Einar Óla skrifaði hugrenningar sínar eftir Fossavatnsgönguna í þessum magnaða pistli:
Sit í bústaðnum okkar á Þingvöllum eftir að hafa stokkið í ískalt vatnið í snjókomunni á afmælisdaginn minn 1.maí og hugsa til baka. Fossavatn. Þetta magnaða orð segir svo margt í huga okkar sem hafa upplifað mögnuðustu skíðagöngukeppni í heimi. Þessi ganga sló allt út. Vá. Kom vestur á miðvikudegi. Ætlaði sko að taka þetta allt inn þar sem lítið hafði verið um skíðaiðkun þennan veturinn ef frátalin er vikan í Seefeld með dásamlegu fólki í ferð á vegum Bændaferða. Veturinn fór mest í að þjóna öðrum. Nú ætlaði ég að huga að mér. Ég ætlaði að njóta. Og hvað ég naut. Á fimmtudeginum var 25 km skautakeppnin. Frábærar aðstæður. Var léttur og hress. Hélt aðeins í Óla Th. en ætlaði mér ekki að sprengja mig, heldur meira að njóta og spara mig fyrir stóra daginn á laugardaginn. Í „dauðabrekkunni“ sá ég reyndar aftur Óla Th. og reyndi að ná honum. Sá að hann var alveg búinn, en náði honum ekki. Fór reyndar framúr tveimur skemmtilegum ameríkönum, öðrum í brekkunni bröttu og löngu og hinum 62 ára í rennslinu niður. „Go man go“ kölluðu þeir báðir. Minnti mig á göngurnar í American Birkibeiner sem ég fór með nokkrum félögum fyrir nokkrum árum. Þeir eru svo hvetjandi og skemmtilegir. Óli tók mig með 20-30 sek. Allt í lagi. Vinn hann á laugardaginn, hugsaði ég. Bara gleði. Verst þó að tapa fyrir báðum bræðrunum. Gísli Einar var náttúrlega langt langt á undan mér. Helvískur. Reyndi að hugga mig við að það væru nokkur ár á milli okkar. En samt. Þarf að létta mig. Þetta segi ég við mig á hverju ári. Ekkert gerist í því. Kannski ætti ég að byrja að æfa og hætta að svekkja mig á að sífellt þurfa að sjá í bakið á þeim. Næst. Næst. VIP skemmtun um kvöldið í Safnahúsinu fyrir Worldloppet passaeigendur. Gaman.
Dagurinn fyrir daginn. Föstudagur. Spáin. Hvað á að bera neðaní? Mér fannst ég þurfa að pósta einhverju til félaga minna í Ulli. Það eru svo margir sem hringja eða senda mér skilaboð og sjálfsagt enn fleiri sem eru óvissir. Mér hefur aldrei mistekist með áburð í Fossavatninu og ætlaði ekki að fara að taka upp á því núna. En, nú ætlaði ég að vanda mig. Fór upp á heiði og kannaði aðstæður. Fór upp á dal og kannaði þar líka. Hmm. 20 cm nýr snjór á heiðinni og gamall við startið. Spáin sagði heiðskýrt, frost. Talaði við legendinn Þröst Jó. Við vorum sammála um að þetta væri ekki klístur. Vissulega yrði þetta blanda af nýjum og gömlum, en… ég bræddi Rode rennslisáburð fyrst. Svo Marathon frá Swix, þennan ljósa. Að lokum fjólublátt Cera. Rillaði líka. Strauk þeim eins og litlum kettlingi. Ást og umhyggja. Setti alla orku í skíðin. Nú eigið þið að renna vel. Spenna í loftinu. Fólk í búðinni hjá Bobba. Bobbi sveittur að moka út vörum. Jólin. Fólk brosti. Hitti Helga og Diljá frá Ólafsfirði. Þau voru að velta ýmsu fyrir sér. Þau voru mjög spennt. „All in“ hjá þeim. Gaman. Kraftur og áhugi. Nýr