Þriðja mótið í bikarmótaröð HRÍ í fjallabruni fór fram um helgina. Það var að þessu sinni haldið í Skálafell Bike Park. Sólin skein sínu skærasta og það bærðist ekki hár á höfði, nema kannski á áhorfendum þegar keppendur þeyttust framhjá þeim á hjólunum sínum. Keppt var um þrjú efstu sætin í fimm flokkum og voru skráðir keppendur 35 talsins, þar af 26 karlmenn og 9 konur. Mótið gekk stórslysalaust fyrir sig og fólk var almennt í góðum gír.
Fjallabrun er vaxandi íþróttagrein á Íslandi. Sportið snýst um það að hjóla eftir ákveðinni braut, niður fjallshlíð. Oftast eru notuð hjól með mikilli fjöðrun til að auðvelda ferðina yfir grófan jarðveg og hindranir í brautinni. Þegar keppt er í greininni er reynt að komast niður brautina á sem skemmstum tíma.
En hvernig sport er þetta? Hvernig er tilfinningin? Hrafn Erlingsson hefur stundað fjallabrun í eitt ár. Hann keppti í Junior flokki. Hann segir áhugann fyrir sportinu hafa blundað lengi í sér áður en hann lét loks reyna á það.
Það þarf bæði dug og þor til að stunda jaðarsport af þessu tagi. Við spyrjum hann að hinu augljósa: Hefur hann einhvern tímann orðið hræddur? „Jú, ég hef oft orðið hræddur. Sérstaklega hérna í fyrra, þá var svo mikið rok að maður mátti varla fara aðeins upp í loft því þá flaug maður á hliðina. En þetta er partur af þessu,” svarar Hrafn.
Aðspurður hvort hann hafi nokkurn tímann slasað sig svaraði hann játandi: „Það var hérna í fyrra. Ég var eitthvað seinn og því aðeins á eftir hinum krökkunum, sem höfðu stoppað í miðri brautinni. Ég var á svo mikilli ferð að ég náði ekki að stoppa mig fyrir stökkpall sem var framundan svo ég flaug á hann og lenti út af brautinni. Fremra tannhjólið á hjólinu mínu boraðist inn í kálfann á mér og ég gat ekki labbað í tvo daga á eftir. En ég fékk frekar töff ör eftir það!”
Hrafn keppti á Trek Session 8 hjóli í ár og var mjög ánægður með frammistöðu sína á mótinu, sérstaklega í ljósi þess hve lítinn tíma hann hafði til æfinga. „Ég mætti hingað á fimmtudaginn, galvaskur, með enga afturbremsu og hjólaði þrjár ferðir. Það er það eina sem ég er búinn að vera gera”, sagði hann. En þarf maður að eiga sérstakt hjól til þess að stunda fjallabrun? „Alls ekki…Ef þig langar að bomba á allt á hard-tail hjóli þá er það minnsta málið. Það getur bara verið aðeins meira álag fyrir hjólið og það er mun þæginlegra að vera á full dempuðu hjóli.”
Þá er ekki annað að gera en að mæta upp í næstu brekku og taka eina bunu!