Rúmlega sjötíu manns luku Þorvaldsdalsskokki á 25 ára afmæli hlaupsins í dag. Aðstæður voru ágætar í hlaupinu en það rigndi framan af (kemur á óvart!) og svo tók svöl norðanátt við eftir vatnaskil þegar halla tók undan fæti á ný auk stöku þokuslæðings. Þetta er langstærsta hlaupið til þessa. Þorvaldsdalsskokkið er 26 kílómetrar og þykir erfitt hlaup. Fyrri hluti hlaupsins er farinn með nokkuð frjálsu leiðarvali, hlaupurum er uppálagt að hafa ánna vinstra meginn og fjallið á hægri hönd. Hlaupið er um mikið mýrlendi þannig að eftir fimm metra hlaup eru allir orðnir blautir í fæturnar. En brautin er falleg og leynir á sér, bollar, hrun, mosi og ár varða leiðina sem þykir einnig villugjörn. Fjórar drykkjarstöðvar voru á leiðinni og það er fyrst eftir um það bil 12 kílómetra sem leiðin verður að mjög sýnilegum stíg.

Fjórar drykkjarstöðvar eru á leiðinni.