troðari heima. Skinn eða ekki skinn. Mér er ekkert vel við þessi skinnskíði. Jú jú, þau duga ef þú nennir ekki að bera neðaní. En rennsli? Ekki gott. Fatt? Sæmilegt. Ég er svo gamaldags í þessu. Ef ég er ekki með fatt, þá ýti ég mér frekar. En… heyrði í Árna Ella. Gulla. Hitti Jónsa og skíðadólgana. Allir spenntir. Allir að spá. Ég var búinn að pósta einhverjum hugleiðingum um biblíuna, súkkulaði og eitthvað meira. Reyndi að halda uppi húmornum. Út á það gengur þetta líka. Gamla bakaríið. Eins og alltaf. Vildi að það væri útibú frá Brauð & Co á Ísafirði. Maður er húkkt á snúðunum þeirra. Lagði mig. Var þreyttur. Of mikið um að vera. Nokkrir nemendur mínir úr Ulli komu í bílskúrinn til Lúlúar systur og fengu að bræða neðaní. Tjöruhúsið um kvöldið með Helga, Diljá, Ásgeiri vini þeirra og Guðrúnu Helgu konunni minni. Afbragðsmatur. Ef það þarf að afkjöta einhverja, þá er Tjöruhúsið staðurinn. Bara fiskur í hæsta gæðaflokki. Vissulega er mikið smjör og olía notuð en hey, hver þarf ekki smjör í kroppinn? Kláraði að setja cerann undir skíðin og kom mér í ró fyrir nóttina. Ég ætti að geta átt sæmilega göngu á morgun hugsaði ég. Ég varð ekkert mjög þreyttur eftir skautið. Nú ætlaði ég að vinna Óla. Gísla var ekkert hægt að gera í, núna NB. Seinna.
06:00. „Sæll, hvernig lítur þetta út?” Þröstur svaraði: „Jú þetta lítur bara vel út. Nýr snjór handan við gatnamótin en blandað hérna megin við þau”. „Er þetta ekki bara baukur?” „Jú, ég myndi halda það. Ég held að það muni frjósa í klístrinu”. „Já, einmitt”. Svo spjölluðum við aðeins saman vinirnir í morgunsárið. Þröstur var þá að koma af heiðinni að klára hringinn. Það var eins og ég hélt. Ég hafði kvöldið áður brætt Swix grunnáburð undir miðjuna. Svo setti ég 5 lög af bláum og önnur lög af bláum extra. Nokkur lög af fjólubláum special. Múslí, banana, jarðarber og grísk jógúrt. Nýji flotti keppnisgallinn. Mikilvægt að líta þokkalega út ef allt annað klikkar. Tók rútuna kl. 07:30. Var rólegur. Þetta yrði ekki erfitt. Mætti á svæðið og að venju var spenna í loftinu. Hitti Árna Ella. Sá að hann var tiltölulega rólegur líka. Ef Árni er rólegur, þá eru hlutirnir í lagi. Það róaði mig enn meira. Hitti alla skíðavini mína. Allir að spá og spekúlera. Sumir voru að gantast í mér út af áburðarskrifunum daginn áður. Fannst það fyndið. Það var gaman. Spurðu mig hvort ég væri með biblíuna með mér. „Hvað hefurðu mörg gel með þér” „5”. „Settirðu VR55 bara?” „Nei, ég ætla að setja VR45 yfir, svo það frjósi síður”. „já best ég geri það líka”. Gulli. „Ég held ég setji klístur undir, þunnt”. „Nei, Gulli, þess þarf ekki. Trúðu mér. Þú færð nóg fatt á bauk. Lítið fyrstu 3 – 4 km en svo negling á heiðinni”. Hitti Kristrúnu. Hún virtist óviss. Taugastrekkt. „Ísfirðingarnir eru að setja klístur”. „Já. En þess þarf ekki. Trúðu mér. Ekkert klístur. Þú munt ekki renna nógu vel.