Það er kolniðamyrkur og nánast grafarþögn. Maður fálmar eftir takkanum á úrinu og slekkur á vekjaraklukkunni. Þegar augu og eyru venjast herberginu má heyra lágværar hrotur og uml í samferðamönnum sem enn sofa. Aðrir hafa læðst út fyrr um nóttina. Næst er að koma sér útúr silkilakspokanum, klöngrast hljóðlega útúr kojunni, klæða sig í myrkrinu og læðast út í crocskónum. Í matsalnum bíður morgunmatur merktur þér og föruneyti þínu. Jógúrt, brauð, smjör og ostur. Lítilræði af múslí og kaffidreytill.
„Sá sem fær að upplifa það að vakna svona með allri jörðinni hefur lifað góðu lífi.“
Úti bíður nóttin, stjörnubjört og kyrr. Malarstígar eru vel greinanlegir í sterkum ljósgeislum höfuðljósa og ef heppnin er með má sjá för eftir göngumenn í næturfrystum jökulslóðunum. Þetta er lykilatriði. Málið er að vera snemma á ferð á meðan allt er enn frosið og hart. Maður er í hálfgerðu næturmóki á göngunni. Fólk er fámált um miðjar nætur. Svo birtast fölar útlínur fjallanna í austri. Nýr dagur er í fæðingu og vitund manns kemur hægt og rólega uppá yfirborðið eftir því sem birtir. Sá sem fær að upplifa það að vakna svona með allri jörðinni hefur lifað góðu lífi. Það er engin furða að slíkar hugsanir fljóti upp því hugsunin um dauðann er líka fyrirferðarmikil þegar farið eru um há og ókunn fjöll í dagrenningu.
Kannski finnst fólki furðulegt að heyra þessa játningu. En það fylgir því ónotatilfinning að eiga fyrir höndum göngu um jökla og fjöll sem maður hefur ekki heimsótt áður. Ég hef fundið fyrir þessu í aðdraganda að sumum fjallgöngum á Íslandi. En einkum á ferðalögum um ókunnar slóðir í Ölpunum. Þetta er lífsnauðsynlegur og kvíðablandinn dauðaótti sem temur mann, – segir manni að fara mjög varlega og fær mann í sumum tilfellum til að hætta við. Þarna eru leiðir sem geta verið lífshættulegar. Maður veit að þarna hefur fólk dáið. Hrapað, villst, örmagnast, orðið úti, lent undir snjóflóðum eða grjóthruni.
Á sama tíma er þessi tilfinning hlaðin spennu. Það er nýtt ævintýri í uppsiglingu. Nýr sjóndeildarhringur bíður eftir næstu brekku. Einhver útgáfa af veröldinni sem maður hefur ekki séð áður og myndi ekki sjá nema að leggja á sig töluvert erfiði. Með því að leggja af stað í slíka leiðangra tekur maður áhættu og það þarf að hugsa um hana – axla ábyrgðina með bakpokanum. Ef maður fylgir öllum umferðarreglum á akstri dregur maður verulega úr hættunni á að lenda í óhappi. En það þýðir ekki að utanaðkomandi aðstæður geti ekki leitt til slyss. Sama gildir á fjöllum.
Á gönguleiðinni á milli fjallarisanna tveggja, Mont Blanc og Matterhorn, sem oftast er kölluð háa leiðin, eða Houte Route, er hægt að velja ýmsar útfærslur, miserfiðar. Sú erfiðasta liggur um krosssprungna hájökla. Þetta eru dagleiðirnar á milli Cabane du Dix og Caban du Vinjette og Bertol skálans og Schonbiel, sem er skammt frá Zermatt. Stórkostlegar leiðir um tinda og fjallaskörð sem eru meðal þess allra flottasta sem Alparnir hafa uppá að bjóða en þær eru á sama tíma ekki fyrir alla. Til þess að fara þær með öruggum hætti er nauðsynlegt að hafa lokið námskeiðum í jöklaferðalögum, kunna að velja leiðir, kunna sprungubjörgun eða fara með leiðsögumanni sem þekkir til.
Bókin Haute Route, Chamonix – Zermatt, glacier trek eftir Francois Matet er ein af þeim fjölmörgu bókum sem skrifaðar hafa verið með góðum leiðarlýsingum í fjölmörgum útfærslum og fæst í handhægu (bakpokavænu) broti. Sé ætlunin að fara jöklaleiðirnar þarf brodda, ísaxir, hjálma, belti og línur. Og, sem fyrr segir, kunnáttu í að nýta þessi tól og tæki.
„Það kemur yfir mann tímalaus ró og friður.“
Gangan milli fjallanna er líka ganga á milli þeirra tveggja bæja sem liggja undir fjöllunum. Chamonix í Frakklandi og Zermatt í Sviss. Fjöllin tvö eiga landamæri við Ítalíu. Mont Blanc skilur á milli Frakklands og Ítalíu og Matterhorn liggur á landamærum Sviss og Ítalíu. Bæði fjöllin eru á lista fjallafólks um alla veröld sem eftirsóttur áfangastaður; verðug fjallaverkefni. Bæirnir tveir eru líka mjög skemmtilegir áfangastaðir. Þeir eru eins konar höfuðborgir útivistarfólks. Einkennisklæðnaður á götum úti eru ýmist úr primaloft eða goretexi og allir klæddir eins og þeir séu á leiðinni á fjall, skíðandi, hjólandi eða hlaupandi. Þarna sameinast allra þjóða kvikindi og allir úti að leika sér.
Þú ræður hversu marga daga þú ert á fjöllum á þessum slóðum. Við gengum 16 daga þegar þessar myndir voru teknar. Eftir nokkra daga inni á milli þessara tinda, í mjög takmörkuðu símasambandi og á engum samfélagsmiðlum, gerist eitthvað innra með manni. Það kemur yfir mann tímalaus ró og friður. Kyrrð fjallanna teygir sig inní sálardjúpið og einföld endurtekin dagskrá hvers dags í nýju og síbreytilegu fjallalandslagi hefur langvarandi áhrif.