Á Kyrrahafsströnd Costa Rica, á Nicoyaskaganum, er smábærinn Nosara. Ein ströndin við Nosara heitir Playa Guiones. Hún er eins náttúruleg og ósnortin og verða má, sólarlagið stórbrotið og það sem meira er: Þetta er upplagður staður til að læra á brimbretti. Einn sá besti, kannski. 

Sjórinn er þægilega heitur og öldurnar eru ekki of brjálæðislegar. Fyrir fjölskyldu, hjón með níu ára strák og fjórtán ára stelpu, reyndist Playa Guiones hinn fullkomni staður til að eignast nýtt fjölskyldusport. 

Brimbrettafrí er hið nýja skíðafrí. Svona ber maður sig að: Maður kemur sér á staðinn, finnur brimbrettaleigu og brimbrettakennara og skráir sig á námskeið. Það tekur tvo tíma, plús mínus, fyrir góðan kennara að kenna grunntökin. Og svo bara djöflast maður. Og lærir.

Þegar maður nær að standa upp á bretti, þó ekki nema í nokkrar sekúndur, líður manni eins og þegar Armstrong gekk á Tunglinu, nema öfugt: Lítið skref fyrir mannkyn, stórt fyrir mann. 

Lítið skref fyrir mannkyn, stórt fyrir feðgin.

Tilfinningin er frábær. Að ná að fanga kraftinn í góðri öldu á hárréttum tíma og finna hvernig náttúruaflið þeytir manni áfram, og reyna síðan í tveimur (helst einni) hreyfingum að vippa sér upp á fæturna og þjóta skælbrosandi, en kúl — alltaf kúl (not) — í átt að landi:  Það er lífið. 

Yngsti stóð, en fannst samt meira gaman að þjóta á magabretti.

Ekki er síður skemmtilegt að horfa á afkvæmi sín ná tökum á sportinu og þjóta skellihlæjandi á öldunum. Það er merkilegt hvað góður kennari getur komið miklu í kring á skömmum tíma. Kennarinn okkar hét hvorki meira né minna en Juan Surfo og er mikill töffari. Hann kom okkur ágætlega í skilning um það að hann myndi ekki taka í mál að hætta kennslunni fyrr en við hefðum öll náð að standa. 

Og hann stóð við það. Með ströngum tilmælum, skömmum jafnvel, en líka mikilvægu hrósi þegar vel tókst til, gerðu Juan Surfo og samverkamaður hans kraftaverk á okkur öllum. Dagana eftir kennsluna fórum við fjölskyldan yfirleitt tvisvar á dag niður á strönd með brettin, á morgnana og síðdegis, og tókum góða rispu í sjónum og skemmtum okkur konunglega í buslinu.

Er þetta eitthvað sem þig langar að gera?

Hér koma nokkrar praktískar upplýsingar og fróðleiksmolar: 

Nosara er á Kyrrahafsströndinni.

Við vorum þarna í janúar. Costa Rica er almennt frábær áfangastaður þegar vetur ríkir á Íslandi. Þá er sól og sumar á Costa Rica, upp að því marki sem það skiptir yfirleitt árstíðum í þessum heimshluta. Nicoyaskaginn er á Kyrrahafsströndinni, stemmningin er sveitaleg, malarvegir liggja um skagann og fjalllendi er þónokkuð. Lítil þorp eru víða og strendurnar eru meðal þeirra fallegustu sem maður finnur. Hægt er að finna víðfemar strendur og vera þar nokkurn veginn alveg einn, eins og til dæmis San Miguel ströndina, sem er í um tveggja tíma akstursfjarlægð frá Nosara. Þar líður manni svolítið eins og á miðhálendi Íslands: Einn á sandi, nema bara í 28 stiga hita og á strönd.

Nosara er einn af þessum bæjum á svæðinu. Þorpið er dreift um skóglendi við ströndina. Þétting byggðar hefur ekki farið fram. Það skiptir svolitlu máli við hvaða veg maður kýs að gista. Við leigðum okkur hús við veg sem liggur samsíða Playa Guiones, í nokkurra mínútna göngufjarlægð frá ströndinni, við hliðina á Juan Surfo´s Surf Shop, sem var skemmtilegt og þægileg tilviljun. 