“ 10 mín í start kallaði þulurinn. Allt klárt hjá mér. Fór úr utanyfirfötunum. Gekk að markinu. Kom mér fyrir framarlega. Þó ekki fremst. Ég er ekki svo góður ennþá. Einu sinni var ég meira að segja fremst í Vasagöngunni. Ekki núna – 30 árum seinna. 30 ár og maður er enn að sprikla og halda að maður geti eitthvað. Er maður ekki létt ruglaður? Var í erfiðleikum að hreinsa neðan úr skónum. Pétur Pétursson sonur Péturs Oddsonar hjálpaði mér aðeins. 30 sekúndur og ég ekki kominn í skíðin. Jæja, núna og svo stafirnar. Nú hlýtur að vera 10 sekúndur. Stafirnir klárir. Allt klárt. Skotið. Ýtti mér af stað. Passaði stafina. Gekk vel. Rann vel, enda hart spor og allir runnu vel. Hvar er Óli? Sá hann ekki. Sá Gísla Einar og svo ekki meir. Ungu strákarnir ruku áfram. Kannski næ ég þeim seinna. Kannski ekki. Rólegur. Ýtti mér að mestu. Smágekk við hliðina á sporinu upp fyrstu bröttu brekkuna. Eftir hana ýtti ég mér bara. Vissi að fattið kæmi upp undir lyftu tvö. Gekk vel. Var hress. Erfitt já, en allt í lagi. Sneiðingsbrekkan á undan lyftu tvö. Ýtti mér brattasta partinn, en svo kom fattið inn. Frábært. Undir lyftuna og fattið komið “all-in”. Kom að fyrstu drykkjarstöð. Þar var Danni. „Góð ganga hjá þér Einar”, kallaði hann. En hvar er Óli? Ætlaði að spyrja, en hætti við.
Gekk fram hjá Stefáni sem byrjaði að æfa gönguskíði í gær. Vá, hvað honum gekk vel eða mér illa. Hvaðan kom hann? Flottur. Einbeitti mér að ganga bara mina göngu. Hélt bara mínu striki. Ef ég rann betur en sá á undan mér fór ég framúr. Beið ekki. Hvíldi mig ekki. Fann mig mjög vel. Vandaði mig. Hugsaði um stílinn. Hugsaði um hvað Snorri Einars hafði kennt okkur á námskeiðinu nokkrum dögum áður. Spyrna fyrr. Hendur að andliti, upp á tærnar í ýtingunum og sprengja. Renna langt. Afslappað. Taktfast. Þarna er Kristrún og fleiri. Framúr henni. Kallaði á hana og hvatti hana. Ég var með fantagóð skíði. 100% fatt og rann betra en allir í kringum mig alla vega. Ýtti mér mikið. Það fer minni orka í það en að ganga vanaganginn. Nýtti mér nýju tæknina. Að því að ég hélt alla vega. Gekk vel. Ýtti mér lengra en aðrir upp í brekkurnar. Ýtti mér meira að segja framúr sumum upp léttar brekkur á meðan þeir gengu vanaganginn. Þetta lítur vel út. Fellshálsinn. Hér hugsaði ég mér að gefa svoldið vel í af því það væri svo góð hvíld eftir þetta. Gekk framhjá fullt af fólki. Tveir góðir framundan. Rann strax framúr öðrum. Náði hinum aðeins seinna. Ameríkani. Sá hélt aðeins í mig. Nónhorn. Drakk tvö glös. Eftir Nónhorn sá ég Snorra hinu megin. Vá hvað hann ýtti sér hratt. Kallaði á hann. Hann heyrði í mér. Vá, hvað þetta var gaman. Veðrið maður lifandi. Færið. Brautin. Mér fannst ég vera á toppinum á tilverunni. Leið vel. Leit vel út. Var ekkert hræddur um að þreyta mig of mikið. Hvernig er þetta hægt? Af hverju gengur mér alltaf svona vel. Þetta er eiginlega ósanngjarnt. Jæja, það þýðir ekkert að hugsa um það. Hvar er Óli? Ætlaði líka að spyrja um hann við Nónhorn, en gerði ekki.
