Í fimmta þætti Úti, fyrstu seríu, var fylgst með fjórum konum, Þórey, Karen, Birnu og Alexíu, reyna sig við Landvættaáskorunina. En hvaða áskorun er það?
Landvættir Íslands eru rúmlega 700 talsins og þeim fer fjölgandi. Töluverður fjöldi fólks undirbýr sig árlega fyrir viðureignirnar við keppnirnar fjórar sem fært geta fólki heiðursnafnbótina Landvættur. Alexía, Þórey, Birna og Karen luku við áskorunina (í fyrsta skipti) árið 2017.
Í hefðbundnum skilningi er landvættur auðvitað eitthvað af dýrunum í íslenska skjaldamerkinu. Eitt fyrir Suðurland, annað fyrir Norðurland, þriðja fyrir Vesturland og fjórða fyrir Austurland. Griðungur, gammur, dreki og bergrisi. En í þessum skilningi sem talað er um hér er landvættur dálítið annað: Landvættur er manneskja sem tekst að klára fjórar fyrirfram ákveðnar keppnir á innan við einu ári, eina í hverjum landsfjórðungi. Nefnilega þessar:
- Fossavatnsgangan – 50 km skíðaganga á Ísafirði. (Vestur)
- Bláalónsþrautin – 60 km fjallahjólreiðakeppni á Reykjanesi. (Suður)
- Urriðavatnssundið – 2,5 km villisundkeppni í Urriðavatni. (Austur)
- Jökulsárhlaupið – 33 km utanvegahlaup niður Jökulsárgljúfur (Norður) / Eða: Þorvaldssdalsskokkið – 25 km utanvegahlaup í Eyjafirði (Norður)
Tæknilega séð verður maður Landvættur þegar maður hefur hlotið aðild að Fjölþrautafélaginu Landvættir. Aðildina fær maður hins vegar ekki fyrr en keppnirnar hafa verið kláraðar á ári. Hér er því í raun um langa og krefjandi umsókn að ræða um aðild að félagi.
Það verður seint íþyngjandi að vera í þessa félagi. Því fylgir engin skylda og félagsskapurinn mun seint efna til mikilla fundahalda eða bjóða fram til þings. Eini tilgangur félagsins, samkvæmt reglum þess, er að safna félögum.
„Vant þríþrautarfólk eru ekkert endilega gott á gönguskíðum. Né heldur er víst að hjólari geti synt.“
Hér er auðvitað fyrst og fremst um skemmtilegt og krefjandi markmið að ræða, sem gaman er að takast á við. Fólk ber sig misjafnlega að við glímuna. Hið skemmtilega við verkefnið er hversu fjölbreytt það er. Vant þríþrautarfólk eru ekkert endilega gott á gönguskíðum. Né heldur er víst að hjólari geti synt. Hér þarf fólk því að huga að mjög mörgum hliðum hreyfingar og finna jafnvel alveg nýjar hliðar á sjálfu sér.
Á gönguskíðunum uppgötva margir hversu fáránlega auðvelt það er að detta háðulega á rassinn, jafnvel í kyrrstöðu.
Í hjólreiðunum þarf að kunna að kljúfa vindinn saman, læra að skipta um slöngu í snatri og passa að fá ekki verk í klofið.
Í sundinu þarf að yfirvinna margskonar sálrænar þrautir sem fylgja því að vera skyndilega staddur í miðju vatni og hvorki sjá né ná til botns.
Í hlaupinu gildir að halda sínum hraða, passa leggi og liði og muna það sem Murakami sagði: Sársauki er óumflýjanlegur. Þjáning er val.
Þetta er áskorun sem krefst fyrst og fremst einbeitingar. Og svolítilla græjukaupa en öllu útivistar og íþróttafólki er auðvitað meinilla við öll dótakaup – ekki. Við höldum því reyndar fram að allt dót sem keypt sé til að leika sér með úti sé mjög góð fjárfesting í heilsu, gleði og hamingju.
Og þetta krefst þjálfunar auðvitað. Allir verða að undirbúa sig. Landvættaþjálfun Útihreyfingarinnar byrjar á fullu í lok nóvember á ári hverju. Innifalið er 8 mánaða æfingaáætlun með tveimur til þremur sameiginlegum æfingum í viku. Þátttakendur fara í gegnum upphafsviðtal um stöðu og markmið og fá góða eftirfylgni allt tímabilið. Í gegnum allt námskeiðið er mikil kennsla og fræðsla, m.a. um tækni, búnað, keppnisundirbúning og keppnisnæringu. Þá fá þátttakendur stuðning og fylgni í gegnum keppnirnar sjálfar.
Margir þjálfarar með sérhæfða þekkingu og reynslu í hverri grein fyrir sig, koma að námskeiðinu. Landvættaþjálfarar Útihreyfingarinnar eru allir með margfalda Landvættatitla og hafa þjálfað vel yfir 50% af öllum þeim sem klárað hafa Landvættaþrautirnar frá upphafi.
„Titilinn felur ekki í sér afslátt í bíó eða í neinum búðum. Maður fer ekki framfyrir í röð.“
Og til hvers að gera þetta? Jú, fyrir gleðina. Fyrir góða líðan. Til að vera ekki sófakartafla. Og svo bara einfaldlega til þess að geta sagt að maður hafi klárað þetta. Það er ekki flóknara. Titilinn felur ekki í sér afslátt í bíó eða í neinum búðum. Maður fer ekki framfyrir í röð. Maður fær ekki einu sinni ókeypis í Hvalfjarðargöngin.
Maður fær bara viðurkenningarskjal frá félaginu góða. Maður er tekinn inn. Svo fær maður líka merki til að setja á jakkann sinn eða töskuna, eða á koddaverið sitt, sér til áminningar á kvöldin um það hvað maður getur mikið, jafnvel þótt dagarnir séu erfiðir.
Það hlýtur líka að felast í titilinum að maður sé, rétt eins landvættirnar í skjaldarmerkinu, í nægilega góðu formi til að verja landið gegn aðsteðjandi ógnum.
Tja, eða þá í nægilega góðu formi til að framkvæma vel skipulagðan flótta undan aðsteðjandi ógnum, ýmist á gönguskíðum, hjólandi, syndandi eða hlaupandi.
Hér eru þrjár reynslusögur:
Alexía Björg Jóhannesdóttir – Barátta góðs og ills, frásögn af Fossavatni.
Karen Kjartansdóttir – Með hugarfari pönksins.
Þórey Vilhjálmsdóttir – Er þetta í alvörunni ég?