Pólfarinn norski, Borge Ousland, verður aðalfyrirlesarinn á Háfjallakvöldi sem Vinir Vatnajökuls og Ferðafélag Íslands boða til í næstu viku.
Børge er á meðal þekktustu núlifandi pólfara og þveraði fyrstur bæði Norður- og Suðurpólinn einn síns liðs. Auk þess hefur hann þverað Grænlandsjökul og Vatnajökul frá vestri til austurs og mun hann segja frá þeirri göngu og öðrum ævintýrum í fyrirlestri sínum.
RAX hefur sérhæft sig í ljósmyndun jökla og lífs á norðurslóðum en sýndar verða myndir úr flugferðum hans og Tómasar Guðbjartssonar læknis yfir Vatnajökul sl. haust. Þær voru farnar til að taka myndir fyrir ljósmyndabókina Jökla, sem er væntanleg næsta haust og er styrkt af Vinum Vatnajökuls.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, verður með innlegg auk þeirra félaga Ólafs Más Björnssonar og Tómasar Guðbjartssonar. Háfjallakvöldið verður haldið þriðjudaginn 24. apríl kl. 20 – 22.15 í Háskólabíói og er ókeypis aðgangur og því mikilvægt að mæta tímanlega.