Það er mál manna að aðstæður í Vasagöngunni um helgina hafi verið þær erfiðustu í 30 ár. Hátt í 70 Íslendingar tóku þátt í keppninni og urðu margir að játa sig sigraða án þess að ljúka keppni en ströng tímalágmörk gilda á nokkrum leggjum leiðarinnar sem er alls 90 kílómetrar. Þess má geta að Íslendingar voru fleiri en Austurríkismenn í keppninni en það er mikið skíðagönguland. Auður Kristín Ebenezersdóttir, skíðakona, tók í fyrsta sinn þátt í keppninni og náði mjög góðum árangri miðað við aðstæður en hún varð í 16. sæti í sínum aldursflokki. Tæplega 16000 manns voru skráðir til leiks þannig að þetta er risavaxinn keppni. Meðalaldur þátttakenda í keppninni í ár var 42 ára.
Auður segir að faðir sinn hafi verið sér ofarlega í huga í göngunni: „Hann var fyrstur Íslendinga ásamt þremur öðrum að keppa í Vasa árið 1952 eftir að hafa keppt á Ólympíuleikunum 1952. En mér skilst að það hafi ekki verið fyrr en 1981 sem Íslendingar tóku aftur þátt. Ég var langt í frá að ná tímanum hans pabba en hann lenti í 67. sæti og var 43 mínútum á eftir sigurvegaranum og fékk forlátan handmálaðan hornskáp í verðlaun. Ég var um það bil 30 mínútum frá því í að fá verðlaun í dag en efast um að það hefði verið svona flott.“
Skráning í næstu Vasagöngu hefst 17. mars klukkan 9.