Hópur skíðamanna úr FÍ Landkönnuðum, sem starfræktir eru innan vébanda Ferðafélags Íslands, kannaði í gær aðstæður til fjallaskíða á Bláfelli á Kili og var nokkuð sáttur við ferðina.
Lélegt skyggni var á toppi Bláfells en nóg er af snjó þó heldur sé hann orðinn þungur efst. Vegurinn upp Bláfellshálsinn er þokkalegur þrátt fyrir að vera þakinn holum og fær flestum jeppum eða jepplingum. Hægt er að fara á skíðin við hlið vegarins og þurfti bara að bera þau yfir um 30 metra malarkafla til að komast í brekkur Bláfells.
Athugið að mikil umferð mjög þungra bíla er upp hálsinn, vegna vélsleðaferða úr Skálpanesi, og því borgar sig að leggja þar sem nægt pláss er og sýna stórum farartækjum sem þarna fara um tillitssemi. Mjög blautt er utan vega og í vegköntum og getur verið óskemmtilegt að fara út fyrir vegkantinn.
Bláfell og Skálpanes marka upphafið að Kili einni elstu og fjölförnustu fjallaleið á Íslandi. Ekið er sem leið liggur framhjá Gullfossi en Kjölur er að sjálfsögðu enn í vetrarham og engum fær nema vel breyttum bílum, vélsleðum, skíðafólki og afturgöngum. Þangað þarf hins vegar ekki að fara til þess að komast á Bláfell.