Vornámskeið Náttúruhlaupa njóta sívaxandi vinsælda. Skráning í námskeiðin er núna hafin á heimasíðu Náttúruhlaupa. Námskeiðin hefjast í byrjun apríl. Til þess að ná plássi þurfa áhugasamir að hlaupa til, því eftirspurn er mikil.
Í kvöld, kl 20:00, verður haldinn kynningarfundur um námskeiðin og hlaup úti í náttúrunni. Fundurinn fer fram í húsnæði 66norður í Miðhrauni í Garðabæ.
„Náttúruhlaup er spennandi, nýr valkostur fyrir skokkara og langhlaupara þar sem valdar eru náttúrulegar hlaupaleiðir utan gatnakerfisins,“ segir á heimasíðu Náttúruhlaupa. Við hjá Úti tökum heilshugar undir þetta. „Hlaupið er á manngerðum stígum, kindaslóðum eða yfir móa, tún, fjöll og mela, hvert sem leið liggur um íslenska náttúru. Náttúruhlaup kallar á annan búnað og öðruvísi hugsunarhátt en hefðbundið götuhlaup.“
Auk þess að bjóða upp á hin vinsælu námskeið bjóða Náttúruhlaup upp á hlaupaferðir, eins og til dæmis tveggja daga Laugavegshlaup, hlaup í Þórsmörk, konuhlaup í Landmannalaugum og keppni og hlaup á Ítalíu.
Veg og vanda af Náttúruhlaupum eiga hlaupagikkirnir Birkir Már Kristinsson og Elísabet Margeirsdóttir. Elísabet sést hér á myndinni hlaupa eitt af sínum fjölmörgu ultramaraþonhlaupum í náttúrunni, en hún hefur tekið þátt í þeim þónokkrum á undanförnum árum víða um heim með mjög góðum árangri.