Betur fór en á horfðist í Jarlhettum í gær þegar allstórt snjóflóð fór af stað og hreif með sér vélsleðamanninn Guðmund Skúlason sem þar var á ferð ásamt félögum sínum. Guðmundur segist hafa haldið að hann gæti keyrt út úr flóðinu en svo byrjaði sleðinn að sökkva og hann sjálfur. „Ég sá að allt var farið af stað í kringum mig og fann að ég farinn að síga niður í rótið. Þá kippti ég í handfangið á snjóflóðapokanum og þá skaust ég strax aftur uppúr.“
Eins og sjá má er sleðinn hans nokkuð vel grafinn en rúmt ummál sleðanna verður oft til þess að vélsleðamenn sem lenda í flóðum grafast neðar en sleðinn. En ekki í þetta skiptið. Guðmundur var með snjó yfir fótunum þegar flóðið nam staðar en hann heldur að hann hafi ekki farið lengra með því en um það bil 20 metra. Hann segist aldrei hafa þurft að nota snjóflóðabakpokann áður en í þetta skiptið var hann svo sannarlega feginn að þetta mikivæga öryggistæki væri með í för. Flóðið var mjög púðurkennt og sleðinn allur fullur af snjó. Þeir náðu þó að moka honum upp og keyra í burtu. Þeir lögðu uppí för sína úr Skálpanesi og segir Guðmundur gott færi á svæðinu þó á sumum stöðum sé grunnt í grjótið.