  á aldrinum 12 til 18 ára og dvelja hér í tvær vikur. Þau fá verkefni til að leysa, læra kvikmyndun, ljósmyndun og miðlun þess efnis sem þau afla.

„Aldrei í mannkynssögunni hefur ís breyst svo hratt eins og í dag.“

Dr. M gaf út bók árið 2015 sem heitir While Glaciers Slept og fjallar mikið um jöklana í Alaska. En undanfarið hafa jöklarnir á suðurströnd Íslands átt hug hennar allan. 

„Alaska er með ótrúlega mikið af jöklum og þeir eru risavaxnir. En Ísland er svolítið öðruvísi, sérstaklega suðurströndin. Hérna býr fólk svo nálægt jöklum og hefur gert í árhundruð. Í sumum af þessum stóru ískerfum í Alaska býr fólk í strandbæjum nærri jöklum en við erum samt ekki með staðbundna sögu af fólki sem þarf að aðlagast ísnum frá kynslóð til kynslóðar, jafnvel daglega eins og hér er. Þar eru gögnin aðallega sterkar munnlegar heimildir frá frumbyggjum um hvernig þeir notuðu ísinn til flutninga, veiða og annarra hluta. Hér er það öðruvísi og mér finnst gagnlegt að skoða þennan mun.“ 

M hefur fjallað um í Ted fyrirlestri að það þurfi að skoða jökla í samhengi við fólkið sem býr við þá. Hvers vegna? 

„Loftslagsbreytingar hafa áhrif á allar manneskjur á plánetunni en það er erfitt fyrir fólk að taka eftir þeim og taka eftir því sem er að gerast í bakgarði þess. Flestir eru ekki með menntun eða reynslu til að fylgjast með þróun gróðurhúsalofttegunda. Við höfum ekki þjálfun til að taka eftir því að garðurinn blómstrar aðeins fyrr en vanalega eða þegar nýr fugl hefur bæst við í nágrenninu eða skógareldurinn er stærri en áður. Það sem er sjónrænast við þessar breytingar eru jöklar og þróun þeirra. Við virðumst geta horft á jöklana breytast og skilið að þetta er vegna loftslagsins. Ég er búin að skoða jökla um allan heim en það sem ég hef mestan áhuga á núna, og undanfarin áratug, er hvað gerist þegar einhver á heima alveg uppvið þessi tákn breytinganna. Hvað gerist ef fólk býr upp við jökla sem eru að stækka eða upp við jökla sem eru að minnka og þarf að aðlagast þessum breytingum frá degi til dags? Það er það sem hefur gerst á suðurströndinni. Það hjálpar okkur að skilja loftslagsbreytingar í stærra samhengi.“ 

„Á suðurströnd Íslands er fólk sem segir; ég missi sjálfsmyndina ef ísinn hverfur. Er maður Íslendingur ef enginn ís er á Íslandi?“

„Það sem ég á við með þessu er að margt fólk í heiminum er meðvitað um loftslagsbreytingarnar og að þær séu slæmar. En á suðurströnd Íslands er fólk sem segir; ég missi sjálfsmyndina ef ísinn hverfur. Er maður Íslendingur ef enginn ís er á Íslandi? Aðrir segja: jöklarnir bráðna, ruðningarnir stækka, íshellarnir stækka, fólk kemur og borgar fyrir að sjá þetta og ég er að græða, þannig að ég er farin að græða á þessum breytingum. Eldra fólki á svæðinu finnst sumu það öruggara núna, það eru minni líkur á flóðum. Þannig að þarna eru margar ólíkar sögur sem allar eru um breytingar. 

Loftslagsbreytingarnar eru nefnilega ekki bara ein saga heldur hversdagssögur allra og þær sér maður á suðurströndinni. Það er svo kraftmikið. Jöklarnir gera tímalínurnar í þessum sögum svo sýnilegar.“

Við Skaftafellsjökul. Jöklarnir hafa aldrei hopað þar jafnhratt.

Sumir segja jöklar hafa alltaf verið að stækka og minnka, það er ekkert öðruvísi núna. Hverju svararðu slíku?

„Ég varð einu sinni mjög reið yfir svona málflutningi, sérstaklega í Bandaríkjunum, þar sem er algengt að taka slíkar upplýsingar og rangtúlka þær og segja ranga sögu. Við höfum sönnunargögn og vísbendingar sem segja að jöklar hafi stækkað og minnkað og stækkað og minnkað. Það sem er öðruvísi er hraði breytinganna. Aldrei í mannkynssögunni hefur ís breyst svo hratt eins og í dag. Það er engin gögn sem styðja að það hafi gerst með þessum hætti áður. Flest fólk óttast loftslagsbreytingar mjög mikið. Ef við trúum öll að þær séu að gerast þá verðum við að gera eitthvað í því. Það hvernig við högum okkur í orkumálum er ekki að virka. Ef við trúum að breytingarnar séu að eiga sér stað þá þurfum við að takast á við hræðilega og óþekkta framtíðarsýn og skipuleggja líf okkar uppá nýtt. Og fyrir marga er það ógnvænlegt. Við þurfum að útskýra þetta fyrir þeim með þolinmæði og samúð.“ 

Ný bók eftir Dr. M Jackson, The Secret Lives of Glaciers eða Leynilíf jökla, kom út í byrjun árs en hún fékk Fullbright styrk til þess að stunda ársrannsóknir á sambandi fólks og jökla á suðurströnd Íslands. Margir íslenskir viðmælendur segja þar frá sambandi sínu við jökla landsins á áhrifaríkan hátt.