Skógrækt Reykjavíkur hefur opnað aftur fyrir hjólreiðar þann hluta ríkishringsins, svokallaða, sem var lokaður hjólafólki í fyrra. Ennfremur hefur verið opnuð sérstök fjallahjólaleið frá Jaðrinum í gegnum Heiðmörkina.
Skógræktin tók þá umdeildu ákvörðun í fyrra að banna hjólreiðar á stígum Heiðmerkurinnar á vinsælum göngu, hlaupa og hjólahring sem gengið hefur undir nafninu Ríkishringurinn á meðal útivistarfólks. Hann er 12 kílómetralangur og byrjar við mörk Helluvatns og Elliðavatns. Samhliða þessu var kynnt sú ákvörðun að afmarka stíga sem sérstaklega væru ætlaðir fyrir hraðari hjólreiðar. Samlíf hjólafólks og gangandi eða hlaupandi var erfitt á köflum vegna þess að sumir hjólreiðamenn hjóluðu stígana á miklum hraða þannig að fólk átti fótum fjör að launa. Á Ríkishringnum voru nokkrir vinsælir keppniskaflar á Strava íþróttasamfélagsmiðlinum sem fjölmargir vildu reyna sig og ýtti það upp hraðakstri á stígunum.
Að sögn Kimmo Virtanen hjá Skógræktinni hefur verið ákveðið að nýta sér reynslu dana við skipulagningu hjólastíganna. Að heimili fólki að hjóla í nestislautir og um Heiðmörkina á hófsömum hraða en beina keppnisfólki á aðra stíga. Farið er á fjallahjólastíginn frá Símamannalaut, sem er við hlið vegarins til Hraunsslóðar. Hjólamenn sem koma af Jaðrinum, en það er vinsæl fjallahjólaleið ofan úr Bláfjöllum og niður í Heiðmörk, eiga að geta haldið áfram á fjallahjólastíg niður í gegnum Heiðmörkina. Þeir stígar eru merktir með viðvörunarþríhyrningi fyrir gangandi vegfarendur.