Rauða skiltið er skiltið hans Juan Surfo

Gatan hefur greinilega verið uppgötvuð af bandarískum og kanadískum hipsterum. Hún er nánast eins og ein samfelld Hlemmur Mathöll. Fullt af litlum veitingastöðum með góðum mat og búið að gera upp gömul hús og byggja ný í hárréttri hönnun. En matur er ekki ódýr.  Nosara er fremur dýrt svæði, þótt verðlag sé auðvitað betra en á Íslandi, svo hjálpi okkur almættið. Pizzan er á þetta áttahundruð kall. 

Að leigja bretti er hins vegar ekki svo dýrt, eða um tíu þúsund krónur vikan. Mikilvægt er að leigja rétt bretti sem hentar getustigi manns. Urmull er af brettaleigum og brettanámskeiðum í Nosara. Flestir kennarar eru mjög góðir í faginu og gefa góð ráð þegar brettið er leigt.  Tveggja tíma brettanámskeið kostaði 20 dollara á mann. 

Slakað á eftir buslið.

Það er mikilvægt að sólarverja sig vel á brettinu. Eiginlega er ekkert vit í öðru en að vera í síðerma bol. Svoleiðis er hægt að kaupa út um allt á svæðinu. Svo er líka mikilvægt að hlusta á líkamann og ofgera sér ekki. Svokallaðir spagettíhandleggir geta gert vart við sig, sem lýsa sér með óbærilegum verkjum í olnbogum. Það tekur svolítið á liðina að halda um brettið í ölduganginum og að reyna að lyfta sér upp á því. 

Gætið ætíð að ásigkomulagi hafsins, hvenær flóð er og hvenær fjara, og fáið upplýsingar frá sérfræðingum um það hvar á ströndinni og hvenær er best að sörfa, fyrir byrjendur. Sumsstaðar geta öldur verið hættulegar og eins getur grjót leynst á ströndinni. Einnig þarf að hafa í huga að stingskötur geta gert manni skráveifu. Til þess að fyrirbyggja stungu skötunnar er best að draga fæturnar þegar maður gengur í sjónum, ekki lyfta þeim upp. Semsagt: Ganga eins og gömul manneskja á inniskóm á elliheimili. Stingi mann skata er ekkert annað ráð betra, sagði Juan, en að hlaupa beint í land og fá funheitt vatn á stunguna og bíða í klukkutíma eftir því að óbærilegur sársaukinn líði hjá (nánar hér).

Blessunarlega stakk okkur ekki skata. Við hefðum tjúllast. 

Gott lúkk.

Fyrsta stig brettamennskunnar snýst um það að standa upp á þokkalegum, brotnum, hvítfyssandi öldum og þjóta beint áfram, að landi. Fyrir lengra komna snýst sörfið hins vegar um það að grípa brotið á stórum öldutoppi og sörfa á ská með öldunni um langan veg og jafnvel stökkva og hvaðeina. Við erum ekki komin þangað. Við mælum með kvikmyndinni Point Break með Keanu Reeves og Patrick Swayze sem þörfum undirbúningi fyrir það stig. Og lúkkinu á Patrick, hyggist fólk stunda þetta að einhverju ráði.

Til þess að festa hetjuskapinn á filmu er auðvitað ómissandi að vera með GoPro. Hægt er að ná mjög töffaralegum römmum jafnvel þótt einungis hafi náðst að standa á bretti nema í nokkrar sekúndur. 

Hvernig kemst maður til Costa Rica? Jú, við fundum út að gott er að fljúga annað hvort í gegnum Orlando eða Toronto. Maður getur komist til San Jose fyrir um fimmtíu þúsund kall á mann. Og annað eins til baka, ef maður vill fara til baka… 

Frá San Jose til Nosara er hægt að fara á bílaleigubíl, sem er ekki vitlaus hugmynd á þessu svæði. Það er mjög gott að hafa bíl, jafnvel ómissandi. En það er líka hægt að fljúga í rellu með Sansa Air. Það kostar um tíu þúsund kall á mann, aðra leið. Og tár, ef maður er flughræddur. 


Viltu fylgjast með okkur?

Við hjónin, Gummi, Alexía og börnin Jói og Edda, erum á ferðalagi um Mið- og Suður-Ameríku þessa mánuðina. Þú getur fylgst með okkur á Instagram: @guslextravel.

Svo koma auðvitað fleiri greinar hér 🙂