FÍ Landkönnuðir, sem er útivistar- og ævintýrahópur innan Ferðafélags Íslands, tjaldaði sunnan til í Bláfjöllum um liðna helgi. Gengnir voru fimm kílómetrar inn í fjallakyrðina milli Kerlingarhnúks og Hákolls, slegið upp tjaldbúðum og gist í frostkaldri vetrarnóttinni undir stjörnubjörtum himni.
Þetta var fyrsta vetrarútilega margra í hópnum sem leiddur er af þeim Brynhildi Ólafsdóttur og Róberti Marshall. Allir meðlimir hópsins hafa lokið Landvættaáskoruninni og kalla því ekki allt ömmu sína. Fór vel um hópinn en sumum varð þó kalt um nóttina.
Lykilatriði í svona ferð er að hafa góðan svefnpoka en hægt er að auka kuldaþol pokana með því að bæta við lakpoka að innan og hlífðarpoka að utan. Ein uppblásin dýna og jafnvel önnur úr frauðplasti er kjörin til að takmarka kulda frá snjónum.