Flautað var á Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, þar sem hún var úti að hlaupa á dögunum. Þórlindur Kjartansson, pistlahöfundur Fréttablaðsins, varð vitni að þessu og við höfum fengið söguna staðfesta á skrifstofu forsætisráðherra. Þórlindur ber saman ólíka skipan mála á Íslandi og í Bandaríkjunum þar sem götum er lokað þegar forseti landsins er á ferð.
Þórlindur segir svona frá þessu í pistli sínum: „Þessu er nokkuð öðruvísi farið hér á landi. Þetta get ég vottað, því í þessari viku var ég á gangi meðfram fáfarinni götu í Reykjavík og sé að á móti mér kemur ung kona aðvífandi á dágóðum skokkhraða eftir miðri götunni. Hún var klædd í hefðbundinn keppnislegan hlaupagalla, með hvít heyrnartól hangandi úr eyrunum. Þótt hún hafi reyndar hlaupið nokkuð rösklega þá fannst ökumanni bílsins fyrir aftan það ekki nóg og lá á flautunni þangað til hann náði loksins athygli hlauparans. Hún leit snöggt við, vinkaði og stökk fimlega upp á gangstétt svo bíllinn gæti komist fram hjá. Bíllinn brunaði áfram sína leið, og forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar hélt áfram síðdegisskokki sínu, fullkomlega óáreitt og í eigin heimi með hvítu heyrnartólin hangandi eyrunum, eflaust hugsi yfir að hafa verið skömmuð fyrir að þvælast fyrir bílaumferðinni. En ökumaður bílsins hefur getað muldrað fyrir munni sér einhverja romsu um þetta unga fólk í dag.“