Stórar fyrirhugaðar ferðir á tinda og toppa Öræfajökuls eru í uppnámi vegna lélegrar veðurspár um helgina. Að minnsta kosti þrír stórir hópar stefndu á Öræfajökul núna um Hvítasunnuhelgina en útlitið er ekki gott eins og staðan er akkúrat núna. Það er ljóst að margir fararstjórar og ferðalangar liggja yfir kortum Veðurstofu íslands og velta fyrir sér hvernig helgin verður því engin vill lenda í illviðri í 2000 metra hæð á íslenskum jöklum. Það er mikil úrkoma í kortunum á suðausturlandi á laugardag, sunnudag og mánudag og þetta gæti sett strik í ferðareikning margra.
Ferðafélag Íslands hefur um árabil farið með stóra hópa á Hvannadalshnúk á Hvítasunnunni og átti helgin ekki að vera nein undantekning þar á, þá stefndi stór hópur skíðamanna, undir fararstjórn Tómasar Guðbjartssonar og Helga Jóhannessonar, á Hnjúkinn um helgina og Landkönnuðir, hópur innan FÍ, ætlaði einnig að fara á alla toppa Öræfajökulsöskjunnar. Jöklatíðin fyrir austan, sem jafnan er frá apríl til júníbyrjunar, hefur ekki reynst góð þetta vorið. Um mánaðarmótin síðustu urðu tveir stórir hópar frá að hverfa vegna óhagstæðra veðurskilyrða. Við krossum fingur og ýtum á „refresh“ á vedur.is.