Elísabet Margeirsdóttir sagðist á dögunum hætt að hlaupa ógeðslega löng hlaup. Hér eftir ætlaði hún að einbeita sér að 50 til 100 kílómetra hlaupum. Sem flestu venjulegu fólki finnast einmitt ógeðslega löng. En svo er hún líka hætt við að hætta við þessi mjög löngu.
Hún er á leið í Ultra Gobi í september en það er 400 kílómetra langt. Hún segir frá þessu á facebook síðu sinni: „Næsta ævintýri verður ULTRA GOBI í lok september. Markmiðið verður að komast 400 kílómetra í Gobi eyðimörkinni í Kína með hjálp GPS tækis. Þetta er gríðarlega flott keppni og ég er hrikalega spennt að vita hvernig er að takast á við þessar aðstæður. Hitinn getur farið úr -15 í +30°C innan sólarhrings. Aðeins 50 þátttakendur og engin aðstoð leyfð.“
Það sem vekur strax athygli er að þetta hlaup er farið í einni atrennu en ekki í áföngum. Þátttakendur hafa 150 klukkustundir til að ljúka við vegalengdina og þurfa að bera allt á bakinu en mat og aukabúnað má geyma á hvíldarstöðvum. Elísabet er nýkomin frá Bútan þar sem hún keppti í 200 kílómetra hlaupi og varð fyrst kvenna. Það var hlaupið á 6 dögum.