Sörf er eitt nýjasta útivistaræðið á Íslandi og virðist draga til sín meira af útlendingum en Íslendingum en þó hafa allnokkrir heimamenn stundað þessa glæsilegu íþrótt um nokkurt skeið. Hún virðist þó ekki hættulaus.
Í árhundruð hefur brimið þýtt erfitt sjólag og léleg veiðiskilyrði fyrir Íslendinga en margir eru heillaðir af aðstæðum til brimbrettaiðkunnar við Ísland. Þeirra á meðal eru þeir Lúkas og Philip og Tomas, frá Tékklandi, en þeir gerðu sig sjóklára undir Búlandshöfða á Snæfellsnesi í gær.
„Við hefðum viljað fá vindinn frá landi og til okkar, það gerir ölduna betri“, segir Lúkas og bætir við að miklar pælingar í veðri og straumum fylgi þessari íþrótt. Það sé betra að vera þar sem eru steinar undir vegna þess að þar lyftir aldan sér hærra, segir aðspurður um hvers vegna þeir bruni ekki undan sandfjörunni skammt frá.
Til þess að fá stöðugri festu á brettinu er það smurt með vaxi sem sérstaklega er hannað fyrir sörf. Gallarnir eru úr 6 millimetra neopreni og þeir segjast vel geta verið að í sjónum í um 2 tíma í senn þrátt fyrir kulda. Hreyfingin sé mikil og þeir haldist því vel heitir.
Nýverið kom myndin Under an arctic sky til sýningar á Netflix en hún fjallar um leit nokkurra brimbrettakappa að hinni fullkomnu öldu undir sindrandi norðurljósum á Íslandi. Hægt er að mæla með henni.