„Ég kann ekkert annað en að vera á fjöllum – ég valdi þetta ekki – foreldrar mínir voru alltaf að ferðast og ég var sem ungabarn alltaf höfð með á bakinu eða labbandi með“.

Gerður Magnúsdóttir leikskólakennari er þriggja barna móðir og skálavörður á sumrin fyrir Ferðafélag fjarðamanna. Þeir sem eru vinir Gerðar á Facebook sjá glöggt að hún og maðurinn hennar Óskar H. Níelsson fara mjög oft með börnin sín í fjallgöngur. Margir fylgjast líka með þeim á Instagram undir #útibörn.

Gerður er því augljóslega rétta manneskjan til að ræða við um spurninguna sem margir foreldrar glíma við: Hvernig dregur maður börnin með í göngu, uppá fjall eða annað? Og helst oftar en einu sinni.

Gerður byrjaði snemma að fara með son sinn í göngur. Síðar bættust við tvær yngri systur.

„Ég gekk Laugarveginn 12 ára og fannst það sjúklega gaman. Það voru engin önnur börn með en við systur, en samt svo góð ferð,“ segir Gerður. Foreldrar Gerðar tóku hana og systur hennar með um fjöll og firnindi. „Það var því mjög ríkt í mér að kenna börnunum mínum þetta. Þegar ég var yngri og einstæð móðir fór ég með son minn á bakinu á fjöll og í útilegur. Núna á ég líka tvær dætur, sem eru 9 og 11 ára. Önnur þeirra var rúmlega 6 vikna þegar hún fór fyrst í fjallgöngu þannig að þær þekkja ekkert annað.“ Í fyrrasumar voru Gerður, Óskar og börnin í fimm vikur í tjaldútilegu og skálavörslu.

„Ekki bíða eftir að börnin verði nógu gömul eða tilbúin í ferðirnar,“ segir Gerður. „Það er best að vaða í þetta sem fyrst. Byrja nógu snemma.“ Gerður segir oft erfiðast fyrir börnin að leggja af stað. Það er stærsti hjallinn.

„Móðurbróðir minn, kenndi mér, að það á alltaf að sinna börnunum þegar þau kvarta í ferð snemma í ferðinni – til að komast yfir hjallana. Börn eru auðvitað mismunandi. Sum þarf að hvetja meira en önnur. En yfirleitt fara þau fremst í flokki þegar þau eru komin í gang. Það er líka mikilvægt að vera flinkur í að afvegaleiða. Dreifa huganum.“

Oft er nestið aðalatriðið. Og flott vatnsflaska.

Þá er gott að vera með nokkur trikk í huga. „Til dæmis getur verið fínt að leita að einhverju sem þú veist að er á svæðinu, hlusta eftir fugli eða leita að blómum eða steinum. Einnig er rosalega gaman að elda úti í náttúrunni, jafnvel þótt það sé kannski óþarfi. Það er til dæmis gaman að elda pönnukökur til fjalla, þótt það sé vissulega auðveldara að koma með þær tilbúnar.“ Alltaf gaman að hafa einhver verkefni sem á að leysa.

Gerður segir mikilvægt að ætla sér ekki að fara langt og hratt. Það er betra að fara hægt og njóta. Til dæmis getur verið gott að leggja sig í miðri ferð og að borða nestið reynist oft vera hinn eiginlegi tilgangur ferðarinnar í hugum barnanna. „Um daginn fórum við í fjallgöngu og það kom haglél og leiðindaveður. Það var mjög stutt í bílinn en það kom ekki til greina að fara með nestið til baka. Nestistoppið var tekið rétt hjá bílnum.“

Eitt af því sem oft virkar er að fá börnin til að vera stjórnendur ferðarinnar. „Undirbúningur og tilhlökkunin er helmingurinn, að ákveða nestið, pakka því og raða og ákveða hvaða föt á að taka. Okkur hættir til sem fullorðnum að gera allt fyrir börnin en það er mjög mikilvægur hlutur af því að vera með að undirbúa og gera sína hluti sjálf.“ Börn geta vel verið leiðsögumenn í styttri ferðum.

Börnin hafa oft gaman af því að ráða ferðinni.

Gerður segir alls ekki nauðsynlegt að eiga dýrustu græjurnar. „En það er til svo margt smátt og ódýrt sem gerir ferðirnar skemmtilegri fyrir krakkana. Það er gaman að eiga flotta vatnsflösku, glas sem klessist saman, gaffal sem er líka skeið og fleira. Svona var ekki til þegar ég var lítil.“ Og búnaður nýtist oft lengi og engin ástæða til að skipta honum út. Önnur dóttirin notar til dæmis Scarpa gönguskó sem Gerður fékk í fermingargjöf.

En hvað er gáfulegast að hafa í huga þegar maður fer með börn á fjöll? Það stendur ekki á svari: „Gáfulegast í fjallgöngu er að kunna að snúa við. Hvorki þú né börnin eiga að vera í aðstæðum sem þeim líður illa í.“

—————-

Góðir staðir með börnunum:

  • Helgafell. „Það er gaman að þurfa ekki að fara á sama stað upp og niður. Hellirinn Valaból sem er þarna í nágrenninu er líka í miklu uppáhaldi hjá stelpunum.“
  • Súlufell. Mjög aðgengilegt fjall sunnan við Þingvallavatn, í Grafningi. „Pínu spennó því það er svo stórt og stakt og útsýnið er svo svakalegt.“
  • Vöðlavík yfir í Reyðarfjörð. Karlskálaskarð. Farið yfir fjall. „Gaman að enda ekki á sama stað og byrjað var á.“
  • Frá Ölkelduhálsi niður í Ölfusvatn. Gist á leiðinni. „Það er aðalfjörið núna, að gista á leiðinni.“
  • Sauðlauksdalur. Beint á móti Patró. „Sandströndin er í miku uppáhaldi.“