Alexía Björg Jóhannesdóttir skrifar
Ég setti mér áramótaheit fyrir ári að hlaupa maraþon. Sumarið 2017 hljóp ég Jökulsárhlaupið og grenjaði allan tímann af kvölum. Var með hlauparahné. Ég gat ekki alveg sætt mig þessa hlaupaminningu og langaði virkilega að eiga minningu af hlaupi þar sem ég grenjaði ekki af kvölum. Í upphafi ársins byrjaði ég að hlaupa aftur eftir dramatíkina í Jökulsárhlaupinu og fékk strax aftur hnéverkinn. Skellti mér þá til Ísaks hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur og hann einfaldlega bara lagaði mig með miklu nuddi, höggbylgjum og fleiri töfraráðum. Á vormánuðum var ég komin í gang og byrjuð að hlaupa eftir plani sem maðurinn minn setti upp. Mér fannst ekkert rosalega skemmtilegt að fara eftir þessu æfingaplani. Stundum fór maðurinn minn alveg agalega í taugarnar á mér þegar hann var að reka á eftir mér og draga mig út en það sem ég elskaði hann þegar ég kom heim úr hlaupunum. Það er nefnilega alltaf erfiðast að reima á sig skóna og hundskast út úr húsi.
Annars gekk æfingaferlið merkilega vel. Nokkrir vinir okkar ákváðu að hlaupa líka. Allt í einu var kominn október og maraþonið handan við hornið. Búdapestmaraþonið varð fyrir valinu. Tímasetningin hentaði og borgin er falleg. Við vorum mætt í borgina nokkrum dögum áður til að ná að sofa vel og skoða aðstæður áður. Það var frábært að geta aðeins skoðað leiðina og vita út í hvað var verið að fara.
Kvöldið fyrir hlaup var tilhlökkun, stress og almenn geðshræring byrjuð að gera vart við sig hjá okkur öllum sex hlaupurunum. Allt var tilbúið. Orkugel í belti, hlaupafötin og heyrnartól. Á hlaupadagsmorgun var vaknað fyrir allar aldir og gerður hafragrautur með rjóma. Þótt matarlystin væri ekki mikil náði ég að pína ofan í mig smá graut. Við vorum mætt að rásmarkinu tæpum klukkutíma fyrir start. Höfðum farið degi áður í Rauða kross búð og keypt okkur gamlar peysur sem héldu á okkur hita meðan við biðum við rásmarkið. Svo þegar hlaupið byrjaði skildum við þær eftir, fyrir aðra sem þurfa þær í vetur.
„Það var svo mikil gleði, kærleikur og þakklæti í loftinu að stundum táraðist ég bara yfir fegurðinni.“
Hlaupið byrjaði vel og mér leið frábærlega. Það er geggjuð tilfinning að hlaupa með þúsundum manna í fallegri borg. Það var svo mikil gleði, kærleikur og þakklæti í loftinu að stundum táraðist ég bara yfir fegurðinni. Fyrstu 15 kílómetrana var ég endalaust pissandi. Var örugglega svona stressuð. Þurfti allavegana þrisvar að skella mér inn á kamar og pissa. Kamrar í hlaupum er eitthvað sem ég væri til í að hafa sleppt að upplifa. Sumir eru ágætir en tvisvar opnaði ég kamar og lokaði strax aftur og hugsaði að ég myndir frekar pissa ég í mig en að loka mig þar inni.
Ég náði að hlaupa alveg prýðilega fyrstu 30 km og fannst frábært að hlusta á hlaðvarp til að dreifa huganum. Höggið og þreytan kom eftir 30 km. Þá þurfti ég að byrja að ganga inn á milli. Á bilinu 30 – 38 km var þetta fullkominn viðbjóður. Mér var illt allstaðar í líkamanum. Mér fannst fáránlegt að ég væri að gera þetta. Ég var að borga fyrir þetta í þokkabót. Það gerði mig svo enn reiðari þegar hlauparar í búningum fóru fram úr mér. Hvaða rugl var það? Ég var í svaka atvinnumannadressi að drepast og svo kom bara einhver gaur í pappakassa og hljóp framúr mér. Þvílík niðurlæging.
Svo fór stuðningsfólkið á kantinum að hafa gríðarlega áhrif á mig. Hvatning frá þeim gaf mér svakalega mikið. Nafnið mitt var skráð á númerið á bolnum mínum. Þegar ég heyrði allt í einu ókunnugan mann hrópa „Go Alexia, you can do it!” þá fylltist ég krafti og hætti að vera brjáluð. Þegar um 4 km voru eftir fann ég sterkt hvað það var stutt í að ég myndi ná markmiði mínu. Þá var ég að farast úr gleði og spennu. Verkirnir voru alveg ennþá til staðar en þeir voru samt ekki eins óbærilegir eins og áður. Adrenalínið var búið að taka yfir. Að koma í mark eftir 42 kílómetra, fimm klukkutímum síðar og sjá manninn minn og vini okkar að bíða eftir mér, það var brjálæðislega mögnuð tilfinning. Stoltið, gleðin, þreytan og uppskeran er svo góð tilfinning og þegar kampavínið blandaðist saman við það þá bara opnast himnarnir af hamingju.
Ég ætla aftur að hlaupa maraþon. Alveg pottþétt!