Snjó kyngdi niður víða á suðvesturhorninu í gær. Snæfellsnesið er á kafi í snjó eftir snjókomuna og á Snæfellsjökli var varla hægt að keyra vélsleða fyrir fannfergi.

Ingólfur Eldjárn, sem tók þessar myndir, sagði að sleðarnir hefðu verið teknir af kerrunni niðri við veg og ekið uppá Jökulhálsinn en vanalega eru sleðarnir fyrst teknir af þar.

Það spáir norðanátt og kulda þannig að þessi snjór er vafalítið kominn til að vera um nokkurt skeið sem lofar góðu fyrir fjallaskíðavertíðina sem nú er gengin í garð.

Við hvetjum skíðafólk til að skoða alltaf snjóflóðamat Veðurstofu Íslands áður en lagt er í hann og hafa allan vara á sér í nýja snjónum.