Í botni Engidals var ég að reyna að sjá Gísla Einar og yngri strákana. Var farinn að telja hvað það væru margir á undan mér. Reyndi að rýna í snjóinn og telja stafaförin. Ég var að ég hélt á milli 15-20 fyrstu. Taldi mig sjá Gísla Einar, en var ekki viss. Sá Dag hinu megin, kannski 3 – 5 mín á undan mér. What? Hvernig gat það verið. Jæja. Áfram með þig. Einbeittur. Á leiðinni til baka mætti ég Jónsa og Helga Jóns á leiðinni niður eftir. Kallaði á þá og hvatti þá áfram. Þeir áttu greinilega báðir góða göngu. Sá ekki Óla. Var hann á undan mér eða á eftir? Ég gæti spurt á Nónhorni. Ameríkaninn nálgaðist mig. Lítið fatt hér á leiðinni að seinni drykkjarstöðinni við Nónhorn. Allt í lagi. Það myndi lagast. Var orðinn þreyttur. Rétt fyrir drykkjarstöðina tók í gel nr. 3. Svelgdist á. Hélt ég myndi kafna hreinlega. Drakk vatn en það fór eins og gos út út úr mér aftur. Hóstaði og hóstaði. Shit. Náði mér loksins. Stuttu á eftir kom ameríkaninn og fór framúr mér. Við skiptumst eitthvað á orðum sem ég man ekki hver voru. Vonandi verður mikill nýr snjór í sporinu svo ég fái fattið aftur. Þetta mjakaðist áfram. Sá nokkra á undan mér sem voru ansi þreyttir. Var Óli einn af þeim? Eða Gísli Einar kannski? Nei. Þetta var Pétur. Hann var alveg búinn. Gekk skref fyrir skref. Fór framúr honum í beygjunni upp síðustu brekkuna upp á Fellshálsinn. „Koma svo, þetta er alveg að verða búið” kallaði ég á hann og reyndi að hvetja hann. Flott hjá þessum ungu að ganga 50 km á þessum hraða. Samt vissi ég af Agli Bjarna, Jakobi og Arnari á undan okkur og Degi náttúrlega líka og Sigga Hannesar. Þeir hljóta að fara að springa. Aldeilis ekki. Það bólaði ekkert á þeim. Þeir voru bara farnir að gera sína bestu göngu. Frábært. Rennslið út heiðina. Rann ennþá mjög vel. Nálgaðist Ameríkanann aftur. Næ honum seinna hugsaði ég. Gekk framhjá Björgu, mágkonu vinkonu minnar. „Nei, er þetta ekki Einar?” „Jú”, svaraði ég og geystist áfram. Nú var 25 km fólkið í brautinni og svigið kikkaði inn. Skautaði á milli spora til að komast framhjá fólkinu. Þetta var gaman. Kom í Botnsdalinn. Sá einhvern góðan á undan mér. Var þetta Óli? Nei, þessi var stærri og með silalegri hreyfingar, en góður samt. Þetta var Ragnar Braga. Var hann að keppa í 25 km eða 50 km? Geystist framúr honum. Fylgdi hann mér? Nei. Hann var þreyttur. Birkir Þór sveitungur hans gekk með mér alveg í byrjun en svo sá ég hann aldrei meir. Sá öðlingur getur stundum átt fantagóðar göngur og aldrei að vita hvað gerist á þeim bæ. Ekki í dag. Fór líka framúr ameríkananum rétt áður en við komum að síðustu drykkjarstöðinni á Búrfelli. Þar var líka annar góður á undan mér. Sýndist þetta vera norðmaður. Rann framúr honum í brekkunni áður en við komum að lyftunni á milli fellanna. Gekk svo með þeim tveimur upp á milli fellanna. Það gekk hægt. Hvar var Óli. Reyndi að kíkja upp í átt að „dauðabrekkunni”. Sá hann ekki. Var hann ekki annars í appelsínugula ullargallanum? Mundi það ekki. Áfram. Við skiptumst á að vera á undan. Ætlaði