Jólin eru að koma og þar með jólabókaflóðið. Fjallafólk þarf auðvitað að fá að minnsta kosti eina góða bók. Hér eru þrjár klassískar bækur um fjallamennsku:
—
Mountaineering: The Freedom of the Hills
Þetta er alfræðiorðabók fjallamannsins. Þarna eru lýsingar og teikningar af allri mögulegri tækni í ólíkum tegundum fjallamennsku. Þessi þykka og efnismikla kennslubók hefur verið endurútgefin ótal sinnum frá því að hún kom fyrst út árið 1960. Hvernig á að tryggja í klettum, ganga á broddum og búa til snjóhús? Þarna er allt sem vanir og óvanir þurfa á að halda til að undirbúa sig fyrir næsta ævintýri. Bókin er gefin út af Mountaineers í Washington. Hún er sjaldséð í bókaverslunum á Íslandi, en hún fæst á Amazon.
—-
Fjallamenn
Bók Guðmundar Einarssonar frá Miðdal, Fjallamenn, er skyldueign íslensks fjallafólks en vandfundin þó einhver eintök gangi kaupum og sölum hjá fornbóksölum. Þarna segir Guðmundur af miklu listfengi frá upplifunum sínum í náttúru Íslands á árdögum útivistar hér á landi. Guðmundur var frumkvöðull í fjallamennsku, hafði kynnst þessari menningu í námi sínu í Evrópu og skrifar hér máli hreyfingar, útiveru og heilbrigðs lífs. Stórkostleg bók.
—
The White Spider
Frásögn Heinrich Harrer af fyrstu árangursríku tilrauninni til að klífa norðurvegg Eiger 1938 er eins og reyfari af bestu gerð. Hann var einn leiðangursmanna og gefur ótrúlega innsýn inní þetta stórhættulega verkefni sem hefur kostað svo mörg mannslíf í gegnum tíðina. Harrer tekur líka saman tilraunir fyrir og eftir leiðangurinn 1938 og rekur meðal annars harmleikinn 1936 þegar fimm fjallgöngumenn fórust. Þetta er ótrúlega spennandi bók. Nafnið vísar til alræmds svæðis í miðju fésinu sem lítur út eins og hvít könguló en þar eru í ákveðnum aðstæðum nánast stöðug snjóflóð.