Dyrfjallahlaupið, sem haldið var í fyrsta sinn í fyrra, er sérlega ánægjuleg viðbót við fjallahlaupaflóruna á Íslandi.
Um 170 hlauparar tóku þátt í hlaupinu í fyrra en það þótti mjög erfitt en á sama tíma afar skemmtilegt enda hlaupið um flottustu fjallasali Íslands. Hámarksfjöldi þátttakenda er 250 í ár en skráning stendur yfir á hlaup.is og munu enn vera laus pláss í hlaupið.
Leiðin hefst við bæinn Hólaland í innsveit Borgarfjarðar. Þaðan er hlaupið upp til að byrja með eftir gömlum raflínuslóða sem liggur að Sandaskörðum. Þegar komið er langleiðina upp í Sandaskörð er beygt til hægri á merkta gönguleið sem liggur að Eiríksdalsvarpi. Frá varpinu er hlaupið um Tröllabotna, yfir Lambamúla áleiðis að Urðardal þar sem Stórurð liggur undir dyrum Dyrfjalla.
Úr Stórurð er hlaupið upp bratta brekku í átt að Mjóadalsvarpi. Á krossgötum ofan Stórurðar er beygt til hægri og hlaupið eftir grófri slóð undir hömrum Dyrfjalla ofan Njarðvíkur og Dyrfjalladals. Leiðin liggur að Grjótdalsvarpi og þaðan er hlaupið að mestu á grónu landi að Brandsbalarétt sem er rétt fyrir innan þorpið Bakkagerði í Borgarfirði. Seinustu 700 metrana er hlaupið á malbiki að fótboltavelli UMFB þar sem hlaupið endar.
Hér er mjög skemmtilegt myndband sem Unnsteinn Ingi Júlíusson úr Hlaupahópnum Skokka á Húsavík gerði eftir hlaupið í fyrra. Það sýnir vel hversu stórfengleg þessi 23 kílómetra hlaupaleið er.