Fimm manna leiðangur í Kerlingafjöll komst í frábært skíðafæri í gærmorgun. Gengið var meðal annars á Fannborg og Snækoll og var hið fínasta púðurfæri á köflum þó sumstaðar efst væri hart og
grófkornótt. Sigurður Magnús Sigurðsson, sem svaf í tjaldi undir Fannborginni, sagði að þar sem best var hafi púðrið verið 15 til 20 sentimetra djúpt. Jepplingafæri var uppí Kerlingafjöll en auðvitað holóttur og grófur vegur eins og oftast. Þá er bara að hengja upp fjallahjólið og draga fram skíðin. Vertíðin er hafin! Svo er auðvitað hægt að fá gistingu í innandyra í Kerlingafjöllum ef fólk er viðkvæmt. Sigurður er einn framleiðenda Advanced Shelter skíðanna sem þykja frábær í fjallaskíðamennskuna.