mér að halda í þessa tvo og taka þá svo í rennslinu. Svo heyri ég að einhver er að fara framúr mér. Held það sé Ameríkaninn. Nei. Aldeilis ekki. Er ekki hann Óli Th. kominn! „Hæ“ segir hann stutt og laggott og strunsar framúr mér eins og ekkert væri eðlilegra. Hei hei. Bíddu bíddu, hugsaði ég. Hvar varstu allan tímann? Ég var búinn að vera að kíkja framfyrir mig og aftur fyrir mig en svo kemur hann þessi unglingur bara allt í einu og segir bara eitt orð; „Hæ”. Shittur. Aftur? Nei nei nei. Reyni og reyni að halda í hann. Hann sligast bara lengra og lengra framúr mér. Ekki gefast upp. Þetta er ekki búið. Þú ert með fantarennsli. Haltu í hann. Láttu hann vita að þú sért að reyna. Fór framúr norðmanninum í byrjun „dauðabrekkunnar”. Óli er ekkert mjög hraður upp brekkuna. Hann er greinilega þreyttur eins og ég . Gott. Þá er von. Þurfti að ganga skæragang að hluta upp brekkuna. Gekk líka við hliðina á sporinu. Sá Stebba Páls efst uppi. Píndi mig og píndi mig. 50 metrar í Óla. Norðmaðurinn hélt í mig. Skítt með hann. Það var Óli sem ég, öldungurinn, ætlaði að vinna. Hvatningaróp Steppa hresstu mig og fengu mig til að pína mig enn meira. Hresstist aðeins í lokin. Gat pínt mig í drep efst og kom mér á góða ferð niður. Lærin ætluðu að springa. Skítt með það.
Kökuhlaðborðið kallaði á mig. Óli kallaði á mig. Niður með þig. Alveg. Ekki uppréttur. Talaði stöðugt við mig. Þú nærð honum. Þú nærð honum. Sá að það styttist á milli okkar. Sýndist ég líka sjá Arnar hans Óla Bubba. Sá var þreyttur. Fór framúr honum á hvínandi ferð. Nú var ferðin örugglega 50 – 60 km á klst. Myndi ég ná Óla? Þegar það fór aðeins að draga úr ferðinni upp á hæðinni fyrir ofan markið sá ég að þetta væri að hafast. Í beygjunni þar fyrir ofan HVISSAÐIST ég framúr Óla. Þvílíkt rennsli. Heyrði eitthvað uml frá Óla. Heyrði ekki hvað hann sagði. Einbeittur. Nú skildi ég taka hann. Ýtti mér. Reyndi að lyfta mér upp á tærnar. Nei, þarft þess ekki. Þú rennur miklu betur en hann. Fór í brunstellingu. Kíkti aftur fyrir mig. Óli varð eftir. Hélt áfram. Áfram. Klára þetta með stæl. Kom í markið undir fagnandi hvatningarópum frá Guðrúnu Helgu konunni minni, nokkrum sekúndum á undan Óla. Sæll og glaður. Tók svo fagnandi á móti Óla þegar hann kom í mark. 1:1. Enn og aftur kom ég sjálfum mér á óvart. Af hverju gengur mér alltaf svona vel í Fossavantinu? Er það heimaorkan sem hjálpar til? Eru það fjöllin sem eru að fagna mér? Lyfta þau mér upp og bera mig áfram? Ég kann svo sannarlega vel við mig á þessu svæði. Svæði sem ég þekki eins og vasann á mér. Þarna gekk maður fleiri hundruð kílómetra í gamla daga. Dásemd. En. Nú fer ég að æfa svo ég standi mig enn betur á næsta ári hugsaði ég. Alltaf sama ruglið. Þú ert ekki tvítugur ennþá. En… Sjáumst á næsta ári alla vega hvort sem ég verð feitur eða mjór. Æfður eða ekki æfður. Ég mæti.
Takk fyrir mig Ísfirðingar. Að venju eruð þið að halda glæsilegasta skíðamót á Íslandi og þótt víða væri leitað. Allt á heimsmælikvarða hjá ykkur.
Einar Óla