Fyrst hélt ég að þetta gæti nú ekki verið svo erfitt. Ég kann á skíði og skauta. Kannski ekki góð en svona öruggur glanni. Við hjónin tókum stefnuna á Fossavatnsgönguna sem hluta af Landvættaáskoruninni.  Nú skyldi byrja að æfa á fullu. Þegar við fórum á fyrstu æfinguna okkar upp í Bláfjöll var ég nokkuð bjartsýn og leist vel á þetta.  Svo steig ég á skíðin.

Alexía Björg Jóhannesdóttir skrifar.

Ég var stanslaust á hausnum með tilheyrandi öskrum.  Það var alveg fáránlega erfitt að halda jafnvægi og standa í fæturnar.  Hver æfing varð barátta á milli góðs og ills í huga mér.  Eina stundina var ég svo þakklát fyrir að hafa heilsu í þetta sport, vera út í náttúrunni, lengst upp á fjalli með æðislegt útsýni. Fátt sem toppar það.  En svo kom púkinn á öxlina á mér og ég varð brjáluð yfir því hvað ég væri léleg í þessu og hversu mikil niðurlæging þetta væri. Þegar fólk á níræðisaldrinum spændist fram úr mér í brautinni átti ég erfitt með kökkinn í hálsinum á mér.

„Ef sálin er við það að brotna saman í keppninni, þá er það vegna næringaleysis og vatnsskorts.“

Þegar styttist í Fossavatnsgönguna fór stressið að vaxa með andvökunóttum og kvíðahnút í maga.  Tilhugsunin um að lenda í rútunni og fá ekki að klára gönguna við 35k markið var skelfileg. Þangað yrði ég að komast á innan við 5 tímum.

Daginn fyrir keppni var mörgum góðum ráðum kastað fram í hópnum okkar. Eitt það besta sem sat í mér var það, að ef sálin er við það að brotna saman í keppninni, þá er það vegna næringaleysis og vatnsskorts.  Ég setti því upp plan og ákvað að næra mig smá á öllum drykkjarstöðvum og drekka vatn alla leiðina.  Þar sem þetta var stærsta íþróttakeppni sem ég hef tekið þátt í á æfinni vildi ég líka hafa allt pottþétt daginn áður. Ég mátaði öll föt og merkingar. Skíðin voru sett í smurningu hjá fagmanni á svæðinu.  Allt var klárt og kampavínið var tilbúið á kantinum.

Svo rann upp stóri  dagurinn. Við tókum rútu eldsnemma upp í fjall í brakandi blíðu.  Mikil spenna var í loftinu þegar gangan byrjaði, enda um 600 manns að leggja af stað. Svo byrjaði strax að teygjast úr hópnum. Það var mjög þægilegt að hugsa keppnina í pörtum. Við vorum nokkur sem vorum búin að ákveða að við þyrftum að vera komin að Steini, þar sem gangan er hálfnuð, kl 12. Þá hefði maður 2 klst til að ná næstu 10 km og fara framhjá 35 km markinu þar sem brautinni yrði lokað kl 14.

„Ég var komin framhjá. Gleðin var svo mikil
að lítið gleðitár rann niður kinnarnar.“

Fyrstu 25 km voru erfiðir. Þá fór ég að efast um að ég væri nógu hröð. Ég myndi örugglega enda í rútunni og færi alls ekki á ballið með hópnum um kvöldið.  Þegar ég nálgaðist Stein sá ég að ég var á góðum tíma (á minn mælikvarða!). Ég var við Steininn 8 mínútur í tólf. Það var góð tilfinning.  Þá vissi ég að ég hefði drjúgan tíma til að komast að 35 km línunni. Ég var þar klukkan hálf tvö eða hálftíma áður en lokað var og rútan tók við.

Ég spurði starfsmann til að vera alveg viss.  Var ég komin framhjá 35 km línunni? Jú það var rétt. Ég var komin framhjá. Gleðin var svo mikil að lítið gleðitár rann niður kinnarnar. Ég var svo ánægð og stolt af mér.  Nú þyrfti ég bara að klára síðustu 15 km í mark. Þar af var hin svokallaða dauðabrekka.  Ég rölti hana bara upp í rólegheitum. Ég kom í mark alsæl sex klukkutímum og tuttugu og fimm mínútum eftir að ég lagði af stað.  Sælutilfinningin við að heyra nafnið mitt kallað upp þegar ég nálgaðist markið og sjá manninn minn bíða eftir mér skælbrosandi var ógleymanleg og ólýsanleg. Alsæla er líklegast rétta orðið.

Ég held að mig langi samt aldrei aftur á gönguskíði.